Húsnæðismálin í nóvember 2008

  AÐ LÆRA AF REYNSLUNNI 

Ræða á Borgafundi í Háskólabíó 24. nóvember 2008

Eitt af grundvallarhlutverkum stjórnvalda í sérhverju lýðræðisríki er að tryggja jafnræði þegna sinna.   Slíkt er grundvallað í stjórnskipan – með frjálsu kosningakerfi og þrískiptingu ríkisvaldsins í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. 

Á síðustu áratugum hefur fjórða valdið – vald fjölmiðlunar og frjálsrar upplýsingar margsinnis verið nefnt til sögu sem mikilvægt verkfæri í þágu almannahagsmuna þannig að þrískipting hins formlega valds veitti nægilegt aðhald til að almenningur gæti valið í kosningum í sem bestu samræmi við hagsmuni sína og grundvallar gildi. 

Allt frá lokum Síðari Heimsstyrjaldarinnar  hefur löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið í  Vestur-Evrópuríkjum beitt sér til að jafna hlut þegna sinna í gegn um skattheimtu og margvíslega uppbyggingu almenns menntakerfi og heilbrigðiskerfis – ásamt víðtæku þjónustukerfi á sviði félagsmála.  

Húsnæðiskreppa var ríkjandi í allri Evrópu – í þann mund sem uppbygging nútímasamfélaga hófst að lokinni heimsstyrjöld og afar mörg ríki bjuggu við fátækt og krónískt atvinnuleysi.    Jafn stórfelldu atvinnuleysi og almennri örbirgð  var ekki til að dreifa á Íslandi í sama mæli og meðal hinna stríðshrjáðu – en engu að síður var almenningur á Íslandi ekkert meira en svo bjargálna og árstíðabundnar stór-sveiflur á tekjum - vinnu og veiðum - voru regla fremur en undantekning.    Húsnæði  var víða slæmt – með braggahverfi Reykjavíkur og kjallaraholur og skúrabyggð í Kópavogi og víðar – torfbæir og bárujárnskumbaldar hýstu 5-7 manna fjölskyldur í einu svefnherbergi.    Við sem erum eldri en 50 ára og munum að einhverju leyti eftir þessum tíma - - þó hann hafi verið misjafnlega nærri fjölskyldum okkar sjálfra hvers og eins.     

Séreignarstefnan  á íbúðarhúsnæði varð ofan á sem meginlausn á Íslandi - - eftir mismunandi – stundum alltof veikburða tilraunir til að byggja upp félagslegt húsnæði verkamannabústaða og leiguíbúða - - og sjálfseignarhúsnæðis í byggingasamvinnufélögum.    

Trendinn varð sem sagt að ALLIR SKYLDU EIGA SITT HÚSNÆÐI og til þess þurftu margir að taka á sig drápsklyfjar – og  byggja sjálfir - - um tíma var það álitin dyggð að búa í ómáluðu og hurðarlausu á meðan menn biðu eftir því að verðbólgan eyddi takmörkuðum lánum  - - eða menn kæmust í uppgrip á vertíð eða í öðrum gróða.     

Þetta var hin Sér-íslenska leið  og býsna ólík því sem t.d. Danir og Svíar undirbyggðu á sama tíma - - þar útfærðu menn víðtæk kerfi húsnæðissamvinnufélaga og verkamannabústaða - - sem reist voru með samstarfi ríkisvalds og launþegarhreyfinga - - ekki það að húsnæðiskreppur hafi ekki stungið sér niður í þeim löndum inn á milli en þá ekki síst lýst sér í skorti á húsnæði.   

Þegar verðbólgu-brjálæðið var komið í hámark á Íslandi  undir lok áttunda áratugarins – þegar  vextir voru um lengri tíma neikvæðir - - - skapaðist sú almenna tilfinning að það væri ranglátt að lántakendur þyrftu ekki að greiða raunvirði lána sinna til baka.  Sú tilfinning var bökkuð upp með sanngirnisrökum:   - - þú færð lánað og þú greiðir jafnvirði til baka + hóflega vexti.  Menn sögðu að það mætti ekki “brenna sparifé gamla fólksins” í verðbólgunni - - sem var auðvitað allt satt og rétt.  Enginn brást við með því að segja;  jú brennum víst upp sparirfé ömmu og afa . . . Að sjálfsögðu  ekki;   

Lánskjaravísitalan var fundin upp – og að lokum fest í lögum 1979 – og verðtrygging íbúðalána og námslána varð með því almenn.   Á sama tíma virtust  forsvarsmenn almennings og launafólks telja að réttlætis og jafnræðis mundi verða gætt - - þar sem launaþróun í launavísitölunni mundi fylgja eftir verðtryggingu lána.   Formælendur verðtryggingar fullyrtu meira að segja - að með vísan til stöðugleika í þróuðum löndum - eins og í Swiss  - þá mundu raunvextir verðtryggðra lána á Íslandi aldrei fara yfir 1-2% -         

 - - þrátt fyrir efasemdir margra um verðtryggingu lána og launa  varð ekki nein vörn í málinu á þeim tíma - - enda væntu þess allir að menn væru á leiðinni inn í eftirsóttan STÖÐUGEIKA  - - (Hve oft höfum við heyrt þetta töfraorð – STÖÐUGLEIKI) - en sá stöðugleiki lét heldur betur á sér standa. 

Árin 1982-1984 var verðbólgan meiri en áður hafði þekkst.    Í kosningum 1983 var skipt um ríkisstjórn og eitt af hennar fyrstu verkum var að aftengja launavísitöluna og frysta laun alls almennings.    Lánskjaravísitalan mældi hins vegar óhindrað – og höfuðstóll íbúðalána og námslána tvöfaldaðist á undra skömmum tíma.    Mánaðargreiðslan hjá skuldsettum fjölskyldum óx að sama skapi.    

Sá sem hér skrifar var í þessum fyrsta hópi íbúðakaupenda  og námsmanna með allar skuldbindingar í verðtryggðum íslenskum krónum - - og ég þekki dæmi um meira en tvöföldun á greiðslubyrðinni á einu ári - - án þess að fjölskyldan ætti undankomu auðið.     Eins og gengur gáfust einstaka aðilar upp – seldu húsnæðið fyrir slikk - - jafnvel fluttu úr landi – aðrir stóðu í skilum - - og börðust og bösluðu áfram – tóku á sig drápsklyfjarnar og litu ekki glaðan dag í fjárhagslegu tilliti svo árum skipti og gera sumir etv ekki enn. 

Í framhaldi af þessum hremmingum var stofnað til andófs - -Sigtúnshópurinn um húsnæðismál var stofnaður;   og í beinu eða óbeinu framhaldi af því voru húsnæðissamvinnufélögin Búseti stofnuð - - með það fyrir augum að koma upp hagkvæmu íbúðarhúsnæði fyrir almenning - - án þess að menn tækju á sig ótakmarkaða persónulega áhættu og fyrirséðar drápsklyfjar með sívaxandi greiðslubyrði. 

Til að koma til móts við þann hóp íbúðarkaupenda sérstaklega sem hafði orðið fyrir gríðarlegri þyngingu afborgunarbyrðinnar - - var stofnað til svokallaðra “greiðsluörðugleika-lána” - - - Vongóður sótti um og taldi sig geta sýnt fram  á að greiðslubyrðin hefði þyngst óhæfilega mikið;     - - beið eftir svari - - og eftir dúk og disk kom svarið;“ . . . . þar sem þér eigið ekki í vanskilum með húsnæðislán uppfyllið þér ekki skilyrði til viðbótarlánveitingar . . . “     Mínum manni var brugðið; - - neitað um viðbótar lánveitingu VEGNA SKORTS Á VANSKILUM      - - - - - var hægt að verða fyrir öllu meiri niðurlægingu. 

Nágranni minn fékk á sama tíma veglegt viðbótarlán - - og lengingu lánstíma - - líklega líka lækkað vexti - - og hann hélt áfram sínu neyslustigi;   - enda hafði hann komið sér upp velheppnuðum vanskilum . . . undangengna mánuði.    

Ég get trúað ykkur fyrir því að mér fannst pelsinn hennar frænku minnar eftirtektarverð undirstrikun á því réttlæti sem yfirvöld húsnæðismála kusu að bjóða okkur upp á í aðdraganda jólanna fyrir þessum ca. 20 árum. Í framhaldinu kynnti ég mér útfærslu þessarra viðbótarlána - - -sem meira og minna var stýrt til þeirra sem höfðu hlaðið upp vanskilum . . . . .  og því stærri vanskil því betra að því er virtist.  Hinir sem haldið höfðu í skilum - - með ærnu erfiði eða aðstoð fjölskyldunnar  - - þeir voru skildir eftir.   Fengu ekki aðstoð - - “þurftu ekki aðstoð;” sagði ágætur Alþingismaður sem ég ræddi málið við á þeim tíma. 

Hér er ég kominn að einu grundvallar atriði;    þau úrræði sem við NÚ  þurfum að kalla fram til varnar fjölskyldunum í landinu verða að virða kröfuna um jafnræði – milli þeirra sem skulda og hinna sem halda í skilum:   milli þeirra sem skulda mikið og hinna sem skulda minna. Mundum við t.d. sætta okkur við að þeir sem hafa háar tekjur fái hærri persónuafslátt hjá skattinum heldur en hinir sem vinna fyrir lágmarkslaunin - - - mundum við sætta okkur við það?   Þeir sem hafa lágar tekjur þurfa kannski ekki eins mikið á persónuafslætti að halda - - eða hvað? 

Með lögvarinni verðtryggingar á lánum er áhættunni af lánaviðskiptum ójafnt deilt á milli skuldara og skuldareigenda.    Skuldarinn tekur alla áhættuna sín megin og setur þess vegna gjarna allar eignir sínar að veði – þó stofnað sé til viðskiptanna miðað við 60-80% veðhlutfall . . . af hverju ekki 100% veðsetning  - jú það er  til að lánveitandinn sé varinn sem allra best.    

Auk þess hafa í okkar sér-íslenska kerfi verið lagðir verulegir vextir ofan á verðtrygginuna - - þvert á fyrirheit og þvert á þá meginhugsun að vextir í viðskiptum spegli áhættu-jafnvægi aðila.   Þessi vaxtaskrúfa á verðtryggðum lánum er ein birtingarmynd græðginnar og yfirgangs fjármagnseigenda - -  

Þess vegna er hollt fyrir okkur eldri  að rifja upp reynsluna frá 1979-1984 – og útskýra fyrir unga fólkinu reynsluna af þeim ósköpum sem margir hafa ekki enn náð sér af?  Við skulum líta þessi 25 ár til baka vegna þess að við höfum reynslu af slysalegri framkvæmd þar sem ríkisvaldið beitti handafli til að mismuna skuldurum og skuldareigendum - - flutti alla áhættu efnahagsþrenginganna 1983 með tvöföldum þunga til íbúðarkaupenda og þeirra sem höfðu nýlokið námi. 

Hagkenningar fjalla um kreppuleiðréttingu eignaverðs; - - og leggja upp úr því að markaðir nái jafnvægi eftir þenslubólur.   

Hugmyndin um allt að 6% raunávöxtun í hagkerfum Vesturlanda er auðvitað búin að vera - - hún stenst ekki til lengri tíma - - og þess vegna verða kreppur og ýktar hagsveiflur þegar græðgisbylgjurnar brotna. 

Einn slíkur brotsjór græðginnar gengur yfir okkur núna;  - sá  hefur að hluta komið að utan en að hluta er vandinn  heimatilbúinn.  Í því samhengi sem við ræðum núna skiptir ekki öllu máli hversu stóran hlut einstakir leikendur eða fyrirtæki eiga í þeim skelfingum sem yfir okkur hafa verið kallaðir. 

Það sem skiptir hins vegar máli núna að umtöluð “leiðrétting á eignaverði” – sem þýðir á mannamáli hrun á fasteignaverði - - og hrun á gengi íslensku krónunnar með fyrirséðri verðbólguskriðu – þetta fyrirséða hrun verði ekki látið flytja yfirþunga af  verðtryggðum húsnæðislánum og námslánum yfir á fjölskyldur sem hafa skuldsett sig hóflega - - miðað við þær aðstæður sem hér var boðið upp á síðustu ár. 

Að óbreyttu flytur verðtryggingin yfirþunga  - kannski beinlínis tvöfaldan þunga af falli krónunnar yfir á þá sem skulda í húsnæðinu; þannig að þegar verðgildi íslensku krónunnar fellur – jafnt fyrir okkur öll; - en vegna þess að hún fellur þá hækkar höfuðstóll húsnæðislánanna af því vísitalan speglar verðlagshækkanir en ekki verðmæti . . . . og með óskerti verðtryggingu  er fjármagnseigendum færður beinn hagnaður af verðfalli krónunnar . . . á kostnað innlendra skuldara verðtryggðra námslána og húsnæðislána  

Umrædd kreppu-leiðrétting eða verð-leiðrétting íbúðarhúsnæðis nær þannig ekki “markaðslegum tilgangi sínum” – með því að skuldararnir fái stórlega þyngdar byrðar meðan fjármálastofnanir og fjármagnseigendur hagnast:  þannig er jafnræði aðila algerlega  borið fyrir borð. 

Lántakendur eru með þessu dæmdir til að greiða fjármagnseigendum skaðabætur um áratugi - - langt umfram verðmæti þeirra veða sem upphaflega voru settar til tryggingar lánunum.

Það er til lausn á þessum afmarkaða hluta á vanda heimilanna

Fyrsta skrefið til að koma í veg fyrir að slíkt gerist er að frysta vísitölumælingu Hagstofunnar með lögum.    Frysta vísitölu neysluverðs til verðtryggingar með lögum við gildi hennar 1. September 2008 – eða jafnvel eitthvert eldra gildi – og festa viðmiðun verðtryggðar pappíra yfir ákveðið tímabil  - - eða þar til við komust  yfir stærstu verðbólguskriðuna sem leiða mun af  þeirri háskatilraun . . sem felst í svokallaðri “fleytingu krónunnar.”    

Allir spá því að fleyting krónunnar muni kalla fram jafnvel 30-50% gengisfellingu – og ekki ljóst hversu fljótt slíkt hrun gjaldmiðilsins gengur til baka  - eða yfirleitt hvort þetta gengisfalla gengur nokkurn tímann til baka. 

Það er algerlega óboðlegt að slíkri háskatilraun: - sem felst í fleytingunni sé haldið til streitu – án þess að aftengja þá þekktu hættu sem felst í óskertri verðtryggingu íslensku pappírs-krónunnar fyrir allar skuldsettar og sérstaklega fyrir ungar fjölskyldur.    

Með því væri verið að skerða möguleika fjölmargra foreldra til að tryggja börnum sínum þokkalegt fjárhagslegt öryggi um  lengri tíma.    Með slíkum gjörningi væri  því brotið á ungum og ófæddum íslendingum – væri verið að veðsetja framtíð okkar fólks og binda þeim bagga sem ekki er ásættanlegt. 

Það er ein grundvallarskylda stjórnvalda að gæta jafnræðis allra við megingerðir sína - - þeim er einnig ætlað að gæta meðalhófs í stjórnarathöfnum - -amk. ins og þær hitta einstaka hópa.  

Nú liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur þegar beint amk. 200 milljörðum til að koma í veg fyrir hugsanlegan skaða fjármagnseigenda í peningamarkaðsreikningum.    Ríkisstjórnin hefur lofað að koma í veg fyrir tjón allra íslenskra innistæðueigenda  einkavæddu bankanna á Íslandi.    Það er gert gagnvart þeim sem eiga peninga.  

Flogið hefur fyrir að ríkisstjórnin beindi 11 milljörðum yfir til Sjóðs nr.9 hjá Glitni – að því er virðist til að firra einn stjórnmálamann öðrum fremur niðurlægingu . . . . Að vísu eru innstæðueigendur í peningamarkaðsreikningum  Sparisjóðanna og annara verðbréfafyrirtækja ekki að njóta  hinna rausnarlegu framlaga ríkisvaldsins  

Ríkisstjórnin hefur sett augljósan  forgang í að bjarga fjármagnseigendum - - en einungis boðið upp á frestun þyngstu byrða húsnæðiskaupenda með vísitölufrestun . . . sem leiðir hins vegar til verulega þyngri byrðar að ári liðnu og um fyrirsjáanlega framtíð.   

Sá gerningur mun örugglega draga úr hættunni á að fjölmennir hópar íbúðarkaupenda beinlínis hætti að greiða af lánum – sem sýnilega hækka umfram markaðsverð eignanna á næstu mánuðum.     

Auðvitað eiga sem flestir að sækja um slíka frestun - - vísitöluhækkana - - og vinna tíma til að koma sér á leið út úr þrældómsklúðrinu - - ef ekkert annað er að gert.

Guði sé lof fyrir Íbúðalánasjóð

Frjálshyggju-græðgin rak ótrúlegan áróður gegn Íbúðalánasjóði um árabil – eða allt frá því að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Geirs, Halldórs  og Valgerðar færð handvöldum einkavinum ríkisbankana – á gjafverði.   

Viðskiptaráð Íslands og fleiri samtök í viðskiptalífi hafa - - rekið þvílíka sýbylju gegn opinberum rekstri á Íbúðalánasjóði - - að það ætti að verða mikilvægur þáttur í rannsókn á orsökum og afleiðingum hruns fjármálakerfisins .

Markaðsöfgamennirnir hafa auk þess haldið úti beinum ósannindum um hlut Íbúðalánasjóðsins í húsnæðisbólunni - - með því að skrökva því að það hafi verið ´´Ibúðalánasjóður sem fór í samkeppni við bankana.   Sannleikurinn er hins vegar sá að það voru bankarnir sem fóru af  stað á markaðinn með undirboð á vöxtum og markföld yfirboð á lánsfjárhæðum:

Meðan Íbúðalánasjóður veitti að hámarki 80-90% lan miðað við brunabótamat - og að hámarki 18 milljónir voru bankarnir að bjóða 80-90-100% af kaupverði - - og veðsettu eignir án viðskipta - - miðað við markaðsmat.

Bankarnir buðu upp á myntkörfulán og 50:50 íslend:erlend - - og margvísleg önnur lán - - - -

Nú vitum við mætavel að það var hreint ekki Íbúðalánsjóður sem skóp þenslubóluna á séreignum og stærra húsnæði á SV-landi.  Við' vitum líka að það var ekki samkeppni frá Íbúðalánasjóði sem felldi bankana græðgisvæddu; . . sei ,  sei, nei.  

Núna veit allur almenningur á Íslandi að Sjálfstæðisflokknum hafði næstu því tekist að eyðileggja Íbúðalánsjóð - - og ofurselja allan fasteignamarkaðinn þeim mönnum sem hafa rústað fjármálakerfi þjóðarinnar með meira en vafasömum vinnubrög'um.  Föllnu bankarnir stunduðu sín viðskipti í ramma og undir verndarvæng fyrri stjórnvalda - - og með blessun Seðlabanka og Fjármálaeftirlits og hafa greinilega stundað háskalega starfsemi - - eins og staðfestist betur frá degi til dags.

Nú má þjóðin sannarlega þakka fyrir að hafa Íbúðalánasjóð -  og að því er virðist þokkalega endurreistan pólitískan vilja til að reka sjóðinn áfram og fela honum umtalsverð verkefni - - við endurreisn hrunins húsnæðismarkaðar

 . .  Núna fáum við því ´miður þær fréttir að Íbúðalánasjóður hafi mögulega tapað 10-15 milljörðum í fjárvörslu hjá einkavæddum banka - - og með því sé eiginfjárstöðu Íbúðalánsjóðsins ógnað.      Á sama tíma telur ríkisstjórnin og verkalýðsforystan sig hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að leggja verðtrygginguna til hliðar - - hvorki um tíma né varanlega.  Slíkt mundi setja  fjárhagslega afkomu lífeyrissjóðanna og rekstrarlega stöðu Íbúðalánasjóðs og bankakerfisins í uppnám . . . er sagt.

.  Ég segi þvert á móti;  ríkisstjórn sem greiðir 11 milljarða inn í sjóði gjaldþrota Glitnis - - ríkisstjórn sem ráðstafar allt að 200 milljörðum til að lágmarka tjón fjármagnseigenda í einkavæddum bönkum . . sú ríkisstjórn sem hefur gefið fjármagnseigendum þennan forgang hún ætti ekki að vera í vandræðum með að leggja 20-30  milljarða inn í Íbúðalánsjóð - - - og gera honum þannig betur kleift að takast á við það risaverkefni sem er framundan við að leysa til sín húsnæði sem komið er í rekstrarþrot. 

Stærsta ógnin fyrir lífeyrissjóðina til framtíðar –og fyrir endurreisn peningakerfis  - er nefnilega sú ef fólkið hættir að borga – ef fólkið missir vinnu og getur ekki borgað - - ef íbúðalánin fá að hækka með óskertri vísitölumælingu – þá kann hópur fólks að komast að þeirri niðurstöðu að það sé ekki til neins að taka á sig drápsklyfjarnar - - fólk  hættir að borga og flytur úr landi ef þess er kostur, - sér fyrir að verða eignalaust hvort sem er ef fasteignaverð fellur um 40-50%. 

Komi til slíks kemst  Íbúðalánsjóður  fljótt í kröggur - - þá komast lífeyrissjóðirnir í vandræði og þá verður ekki auðvelt að reisa hér fjármálakerfi -  byggt á íslensku krónunni.  

Það er í mínum huga meginatriði að losna undan verðtryggingunni á húsnæðislánum og námslánum - - - - og það gerist ekki nema sett sé upp plan um það hvernig við komumst inn í nothæfa mynt til framtíðar  - - og að mínu mati með því einu að við komumst í skjól hjá Evrópska Seðlabankanum – með samningum og í góðri sátt við nágrannaríkin sem við eigum sammleið með. 

Það er stærsta hagsmunamál heimilanna og alls unga fólksins að komast út úr þessum dverg-gjaldmiðli sem hefur átti stóran þátt í að koma okkur í þessi ægilegu vandræði og ekki í fyrsta skipti.  

Með samningum við Evrópuþjóðir og nánari samleið t.d. með Danmörku og Svíþjóð gætum við um leið endurnýjað samfélagslegt réttlæti  og við skrúfum til baka þau forréttindi sem einkavæðing færir fjármagnseigendum og spilltu frekjuliði - - við virkjum velferðarríkið og setjum fjáraflamönnum skýrar reglur, höfum með þeim eftirlit og köllum fram ábyrgð þeirra gagnvart samfélagslegum gæðum og gildum  - og krefjum þá um virðingu fyrir umhverfinu og mannlegri reisn og réttindum.    

Með því að hafna sér-íslenskri verðtryggingu  þá höfnum við sér-íslenskum þrældómi og ranglæti sem leitt væri yfir kynslóðirnar sem eru núna á viðkvæmasta aldrinum. 

Eldri kynslóðirnar sem hafa kannski efnast þokkalega – eiga nú sparnað (sem ríkið tryggði) – hafa kannski fengið ríkisstyrk til hlutabréfakaupa og borga 10% skatt af fjármagnstekjum - - þessi hópur sér fram á þokkalegar greiðslur úr lífeyrissjóðum - - og hefur vel efni á að leggja að mörkum til framtíðar annarra.

Ég hef nokkrum sinnum notað hugtakið “frekjukynslóðin” til að lýsa ákveðnum hópi meðal betur settra komnum yfir miðjan aldur.    Það er komið að einmitt þessum hópi að leggja verulega að mörkum - - ekki síst vegna síns hlutar í því að skapa það kerfi sem nú er hrunið í höfuðið á okkur.

Frekjukynslóðin;

  • kom sér upp íbúðarhúsnæði á tímum verðbólgu og neikvæðra vaxta og horfði á lánin hverfa og verða að engu
  • framkvæmdi á tímum eftirágreiddra skatta - þannig að menn tóku “lán” hjá sjálfum sér og greiddu skatt með miklu verðminni krónum
  • varð fyrst til að sækja fjármagnstekjur á verðtryggðum kjörum - með umtalsverðri raunávöxtun
  • fékk “ríkisstyrk til að kaupa hlutabréf” í formi skattafsláttar ár eftir ár
  • hefur einungis greitt 10% skatt af fjármagnstekjum nú um árabil - -
  • reið græðgisölduna hæst meðan arðgreiðslur og hækkun hlutabréfa færðu mönnum peninga heim í hús - með fyrirhafnarlausum hætti - - einkum árin frá 2003-2007.   Bæði hafa margir innleyst hagnað og fjárfest út á slíka eignamyndun og þannig sótt sér hagnað með lágu skatthlutfalli.
  • finnst sjálfsagt að hún fái ókeypis í sundlaugarnar  - jafnvel á álagstímum, (en amast jafnvel við börnum að leik og í skólasundi eða við æfingar í sundfélögum.)
  • gefur skít í kjör annarra sem búa við aðrar aðstæður - - og tileinkar sér sjálflæga og sjálfselska umræðu í alla staði
  • vill geta búið á Íslandi eða við sólarstrendur eftir því hvort er “hagstæðara”

Þessi sama kynslóð hefur í auknum mæli verið að tileinka sér það viðhorf að þau hafi “einhvers konar náttúrulegan rétt” til “njóta” fjámuna og eigna og veita sér þannig nokkurn lúxus - og í sumum tilfellum mikinn lúxus.  

Frekjukynslóðin hyggst sem sagt eyða peningum og eignum á meðan hún er lífs - - og túlkar hið kristilega viðhorf um verðmætin sem “mölur og ryð fái grandað” - þessu eyðslu-viðhorfi sínu til réttlætingar. “Við tökum ekki eignirnar með okkur í gröfina” . . . . . . !

  • Frekjukynslóðin hefur ekki endilega sérstakan áhuga á að leggja börnum sínum og barnabörnum fjárhagslegt lið . . . . .amk. ekki í sama mæli og sumar fyrri kynslóðir.

Viðhorf “Frekjukynslóðarinnar” er gríðarlega langt frá því viðhorfi margra af fyrri kynslóðum – sem voru aldar upp við þröng kjör og hafa síðan verið raunverulega þakklátar fyrir að fá að njóta betra lifs.   Við sjáum himin og haf á milli viðhorfa fólks í þeim breiða hópi sem er frá 50 ára til 90 ára að aldri. 

Ég átta mig ekki á hversu stór hluti hefur tileinkað sér viðhorf og lífshætti “Frekjunnar” - - en mér sýnist að sá hópur hafi virkilega gengið á vald græðgistrúboði frjálshyggjunnar  - og telji sig jafnvel eiga einhvern æðri rétt til að njóta óskertra gæða framundan.    

Þessi hópur fólks vill viðhalda verðtryggingunni alveg fram í rauðan dauðann - - og vill með því tryggja sér ávísun á forréttindi til frambúðar -  - og það þrátt fyrir að þessi kynslóð eigi ekki minnstan þátt í þeim hrunadansi sem græðgin leiddi og skilur nú allt eftir í rúst.

Jafnræði hagsmuna

Ég held að stjórnvöld og hreyfing launafólks verði að stemma stigu við kröfum frekjuliðsins og græðginnar og setja hagsmuni ungra fjölskyldna og einkum barna til jafns við ítrustu kröfur hinna.   Málefnaleg og hógvær rökræða ætti að leiða menn til niðurstöðu sem getur orðið ásættanleg til lengri tíma.V

ertryggða íslenska pappírskrónan ber í sér vaxtafót sem hækkar vegna kostnaðarhækkana  ekki síst erlendis og vegna gengisbreytinga - ekki vegna verðmætisaukningar eigna.   

Verðtrygging fjárskuldbindinga staðsetur alla áhættu hjá lántakendum  - en fjármálastofnanirnar verða stikkfrí - -og því hafa þeir ekki sömu bráðu hagsmuni af því að halda verðbólgu í skefjum.

Verðtrygging með verðhækkanavísitölu þekkist hvergi nema á Íslandi - sem segir mér að aðferðin sem slík byggist ekki á góðri kenningu - né réttlætisrökumÞað er í þessum aðstæðum sem stjórnvöld verða að grípa inn í og stemma stigu við yfirgangi og forréttindum Frekjukynslóðanna og græðgisliðsins - - og taka ábyrgð á því að þessi kynslóð deili skaðanum og kostnaðinum af handónýtri íslenskri krónu - - að minnsta kosti tímabundið.  

Fundarmenn; - andófsfólk - ! - þið sem viljið að við ykkur sé talað sem ábyrga fulltrúa almennings:  

 .   Hafa þeir sem hrópa slagorð gegn lánum frá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum - - upp á aðrar lausnir að bjóða?   

 . . Hafa þeir sem hrópa slagorð gegn samstarfi og samningum við Evrópuþjóðir – upp á aðra valkosti að bjóða?   

Hafa þeir sem segja að nú eigi ekki að taka lán erlendis upp á aðrar lausnir að bjóða? 

Ég leyfi mér að efast um það.    

 . . Varið ykkur á þeim sem eru fastir í slagorðum og upphrópunum – við vitum ekkert hvert þeir ætla með okkur.  

Að lokum:

Ég deili gremju og óþoli í garð sitjandi stjórnvalda og eftirlitsstofnana, 

. . . og stígi sitjandi ríkisstjórn ekki nein alvöru skref til þess að endurnýja framlínuna í lykilstofunum og í eigin röðum

- - og stígi ríkisstjórnin ekki betur til móts við bráða vanda heimilanna þá tekst henni ekki að sættast við okkur þennan almenning og ekki heldur við sitt nánast bakland  - að minnsta kosti ekki Samfylkingunni.

Þá verður stutt í kosningar:   

. . . . .þyngjum þess vegna kröfuna á tiltekt í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti og endurnýjun í framlínu stjórnmála

- - – en köllum umfram allt annað fram alvöru aðgerðir sem forða gjaldþrotum fjölskyldna og fyrirtækja en tryggja um leið jafnræði milli hópa og milli kynslóðanna  

- - - köllum fram skýra framtíðarsýn stjórnmálaflokkanna – eða stofnum nýja  – hvar sem við síðan viljum skipa okkur í flokk þegar kemur að kosningum.

Göngum þannig upp og fram til fundar við bjartari tíma