Hundurinn hans Jóa (PP) (2006)

Pétur Pétursson er þekktur heilsugæslulæknir á Akureyri.  Pétur er hestamaður, hagyrðingur, söngmaður og (morgun)sundmaður - auk þess að vera Húnvetningur frá Höllustöðum.  

Pétur hefur oft ort um uppátæki mín og ekki síður um hrakfarir mína (t.d árið 1995 þegar ég lenti 11 sinnum á Slysadeild FSA).    Stundum tekst mér að koma lagi á Pétur á móti - en það er ærið varasamt því hann færist yfirleitt allur í aukana við tilburði manna til að bera hönd fyrir höfuð sér.

Fyrir nokkrum árum fékk Pétur að fara í göngur með þeim Gunnarsstaðamönnum í Þistilfirði - líkleg hefur Jóhannes (Jói) boðið honum með - því hann er sagður ekki mega neitt aumt sjá.  Eftir þessa gangnaferð þá kvisaðist í fjölmiðla að Pétur mundi aldrei aftur fá að fara í göngur (og það var áréttað í vísukorni).  Skildi ég það svo að Pétur mundi hafa verið til lítils gagns í göngunum og líklega auk þess leiðinlegur (nema hann hafi kveðið þá Gunnarsstaðabræður í kútinn).

Í síðasta mánuði heyrði ég hins vegar að Gísli Sigurgeirsson hjá RÚV var að tala við Jóa á Gunnarsstöðum í síðdegisútsendingu RÚV-Ak.  Þar kom fram að Pétur P hafði fengið að fljóta með í göngurnar - þrátt fyrir fyrri heitingarnar þarna um árið.  Í ljós kom að Jói réttlætti boðið til læknisins með því að sig hefði vantað hund í göngurnar.   Fréttamaðurinn spurði frétta og lét Jói vel yfir - sagði að það hefði verið mikið ort - og þá bað Gísli um sýnishorn.  Jói taldi að sóma síns og þeirra vegna væri það ekki fært þar sem kveðskapurinn væri fráleitt útvarpstækur (ef ég man rétt).

Næsta morgun hitti ég Pétur í morgunsundinu og reyndi að koma honum til.  Lét Pétur hið besta af ferðum þeirra - og taldi sig hafa gert göngurnar skemmtilegar og jafnvel gaf hann undir fótinn með að hann hefði sjálfur orðið að gagni.  Mitt viðbragð var á þessa lund:

Hetjan þegar heiman fer, / sinn heiður lætur róa. /  Með háu gelti hælir sér, / Hundurinn hans Jóa.

Pétur skráði í kompu sína - og kl. 8:38 sama morgun þá barst mér SMS.

Frambjóðandinn fáa gleður, /            frekt hann þjónar sinni lund.  /               Í pólitískri villu veður, /                       og vantar illa smalahund.

Nokkrum dögum síðar kom í ljós að prófkjörs-stjórnin hjá SF í NA-kjördæmi áréttaði fundabann sitt.  Það var sérstaklega talið af ýmsum að þannig væri auðveldara að hafa hemil á bensa.is.   Pétur greip upp kompu sína;

Fjölmargt er Bensi fús að segja, /        flest af því ég ágætt tel. /                      Í prófkjörinu þarf að þegja, /                og það mun gagnast honum vel.

Ég leitaði ítrekað til Péturs (sem segist vera bæði Vinstri - eitthvað og grænn) - þar sem hann er líflæknir minn og þannig ábyrgur fyrir velferð minni -  á öllum sviðum að því er ég tel.    Ég auglýsti ítrekað í helstu fjölmiðlum á svæðinu - eftir kjósendum og sóttist eftir því að fá menn til "smalamennsku"  Bar mig þannig upp við Pétur í morgunbaðinu;

Ég má ekki fara á fund, / svo fátt mun verða talað./ því er gott að hafa hund,/ sem hefur áður smalað.

Kl. 8:06 barst mér eftirfarandi;

Að böðlast um er Benza tamt,/             og beita verstu dylgjunum, /                en afar trúlegt er nú samt, /                 að enginn hundur fylgj´onum.

Þótti mér nú að minn hlutur hefði ekki batnað.  Höfum við Pétur síðan forðast hvor annan  - hann mætir hvorki í morgunsund né á kóræfingar - og ég hleyp um hundlaus í smalamennskunni.

Frá því í nóvember 2006