Erlent vinnuafl

Erlent verkafólk án réttinda á Akureyri? 

Ég verð að viðurkenna að ég  hef  þungar áhyggjur af orðrómi um að einhver hópur erlendra verkamann, sem eru á vegum fyrirtækja hér á Akureyri, fái ekki greidd lágmarkslaun.   Einnig heyrum við að aðbúnaður sumra hópa kunni að vera fyrir neðan allar hellur, – við höfum auðvitað fengið slíkt staðfest með dæmum frá Reykjavíkursvæðinu.Auðvitað er það hið besta mál að fólk flytjist til bæjarins – og sérstaklega þegar skortur er á vinnuafli – en það er hins vegar alls ekki sama hvernig tekið er á móti þessum gestum eða nýju íbúum.  Það er gríðarlega mikilvægt að stéttarfélögin og samtök atvinnulífsins beiti sér sameiginlega – ásamt eftirlitsstofnunum hins opinbera - til að tryggja að farið sé að réttum reglum og kjarasamningum.  Það er ekki síður mikilvægt að tryggja það að fjölskyldur þessarra gesta og nýju Íslendinga njóti allra mannréttinda – og verði ekki látnar búa í kös í ömurlegu húsnæði eða neitað um skólavist fyrir börnin. 

Réttindi á vinnumarkaði

Hér er samt ekki síst mikið í húfi til að verja lífskjör launafólks og velferð í landinu. Því má ekki kasta á glæ fyrir ósvífni þeirra sem nýta sér neyð atvinnuleysingja í fjarlægum löndum eða skammsýna gróðahugmynd í þensluástandi.  Evrópusambandið hefur reynt með Félagslega sáttmálanum að koma í veg fyrir undirboð af því tagi sem hér eru gerð að umtalsefni. Ef undirboð launa og réttinda breiðist út á íslenskum vinnumarkaði verður erfitt að vinda ofan af því. Þá verður þess líklega ekki langt að bíða að réttindi launafólks verði skert almennt. Það má minnast þess að snemma á síðustu öld var vinnudagurinn á Íslandi 10 tímar á dag, unnið var alla daga nema sunnudaga, sumarfrí var óþekkt, sem og orlof, fæðingarorlof og veikindafrí. Örbirgð og skortur var landlægur.  Það hafði áhrif á lífskjörin og lífslíkurnar. Árið 1900 náðu aðeins 60% Íslendinga 50 ára aldri, en um 95% íslendinga lifa góðu lífi langt fram yfir 50 ára aldurinn í dag.  

Velferð og lífskjör

Það eru skýr tengsl á milli velferðar og lífskjara. Fyrir tilstilli íslenskrar stéttarfélaga og framsýnna atvinnurekenda búum við við góð lífskjör og velferð í upphafi 21.aldar.  Oft og einatt var pólitíska baráttan hörð til að ná fram réttarbótum – og andstaðan bæði hjá forsvarsmönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.   Hins vegar hafa flestar stærri kerfisbreytingar verið leiddar til niðurstöðu með víðtæku samþykki – amk. eftir á.   Þannig má segja að almenna skólakerfið, almannatryggingar og heilbrigðistryggingar njóti óskoraðs samþykkis allra stjórnmálaafla.   Nú verður vart tilburða til að höggva í þessi réttindi og sjúklingagjöld og tekjutengdar skerðingar eru að einhverju leyti til vitnis um það. Ástæða er til að við verðum öll vakandi og  fylgjumst vel með þessum málum,   það er þörf að standa sameiginlegan vörð um almenna velferð á Íslandi, ekki síst vegna frjálsra flutninga vinnuafls og fjármagns.   Ég vil sjá Samfylkinguna beita öllu afli í þessum málaflokki og heiti á lesendur að leggja mér lið.