Atvinnuvegaráðuneyti

Nýsköpun í atvinnulífinu - atvinnuvegaráðuneyti

 Það er löngu kominn tími til að endurskoða skipan Sjórnarráðs Íslands og skiptingu málaflokka á ráðuneyti.  Sérstaklega á það við með ráðuneyti atvinnuveganna.  Sjávarútvegur og landbúnaður voru eðli málsins samkvæmt þungamiðjan í atvinnulífi landsmanna fram eftir síðustu öld og reyndar langleiðina út öldina á allri landsbyggðinni.  Þessi tími er liðinn að því er varðar mannafla og reyndar hefur hlutur greinanna í þjóðarframleiðslunni minnkað gríðarlega.Sérreglur hvorrar atvinnugreinar einkenna hins vegar ennþá marga þætti starfsskilyrða.   Á sama hátt hefur mikilvægi nýsköpunar og rannsókna og þekkingarþróunar vaxið og auk þess hafa viðskipti hvers konar og þjónusta orðið ráðandi greinar í höfuðborginni.   

Útrásin sæla og opnun fyrir fólk og fjármagn hafa gerbreytt vinnumarkaðnum á skömum tíma.

Landbúnaður og sjávarútvegur munu ekki skapa uppvaxandi Íslendingum störf og afkomugrundvöll til framtíðar – þvert á móti eru líkur til að störfum í þessum greinum muni halda áfram að fækka eitthvað enn um sinn. 

Menntun og rannsóknir

Menntun og rannsóknir – ásamt nýsköpun og hátækni þurfa að vera burðarásar í nýrri atvinnustefnu.  Þar mun sérhæfð fjármálaþjónusta og alþjóðaviðskipti og ferðaþjónusta einnig  gegna mikilvægu hlutverki. 

Rétt er að skipuleggja stjórnarráðið upp á nýtt með tilliti til þessa og sameina ráðuneyti hefðbundinna atvinnugreina; í atvinnuvegaráðuneyti/atvinnumálaráðuneyti.  Á sama tíma kann að vera rétt að stofnsetja nýtt ráðuneyti vísinda-,  tækni og nýsköpunar sem mundi undirstrika þá áherslu sem lögð væri á breytingu í áherslum stjórnvalda.   Það getur vel verið að unnt sé að sveigja núverandi iðnaðarráðuneyti að þessum áherslum.  Eftir sem áður verður forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið, fjármálaráðuneyti, menntamála-, heilbrigis-, og umhverfisráðuneyti líklega haldið í óbreyttri mynd – kannski viðskipta- og samgönguráðuneyti líka.  Mér sýnist samt að dómsmálaráðuneyti og félagsmálaráðuneytin mættu fá yfirhalningu (kannski er það bara vandræðagangur ráðherranna á síðustu árum og mánuðum sem kom inn þeim skilningi hjá mér?) – eða hvað með innanríkisráðuneyti? 

Upplýsingaöflun- greining gagna

Meðferð hagtalna og skráning og greining margvíslegra upplýsinga hefur beðið mikinn hnekki á síðustu árum – og fræg er aðför þáverandi forsætisráðherra Davíðs Oddssonar að Þjóðhagsstofnun sem var beinlínis lögð niður.   Nú eru margir aðilar að vasast í skráningu og greiningu gagna og pólitísk ráðuneyti reikna  augljóslega ráðherrum í hag. 

Hér þarf að gera bragarbót og efla hlutlæga og vandaða gagnavinnslu og miðlun upplýsinga. Hugsanlega  má vinna þessa eflingu á grundvelli Hagstofu Íslands – sem líklega ætti þá að heyra beint undir Alþingi líkt og Ríkisendurskoðun.   Mikilvægt er að þáttur háskólanna og sjálfstæðrar rannsóknir fræðimanna verði einnig efldar þannig að víðsýnir og velmenntaðir starfsmenn geti lagt að mörkum til að skapa forsendur fyrir betur upplýsta ákvarðanatöku.  Þetta er sérlega brýnt um þessara mundir þar sem ríkisstjórnir þeirra Davíðs og Halldórs beittu endurtekið yfirgangi og lítið duldum þvingunum gagnvart sjálfstæðri rödd fræðimanna  - sem ræddi alvarleg mál.