Þekkingarþorp - vísindagarðar

Vísindagarðar – Þekkingarþorp Vísindagarðar – þekkingarþorp og skyld hugtök eru nánast alveg ný í okkar máli.  Þess vegna er mikilvægt að almenningur fái greinargóða útskýringu á því hvað það er sem við er átt.  Þarna stendur auðvitað upp á fólk eins og mig sem leggur fram framtíðarsýn og hugmyndir sem byggjast m.a. á þessarri nýju hugsun í atvinnuþróun hérlendis.  Í þessum pistli ætla ég að reyna að skýra hvað við er átt – og hvernig þekkingarþorp getur orðið öflugt setur fyrir nýja atvinnusköpun. Á síðustu allmörgum árum hefur mikilvæg reynsla skapast í nágrannalöndum okkar af þeirri tegund atvinnuþróunar sem byggist á nýsköpun og frumkvöðlastarfi. Sú reynsla hefur fengist bæði á Norðurlöndunum og einnig í Bretlandi og á Írlandi – og ekki síður í Kanada og Bandaríkjunum og í fjarlægari heimshlutum.   Á ársfundi Háskólans á Akureyri  14.12.2005 flutti ég  kynningarerindi um þennan möguleika (sjá fréttir á heimasíðu HA og glærur BS http://staff.unak.is/not/bensi/Visindagardar14-12-05.pps )  og á ráðstefnu Sambands Íslenskra sveitarfélaga 23.febrúar 2006 (http://www.samband.is/files/1173514707Benedikt.ppt) flutti ég aftur uppfærða útgáfu af minni kynningu.    

Þekkingarþorp

Hugtakið þekkingarþorp er notað um þyrpingu eða sambýli háskóla og rannsóknarstofnana með fyrirtækjum og þróunarsetrum þar sem sérstök áhersla er lögð á nýsköpun og hátækni.   Vísindagarður (Science-Park) og/eða fyrirtækjagarður (Business-Park)  með nýsköpunarsetrum og frumkvöðlaaðstöðu (Incubation) eru mismunandi heiti yfir þessa starfsemi.  Meginháhersla er lögð á þekkingaryfirfærslu og samstarf þeirra sem rannsaka og þróa þekkingu og hinna sem breyta þekkingunni í viðskiptatækifæri og arðsaman rekstur og eignamyndun.     Nýsköpunarferlin og þróun hátækni á mörgum sviðum er mismunandi langstæður ferill.  Þannig geta hugmyndasmiðir eða frumkvöðlar verið frá 12-20 mánuðum upp í etv. 3-5 ár að komast að því hvort einstök hugmynd skilar árangri.   Sameiginlegt allri nýsköpun er samt sem áður að þetta er viðkvæmt ferli sem þarfnast stuðnings bæði í formi ráðgjafar, aðstöðu og fjármagns.         

Klasar - vaxtarsamningar  - samstarf

Undirritaður átti þess kost á sínum tíma að leggja að mörkum til að Vaxtarsamningur Eyjafjarðar kæmist á laggir.   Samningurinn byggir á nálgun sem kennd er við klasasamstarf (Cluster-initivities) og hefur verið sótt ráðgjöf til erlendra sérfræðinga vegna þess m.a. þeirra Ifor Ffowcs Williams og  Alec Hansen.  Núna nýverið var Michael Porter hér á ferð en hann  er einn af mikilsvirtustu hugmyndasmiðum og rannsakendum á sviði atvinnuþróunar og efnahagsmála – jafnframt á sviði klasafræða.    Með vísan til sjónarmiða og rannsókna þessarri aðila sem hér eru nefndir má fullyrða að þessi nálgun getur verið árangursrík.   Dæmi frá mörgum svæðum og borgum í nágrannalöndum sýna okkur að efnahagslegur vöxtur og velmegun einkennir þessi þróunarsvæði – og þangað flykkist fólk á meðan önnur svæði – sem ekki hafa lagt upp með samstarf um þekkingaryfirfærslu og nýsköpun – eru að missa niður sína velmegun með tilheyrandi fólksflótta. 

Samstarf – (partnership) um vaxtarsvæði

Einkennismerki þessarra verkefna er samstarf og virk forysta.  Samstarf opinberra aðila, ríkisvalds og sveitarfélaga  - um svæðisþróun – og samvinna með viðskiptalífinu og um leið með virkjun þekkingaryfirfærslu frá háskólum og rannsóknarstofnunum.    Þar sem notuð er drift markaðskraftanna í atvinnulífi og viðskiptum – um leið og skapað er umhverfi sem ræktar fram þekkingu og byggir brýr frá vísindastarfi og hugmyndavinnu frumkvöðla.   Fjármögnun kemur frá þessum aðilum sameiginlega – bæði í gegn um framlög og fjárfestingarsjóði.   Sérstaklega er lagt upp úr hvetjandi frumkvöðlaumhverfi og upphafsfjármögnun (seed-funding) Háskólar og rannsóknarsetur – eða sérhæfðar rannsóknarstofnanir og nýsköpunarmiðstöðvar eru hvarvetna miðpunktar vaxtarsvæðanna.    Þekkingarþorp er samheiti yfir slíkt umhverfi.     Þróunarfélag Háskólans á Akureyri og samstarfsaðila – Þekkingarvörður ehf - hefur það markmið að vinna að uppbyggingu þekkingarþorps við Háskólann á Akureyri.     Fyrstu verkefni félagsins eru á borðinu – og unnið að því að fjármagna þau og koma af stað.   Annars vegar er um að ræða viðbyggingu við Borgir – 4500fm sérhæfða byggingu sem einkum er ætlað að hýsa fyrirtæki í upplýsingatækni.   Fyrsta eining í formlegri þróun “Vísindagarðs” við Háskólann á Akureyri.  Hitt verkefnið er alþjóðlegur Orkuháskóli sem sérhæfir sig í kennslu, rannsóknum og þróun á sviði endurnýjanlegra orkugjafa.   Um er að ræða skóla sem mundi sækja erlenda stúdenta til árs dvalar – í ströngu meistaranámi.  Jafnframt gengur hugmyndin út á að fjöldi sérfræðinga -  innlendra og erlendra – annist kennslu og leggi að mörkum sérþekkingu sína. 

Framtíðarsýn 

 

Það er ákaflega mikilvægt verkefni sem Þekkingarvörður ehf hafa með höndum og hefur verið trúað fyrir.    Þekkingarþorp í samstarfi við Háskólann á Akureyri – getur fljótlega þanið sig út  í samstarfi við aðila í öðrum byggðum og rannsóknar- og þekkingarsetur.   Sveigjanleiki í starfi og þjónustu Háskólans á Akureyri getur einmitt nýst til þess að leggja grunn að víðtækari vexti – bæði til Austurlands og annarra byggðarlaga á landsbyggðinni þar sem nú þegar fer fram starfsemi á vegum skólans. Undirritaður hefur verið í forsvari fyrir stjórn Þekkingarvarða ehf og áður Frumkvöðlasetur Norðurlands.   Það er afar mikilvægt tækifæri til atvinnuþróunar fólgið í því að nýta þá reynslu sem fengist hefur erlendis af uppbyggingu vísindagarða og þekkingarþorpa.   Ríkisvaldið og sveitarfélögin – með Akureyri í broddi fylkingar - eiga kjörið tækifæri til að kalla viðskiptalífið til virkara samstarfs um uppbyggingu þekkingarþorps – og stóreflingu vaxtarsamninga á landsbyggðinni.Að slíku er heiður að fá að vinna.