Við þurfum endurnýjun í stjórnmálum

Meginatriði í stjórnmálum dagsins

 

 Í Silfri Egils gerast hlutirnir og svo varð í dag (28.jan 2007) eins og oft áður.   Jón Baldvin tók sterklega undir þau sjónarmið sem ég hef sett fram frá því á haustdögum  varðandi vanda Samfylkingarinnar.    Þeir sem stóðu að því að mynda kosningabandalag einstaklinga úr fjórum stjórnmálaflokkum árin 1998-1999 og bjóða fram í Alþingiskosningum – hafa ekki gefið öðrum færi á því að skapa breiðan málefnagrunn nútímalegra sjónarmiða.    Til að slíkt verði virðist þurfa að skipta miklu fleirum útaf  - það gerir Alfreð “aðalþjálfari” þegar ekki er skorað í landsleik í 5-10 mínútur.

 

JBH segir að liðið sem stillt er upp á framboðslistum Samfylkingarinnar hafi enga málafylgju og sé ekki að ræða meginatriðin.   Ég er honum alveg sammála -  um flesta -  og hef enda bent á þetta áður m.a. í langhundi mínum í kjölfar prófkjörsins svokallaða  hér í NA-kjördæminu.   Það vantar samhljóm og innihald í málflutninginn – og það vantar stefnumótun sem hefur uppfært sig eins og stjórnmálaþróunin kallar á.   Nútíminn heimtar það að menn uppfæri sinn pólitíska hugbúnað – frá mánuði til mánaðar – og frá degi til dags; - hafi alltaf fersk svör sem eru í takti við heildarsýn hinnar breiðu miðju og til vinstri.   

 

www.bensi.is

Ég vil rifja upp nokkur þau meginatriði sem við þurfum að vinna útfrá og ég hef áður sett fram í greinum og á heimasíðunni www.bensi.is.

 

Efnahagsstefna - gjaldeyrismál; verðlags og samkeppnismál.

 Óstöðugleiki og þensla sem keyrð er áfram af álframkvæmdum og lántökum.  Væntingar um Stalínískar ofurframkvæmdir til næstu 10 ára setja spennu á vexti og verðlag – útgáfa krónubréfa staðfestir það.   Hér er vaxtamunur meiri en þekkist og verðtryggða pappírskrónan er eins og hver önnur “Vítisvél Andskotans”  sem framlengir óstöðugleikann til 40 ára.   Hér þarf skýr svör sem segja; hægjum á, kælum hagkerfið og frestum stórum virkjunum og álbræðslum – setjum slíkt í viðskiptalegt samhengi – en ekki ríkisdrifið.   Setjum stefnuna á Evrópusamruna og aðlögun að kröfum Myntbandalags Evrópu – þannig fá spákaupmenn vísbendingar sem létta á gengis-spennu og vaxtaokrinu.   Samkeppnisyfirvöld beita engum aga – enda krónan viðskiptahindrun – og fákaup ekki síður en fákeppni búa til fosendur til okurs í dagvöruverslun, með föt og skó – ekert síður en í vaxtaokrið í bankakerfinu.   Skrifum bænaskrá til erlendra banka um biðjum þá um að koma hingað (sem þeir munu gera um leið og við leggjum krónunni og tökum upp Evru).

-----------------------

-----------------------

 

Atvinnustefna;

Ríkisstjórnin er föst í fornaldarviðhorfum til atvinnuhátta þar sem landbúnaður og sjávarútvegur hafa tökin á ráðmönnum  - með spillingarkenndum hætti.   Hvalveiðar Kristjáns Loftssonar eru eitt dæmi um það og ofurtök kvótakónganna á auðlindum – um leið og yfirbygging og millifærsla í landbúnaði er fest í sessi með endemis samningi við sauðfjárbændur  - og allsherjar einokun í mjólkurframleiðslu nýtur verndar og sérstaks velvilja ríkisstjórnarinnar.Þekkingarfyrirtækin flyja til annarra landa; hátækni Marels og Össurar fr ekki svigrúm og engir nýir vaxtarsprotar fá stuðning líkt og tíðkast í nágrannalöndum; ss. ‘Irlandi, Finnlandi og í Kanada.   Um leið og látið er af álstefnunni (eða amk. hægt á) skapast forsendur til að efla hér sprotavöxt með beinum stuðningsaðgerðum, hvatningu í skattakerfinu og með því að beina opinberum fjárfestingum inn í samstarfsverkefni með viðskiptalífinu á þessu sviði.  Um fram allt þarf að fjárfesta í menntun og rannsóknum – og í endurmenntun fullorðinna.  Hækkað menntunarstig er hluti af atvinnustefnu.

Sérhæfð fjármálaþjónusta byggir á háu menntunarstigi – og aðlöguðum skilyrðum í löggjgöf.  Við eigum möguleika á að skilgreina frí-svæði í þessu skyni um leið og við setjum opinber markmið í samstarfi við viðskiptalífið og útrásarfyrirtækin.

 

---------------------

---------------------

Menntastefna;

Forsenda hagvaxtar og velmegunar til lengri tíma byggist öll á því að 90% + af innlendum börnum menntist til starfa í gegn um formlega skólakerfið.    Við  þörfnumst stóraukins hlutfalls ungs fólks í gegn um framhaldsskóla – með góðan árangur í raungreinum og með áhuga á umhverfismálum og vísindum og tækni.    ‘I dag er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að greiða framhaldsskólanum hvert óþurftarhöggið á fætur öðru – með ruglinu um skerðingu til stúdentsprófs – með niðurskurði fjárframlaga þrátt fyrir risavaxna árganga og með því að þrengja að möguleikum framhaldsskólanna til að halda úti breidd í námsframboði.   Sérstaklega eru strákar illa úti í framhaldsskólanum – og sífellt færri skila árangri sem leiðir þá áfram.   Fráleit viðhorf og vinnubrögð við kennslu í stærðfræði og fleiri raungreinum spilla árangri fjölmennra hópa velgerðra barna – sem missa áhuga og skila sér ekki í gegn um stúdentsprófið.

 

Við þessu eru til svör – og einkum byggjast þau á því að efla einstaklingsmiðun í skólastarfinu – um leið og menn nýta nýja tækni til stuðnings.  Menntaskólinn við Hamrahlíð var stofnaður af eldhugum  - og hafði ma.a það markmið að hagnýta sér hlítarnám (mastery-learning) við útfærslu á áfnagakerfinu sem þar var lagt upp með.  Því miður hefur þeirri aðferð síðan verið spillt í áfangskólum dagsins – af þekkingarleysi og íhaldssemi ríkisvaldsins og kennarasamtakanna.  Ofurlítið rofar til með því sem sumir kalla “Finnsku-aðferðin” sem byggir á því að námsönnum er skipt í tvennt – með milliannarprófum.

 

Hér þarf miklar áherslubreytingar; - bæði viðhorfs og kerfisbreytingu en umfram allt þarf að auka fjárfestingu í menntun með því að tryggja unga fólkinu í framhaldsskólunum árangur í sínu námi og stöðva þetta fráleita brottfall.  Allir vita að háskólastigið er fjársvelt og margt bendir til þess að sveitarfélögin hafi sett allt of mikla áherslu á fjárfestingar í húsum og búnaði  leik og grunnskóla heldur en að skapa góðar forsendur fyrir öflugu starfi og árangri með öllum börnum.  Brýnt er að taka upp ókeypis skólamáltíðir – fyrir alla – og einnig að setja íþróttir og listir og árangursmiðaða tómstund inn í grunnskólastarfið – fyrir öll börn  - bæði ríkra og fátækra – innfæddra og innfluttra.

 

----------------------

----------------------

 Samfélags- og skattastefna;   

 

Sitjandi ríkisstjórn hefur aukið skattheimtuna en sérstaklega hefur hún fært skattálögurnar til; yfir til þeirra sem hafa miðlungs og lægri tekjur en létt á þeim sem best eru settir.  Engir hafa fengið aðrar eins gjafir frá ríkisstjórninni eins og þau 10% sem bókstaflega vaða í peningum.  Grófast er þetta nú þegar þeim ríkustu sem hafa fjármunatekjur er hlíft við að taka þátt í að kosta rekstur RÚV ohf.    Hér er einfalt að stíga umtalsverð skref til leiðréttingar – án þess að þensluáhrif komi í kjölfarið.  Sérstaklega með því að beina aðgerðum að því að hækka persónuafsláttinn og leggja af tekjutengingar ellilífeyris og örorkubóta.   Niðurfelling á virðisaukaskatti á barnavörur er líka mikilvægt mál – um leið og sérstakur kostnaður við umönnun og uppeldi barna verður frádreginn frá skatti líkt og tíðkast í mörgum nálægum löndum.

Stórfyrirtæki og viðskiptalífið almennt þarf að fá hvata í gegn um skattakerfið til að leggja að mörkum til samfélagsverkefna – á sviði mennta, rannsókna og menningar og íþrótta – sem getur þannig lagt að mörkum til að efla eindrægni og milda þann hamslausa græðgis-svip sem stétt hinna nýríku ber í samfélagi dagsins.  (Kannski ætti að skattleggja óhófsveislur sérstaklega ef það væri einhvern veginn hægt?  Það er ekki nóg að Spaugstofan geri grín að afmælisveislum og sukki hinna nýríku.)

Ójöfnuður ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks  hefur fært okkur Íslendinga frá velmegunarþjóðum Evrópu og Norðurlanda og í átt til þess ójafnaðar og fátæktar sem Bandaríkin ein velstæðra ríkja hafa rótfest.   Slíku þarf að snúa markvisst frá.

 

---------------------------

---------------------------

 

 Lýðræði og stjórnarskrá;

Afar brýnt er að efla áhrifa almennings og aðhald að stjórnsýslunni.   Um leið er mikilvægt að skerpa á aðskilnaði framkvæmdavalds og lögggjafarvalds.  Þingmenn séu ekki á sama tíma ráðherrar og framkvæmdavaldið sé ekki að stýra starfi dómstóla og lögreglu – hvorki með hótunum og pólitískum ráðningum – né heldur með því að skammta eða skerða fjárveitingar til verkefna.  Baugsmálið er næg brýning til breytinga og sá endurtekni yfirgangur sem ríkisstjórnir og ráðuneyti sýna Alþingi.    Sjálfstæð samkeppnisstofnun og öflugt fjármálaeftirlit – sem getur haft hita í haldi við hina nýríku fursta stórfyrirtækjanna.

Stjórnarskrá þarf að útfæra þjóðaratkvæði  - og þarf að vera sett og samþykkt með þjóðaratkvæði.  Þjóðkjör forseta þarf að festa í sessi um leið og málskot hans þarfnast útfærslu í takti við aðra þjóðaratkvæðagreiðslu.   Um leið þarf að skerpa á mann-réttindaákvæðum og staðfesta rétt almennings til auðlinda lands og sjávar.  Kvótkerfið og vatnalögin mega ekki standa óhreyfð – slíkt mundi koma í veg fyrir samheldni samfélagsins  -  sem sannast að segja hefur verið ógnað allt of gróflega um langa tíð undir ríkisstjórnum Halldórs/Davíðs og Geirs.

 

----------------------------------

 

 

 Heilbrigðismál og þjónusta við aldraða;

Ljóst er að heilbrigðiskerfið er í vanda.   Ofþensla og sjálftaka hefur ekki bætt þjónustu og starfsfólk er að niðurlotum komið vegna vinnuálags og miðstýringar.  Sérfræðingar bíða eins og gammar eftir því að geta hremmt til sín bestu bitana og sótt sér tækifæri til sjálftöku úr kerfinu.

Hér þarf að taka til hendi; með sveigjanlegu kerfi sem stöðvar einkavæðingu í hagnaðarskyni.  Einkarekstur og samningsrekstur er eðlilegur hluti af fjölbreytni í sveigjanlegu kerfi – þar sem opinberar stofnanir fá jafnframt svigrúm sem sjálfseignarstofnanir með ábyrgri stjórn fagmanna og borgara – í harmóníu við viðskiptalífið og velvildaraðila.

Aðbúnaður aldraðra er ekki í samræmi við það ríkidæmi sem við státum af.  Hér þarf samhæfingu við önnur kerfi sem gerir okkur kleift að byggja á sjálfstæðri búsetu allra aldraðra meðan þeir eiga nokkra möguleika.  Þar þarf að útfæra samstarf ríkisvaldsins, sveitarfélaganna, félagasamtaka og velvildraraðila til að tryggja að úrræðin verði ekki að leikvelli fyrir græðgi fjármagnseigenda.

 

---------------------------------------------------- 

 

Utanríkismál; hlutverk í samfélagi þjóða og samstaða með bræðraþjóðum.Ísland er ekki bara smáþjóð þegar kemur að samstarfi við aðrar þjóðir.  Ísland hefur eitt atkvæði í slíku samstarfi þegar ríkisstjórn heldur höfði og vinnur með bræðraþjóðum að alvöru heimsmálum.  Þar hefur Ísland sannað sig eins og sjá mátti í samvinnu innan Sameinuðu Þjóðanna varðandi hafréttarmál og sáttmála þjoðanna um þau efni.Stígum út úr taglhnýtingshlutverki við Bush-stjórnina í USA.  Sækjum okkur samstarf við Evrópu og Evrópubandalagið.  Leitum eftir frumkvæði um samstarf á Norðurhöfum og heimskautasvæðum um vöktun og björgunarmál.  Danir eru líklegri til að verða vinsamlegir heldur en Norðmenn – og minnumst í því sambandi Svalbarða og NA-Grænlands.      Mikilvægt er í þessu samhengi að setja stefnuna á Evrópusambands-aðildina og leita samninga sem þjóðin fær síðan að takast á við í atkvæðagreiðslu.

 

------------------------

------------------------

 

 Umhverfismál;

Sú harkalega öfgastefna sem rekin hefur verið með Stalínískum stórvirkjunum og yfirgangi gagnvart náttúru landsins hefur leitt til þess að efnahagsöryggi þjóðarinnnar hefur verið ógnað,  samstaða og samheldni hefur gengið í sundur og mjög skammsýn sjónarmið hafa hrifsað til sín óafturkræfan forgang að náttúru landsins.

 

Hér þarf að snúa við blaði; efla sátt og skilning og bera fram sýn sem horfir á ábyrgð kynslóðanna til 30 - til 50 – og til hundraða ára.   Stærsta auðlind Íslands er umhverfi og náttúra og mikilvægt að nýting orkulinda og nýting stofna og ræktun skemmi ekki fyrir frmatíðarkynslóðum.  Þess vegna eru sjónarmið Framtíðarlandsins mikilvægt ákall – um að atvinnustefna sé sett í samhengi við framtíðarsýn og ábyrga hugsun með hagsmuni ungra og ófæddra barna Íslands.  Um leið og við viðurkennum að umhverfi er auðlind og að umgjörð náttúrunnar geti nýst framtíðarkynslóðum til að efla vöxt og velmegun þá byrjum við að bera virðingu fyrir þeim verðmætum.    Það er með öllu óviðunandi að núllvirða umhverfistjón í öllum útreikningum á stórvirkjunum enn árið 2007.Ömurleg frammistaða ríkisstjórna sem vinna gegn alþjóðasamstöðu í umhverfismálum – eins og sýnir sig í hvalveiðum í andstöðu við samfélag þjóða – og eins og sýnir sig í þeirri undanþágu sem sótt var við Kýótóbókunina um losun gróðurhúsalofttegunda.   Hér eiga Íslendingar tækifæri  - sem vinnur með varðveislu umhverfis og lífsskilyrða fyrir framtíðarsamfélag menntaðra einstaklinga – sem byggja upp velferð og frelsi í takti við samfélög og umhverfi nær og fjær.

  

----------------------

---------------------

Ég ætlaði bara aðeins að rifja upp;   en missti mig aðeins og lét þá bara flæða …….

 

Hef samt ekki sagt mitt síðasta þó ég láti staðar numið í kvöld.

 

Veit fyrir víst að það er fjöldi fólks sem hugsar svipað og ég og sem bíður enn eftir því að Ingibjörg kalli okkur inn á sviðið og byggi upp málefnagrunn fyrir Samfylkinguna; þannig að kjósendur geti fundið traust í málflutningi og útfærslu á meginatriðum.

 

------------

------------

 

 Í aðdraganda kosninganna í vor: Skemmti mér við að stilla upp Skuggaráðuneyti Ingibjargar (líkt og JBH) og sé það fyrir mér miklu fremur sem hugmyndahópa og málfylgjendur – sem halda málþing  - undir forsæti ráðherraefna heldur en að verið sé að raða saman einstaklingum.   Hef fyrir löngu komið á framfæri við lykilmenn Samfylkingarinnar þeirri hugmynd að vinna málefnagrunninn með slíkum hætti.  Ingibjörg hefur etv. ekki fengið þær tillögur í hendur sjálf?   Það verð ég að laga.

 

------------------

------------------

 

Vel á minnst; hefur nokkur heyrt  frambjóðendur Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi taka til máls og tala í takt við formann flokksins?   (Mundi láta ábendingu um slíkt koma mér skemmtilega á óvart.)  28, janúar 2007