Æfingin skapar meistarann

Ég spila utan deildar 

Í fóboltanum þykir ekki gott þegar utandeildarliðin skjóta meistaradeildarliðum skelk í bringu.  (Manchester Utd. er fallið úr bikarnum – ekki satt?) Á sama hátt hættir þeim “litlu” til að ofmetnast þegar eftir þeim er tekið.  

Það fór kannski þannig með mig; - pínulítið.   Ég mat það þannig að nokkrir fjölmiðlar meðhöndluðu mig sem alvöru “áskoranda” og þá gerði ég það ósjálfrátt líka.   Ég gleymdi mér í póltitík og áherslumálum, skrifaði greinar og birti – og forsmáði það að “safna liði” gegn sitjandi þingmönnum.  

Ég sé í sjálfu sér ekkert eftir því – og ætla ekki að sleppa mér í neðanjarðarstarfsemi og alls ekki liðsafnað gegn neinum.  Ég hyggst áfram berjast fyrir mikilvægum málefnum og með góðum hugmyndum.      

Ég geri ráð fyrir að ég þurfi að hafa mig allan við og æfa vel næsta keppnistímabil – reyna að komast í leiki þar sem það er ekki mjög dýrt eða athyglin beinist að málefnum.   Ég er ekki að fara neitt og ætla að halda  áfram að tala um mikilvæg samfélagsmál og framfaramál – ég held áfram að stúdera þriðjuleiðar-pólitíkina – í anda Anthony Giddens eins og ég hef gert núna í bráðum 12 ár.    

Ég held áfram að vera “samfélagslegur aðgerðasinni”  og mun kannski í ennþá meiri mæli en nokkurn tíma áður koma mér  niður í að þróa og reyna að framkvæma “samvinnustefnu í verki.” – þar sem ég tek senn við starfi framkvæmdastjóra Húsnæðissamvinnufélagsins Búseta á Akureyri.   

Húsnæðisamvinnufélag er merkt form samvinnustarfs og vinkill sem hefur að sumuleyti átt erfitt uppdráttar hérlendis.  Samvinnustarf og sjálfseignarform – -fyrirtækja og stofnana sem rekið er án þess að meiningin sé  að draga fjármuni eða hagnað út úr rekstrinum.  Þessi margvíslegu form samfélagsrekstrar og sjálfseignarstofnana sem notuð eru í rekstri í nágrannalöndum hafa fengið lítið svigrúm hérlendis og staða þeirra í löggjöf er alltof veik.   

Ég vinn í því á næstunni  - og treysti á samstarf nútímalegra frjálslyndra jafnaðarmanna – og líka þeirra Framsóknarmanna og Vinstri grænna sem eru trúir sínum rótum í landsbyggð og ungmennafélögum.   Kannski Sjálfstæðismenn vilji líka vera með í þessu.  Kannski?   Ég vil endilega eiga samstarf við fólk úr ólíkum áttum  - samstarf um það sem sameinar okkur - fremur en að leggja áherslu á það sem sundrar okkur.   Mér er í raun og sannleika alveg sama hvaðan menn koma og hvar þeir skipa sér í flokk eða hvern þeir kjósa - ef menn vilja leggja sínu samfélagi óeigingjarnt lið; - vilja vinna að góðum málum í jákvæðum anda.

Ég mun sem sagt spila utan deildar næsta keppnistímabil.   Og eins og margir vita þá hafa þeir sem rotaðir eru í 1. lotu  - og standa upp aftur - oft reynst öflugir bardagamenn og sigurvegarar.   

Ég er í sannleika hvorki súr né eyðilegður;  - og ekkert er fullreynt.

Pétur Pétursson líflæknir minn gaukaði að mér “harmabót” eftir prófkjörsúrslitin, sem ég ætla að lýsi mér nokkuð vel;

Jafnan hann sút úr sinni rekur, / sjaldan er neitt sem beygir hann. /

Ósigrum Benzi allvel tekur, / því æfingin skapar meistarann.  

Má ég líka minna á að Abraham Lincoln náði ekki forsetaembættinu fyrr en í þriðja skiptið sem hann bauð sig fram;  varð síðan einn af frægustu forsetum og ódauðlegur af því að hann var myrtur í embætti við dramatískar aðstæður.  

Það er nú kannski ekki hægt að endurtaka þann feril allan – en …. það  er þess virði að reyna aftur.

Ég skrái mig fljótlega aftur til keppni – en fyrst er að æfa vel og komast í form. 

Lokið á minningardag styrjaldarloka; 1918 - þann 11 nóvember 2006