Og að öllu gamni slepptu:

Sjálfur upplifði ég afskaplega jákvæðar viðtökur í mínu nærumhverfi og hjá þeim almenningi og áhrifafólki sem ég átti orðastað við.   Held að þar hafi alls ekki verið um að ræða eintóma kurteisi viðmælenda.  

Fyrirfram var mér samt  ljóst að meirihlutamyndun Samfylkingarinnar í Bæjarstjórn Akureyrar, með Kristján Þór Júlíusson sem endurnýjaðan bæjarstjóra, - fór harla illa í marga kjósendur SF frá því vor.  

Á sama hátt vissi ég að mörgum skoðanasystkinum mínum þykir ekki gott að þurfa að skrá sig í stjórnmálaflokk til að kjósa í prófkjöri og sumum er það algerlega þvert um geð.   Ég hef fengið margar ítrekanir á því viðhorfi  fólks sem er með “óstöðuga kosningahegðan” og lítur á það sem sjálfsögð mannréttindi að vera utan flokka og taka afstöðu á grundvelli málefna og frambjóðenda.   Það er ótvírætt stækkandi hlutfall kjósenda sem skiptir um skoðun og sækist eftir því að kjósa einstaklinga og þá ekki síst í prófkjörum.   

Þetta held ég að nútímalegur jafnaðarmannaflokkur eins og Samfylkingin komi best til móts við með opnum prófkjörum; það er að segja með þeirri aðferð sem viðhöfð var í öllum kjördæmum nema NA-kjördæmi.