Jöfnuður - ójöfnuður?

Stöðugleiki í rekstrarskilyrðum heimilanna?

Evrópukjör

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um matarverð og framfærslu heimilanna – ekki síst á grundvelli prívat-skýrslu hagstofustjórans Hallgríms Snorrasonar.  Því miður skapaði Hallgrímur ekki forsendur fyrir góðri sátt og hófsemi í umræðunni með sínum einleik – en engu að síður hefur málið fengið mikla athygli.    Ekki er unnt að fallast á að hugmynd Hallgríms um einhliða niðurfellingu tolla og vörugjalda af öllum landbúnaðarvörum sé raunhæf aðgerð – vegna hliðarverkana og fyrirsjánlegs hruns í atvinnugreininni, en unnt er að lækka matarverð í skrefum og nokkuð hratt fyrir því.   Fráfarandi ríkisskattstjóri Indriði Þorláksson hefur einnig tjáð sig nýlega með eftirtektarverðum hætti um skattalegt umhverfi á Íslandi.  Hann hefur m.a vakið sérstaka athygli á misræmi í skattlagningu fjármagnstekna annars vegar og launatekna hins vegar.  Hann benti einnig á að skatt-flótti væri raunverulegt vandamál meðal vestrænna þjóða – og þar er Ísland ekki stikkfrí.Margir hafa einnig bent á að tekjutenging bóta til öryrkja og lífeyrisþega sé óhófleg – og það að fólki sé beinlínis refsað – í  ráðstöfunarfé með því að sækja vinnu og skapa sér tekjur til viðbótar lágmarkslífeyri.  Vaxtabætur og barnabætur hafa líka verið skornar út frá öllum þeim sem hafa meira en lágmarkstekjur. 

Vaxandi ójöfnuður

Svokallaður GINI-stuðull er notaðar til að leggja mat á tekjuskiptingu og þannig mismun á ráðstöfunarfé einstaklinga  - innan einstakra ríkja.   Prófessor Þorvaldur Gylfason hefur bent á það með skýrum hætti í greinum sínum að undanförnu að Ísland hefur nú skipast í flokk með Bretlandi sem það ríki Vestur Evrópu þar sem misskipting er mest.   Nú má segja að það séu einungis Bandaríkin sem skapa þegnum sínum meira misrétti – en Ísland stefnir óðfluga í áttina þangað.  Ef ekki verður skipt rækilega um stefnu verður munstrið hjá okkur svipað því versta – og það gæti gerst  innan 5-10 ára.   Árið 1995  skipaði Ísland sér hins vegar á bekk með Noregi og öðrum Norðurlöndum og var þannig á þeim tíma í hópi þeirra ríkja sem fóstruðu mestan jöfnuð meðal þegna sinna.   Þann tíma sem Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson leiddu ríkisstjórn saman voru skattar lækkaðir hjá hátekjufólki – en skattbyrðin aftur á móti þyngd hjá venjulegum fjölskyldum.   Bótaskerðing hjá öryrkjum og lífeyrisþegum var keyrð í öfgar – og barnabætur og vaxtabætur teknar af venjulegum fjölskyldum.   Geir Haarde nýtur þess vafasama heiðurs að teljast til mestu skattpíningarráðherra á Íslandi – og Árni Matthiessen þrætir við hvern þann sem gagnrýnir þessa þróun.     Stefán Ólafsson prófessor hefur endurtekið dregið saman gögn sem sýna hvað hefur verið að gerast  - og nú hefur OECD staðfest mikilvæga mælikvarða.   

Þessu er hægt að breyta

Samfylkingin á að líta á það sem forgangsverkefni að stíga sýnileg skref til breytinga á þessu umhverfi fjölskyldnanna og alls venjulegs fólks.  Ríkisvaldið á ekki og hefur ekki það hlutverk að skipta sér beint af ofurlaunagreiðslum til forstjóranna – og ekki heldur af starfslokasamningum þeirra sem hafa tryggt sér forréttindi.   Geir Haarde hefur hins vegar beitt álögum í sköttum til að auka á þennan mun sem GINI stuðullin sýnir fram á.   Virðisaukaskattur og tollar og vörugjöld eru óhófleg á heimilsvörunni – og bætast við ofurkostnað á húsnæði og rekstri bifreiðar.     Ég vil sjá að Samfylkingin beiti sér fyrir eftirfarandi;

  • Skattar verði færðir nær OECD og meðaltali V-Evrópu- þannig að  heildarskattbyrðin verði verulega léttari fyrir fjölskyldufólk, eldri borgara og námsmenn

  • Fjármagnstekjur verði skattlagðar með líkum hætti og launatekjur

  • Fyrirtækjaskattar verði sambærilegir  við V-Evrópu

  • Algert skattfrelsi verði á barnavörum

  • Virðisaukaskattur verði felldur niður af “matvöru” (en ekki sælgæti, snakki og óhollustu)

  • Tollar og vörugjöld af annari heimilisvöru teknir til endurskoðunar

  • Persónuafslátturinn hækkaður – og yfirfærður fyrir námsfólk og umönnunarþurfi

 Rekstur allra fjölskyldna verður auðveldari – og einstaklingar munu kaupa sínar daglegu vörur á hagstæðara verði að þessu gerðu.  Þessar tillögur eru raunhæfar og hafa þann kost að þær eru ekki vitund flóknar.  Hægt er einnig að koma hluta af slíkum breytingum á fljótt og byrja strax að aflokinni stjórnarmyndun.   Ég vil gjarna fá að taka þátt í slíkri breytingu og er tilbúinn að leggja að mörkum.