Akureyri í forystu

Byggðastefna hefur fengið á sig óorð í umræðunni hjá fjölmiðlum og mörgum kjósendum  - og etv. ekki að ósekju.  Spilling sukk og svínarí  - fyrirgreiðsla og fráleit og illa undirbúin verkefni finnast í slóð síðustu 35 ára.  

“Stóru lausnirnar” – þar sem öllum var beint í sama farveg og lán og styrkir lágu á lausu – hafa ekki skilað  okkur nægilega heilbrigðu atvinnulífi eða sjálfbærni. Vandi landsbyggðarinnar hefur upp á síðkastið að talsverðu leyti legið í því að ekki hefur verið brugðist markvisst við þeirri eðlisbreytingu sem hefur orðið á atvinnulífi landsins alls á síðustu 15 árum.   Frumframleiðslan í sjávarútvegi og landbúnaði og smærri framleiðsluiðnaður hefur látið undan síga fyrir tæknibreytingum og gerbreyttum samskiptum og flutningaleiðum.   Samþjöppun aflaheimilda í sjávarútvegi  - sameining fyrirtækja í þjónustu og verslun hefur leitt til fækkunar fyrirtækja á landsbyggðinni – að ekki sé nú minnst á breytta starfsemi bankanna, olíufélaganna og tryggingafélaganna  - þar sem öllu er miðstýrt frá Reykjavík.   

Þenslan og vaxtaokrið – ásamt  hágengi – heldur áfram að kreista atvinnulífið í dreifbýlinu og ef ekki væri metverð á ýmsum sjávarafla þá væri vandinn ennþá stærri og sýnilegri í mörgum sjávarbyggðum. 

Akureyri í  forystu fyrir landsbyggðina alla

Ríkisvaldið heldur áfram að draga fjármuni og fólk burt frá landsbyggðinni – með því að sækja skattfé til landsbyggðarinnar en skila einungis að litlu leyti til baka í formi umsvifa og launaveltu.  Þessu þarf að snúa við – með virku aðgerðaplani.  Slíkt gerist ekki nema í gegn um eflingu byggðakjarna – sem geta víkkað sig út til nærbyggða með samstarfi og góðum samgöngum.Akureyri og Eyjafjörður er eina svæðið á landsbyggðinni sem hefur nægilega breidd í atvinnulífi og nægan mannfjölda til þess að vera í forystu fyrir nýrri þróun.   Slíkt þarf samt sem áður að byggjast á grundvallarstefnubreytingu.  Ég tel vænlegt að leggja upp plan með eftirtöldum grunnþáttum;

Ø       Akureyri verði sérstaklega efld sem vaxtarsvæði – og sem valkostur fyrir uppbyggingu sjálfbærs atvinnulífs utan höfuðborgarsvæðisins.    Þannig getur landsbyggðin hafið nýja sókn og öll byggðarlög frá Mið-Norðurlandi til Austfjarða munu með því geta vaxið og orðið fýsilegri búsetukostur fyrir fólk með margvíslega starfsþekkingu og áhugasvið.    Markviss uppbygging þjónustu – stórefling Háskólans á Akureyri, FSA og allrar sértækrar rannsóknarstarfsemi hins opinbera  – ásamt því að samgöngur, menning og samskipti verða byggð upp.  Ríkisvaldið verður einnig að láta reyna á það á næstu 2 árum hvort unnt er að byggja Akureyrarflugvöll upp flugtæknilega til að unnt verði að reka reglubundið farþega- og fraktflug allt árið um kring.  Einnig þarf ríkisvaldið að leggja umtalsvert fjármagn í markaðsstarf og umgjörð fyrir varanlega starfsemi á sviði samgangna.

 Ø       Á sama hátt verður að stórefla vaxtarkjarna á Mið-Austurlandi – þar sem opinber þjónusta sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana og framhaldsskólar mynda burðarása.  Aðgengi að háskólakennslu – og starfræksla rannsóknarstarfsemi er afar mikilvæg úti á landsvæðum  - með meiri eða minni samstarfstengslum við höfuðstöðvar.  Samhliða eflist önnur þekkingartengd starfsemi  og sjálfbær  þróun verður möguleg.     

Að vinna saman – og vaxa saman

Allt of mikið hefur borið á því á síðustu árum að talsmenn einstakra byggðarlaga í sveitarstjórnum og jafnvel á Alþingi hafi beinlínis lagst gegn mikilvægum framfaramálum sem snerta aðrar byggðir og landssvæði.    Hugmyndir um að staðsetja einstök ríkisverkefni og stofnanir á einum stað hafa vakið andstöðu á öðrum og þannig er komið að ríkisstörfum heldur áfram að fjölga á Reykjavíkursvæðinu – en fækkar á sama tíma í öllum öðrum landshlutum.   Þeir aðilar hér á Akureyri sem hafa lagt upp hugmyndir og boðið kostun á undirbúningi við flutning umtalsverðra verkefna á vegum ríkisins hafa ekki fengið undirtektir frá þingmönnum NA-kjördæmis.  

Bæjarstjórinn á Akureyri (KJ'ul) og samverkamenn hans hafa fram að síðustu bæjarstjórnarkosningum  - heldur ekki treyst sér til að taka á með þeim sjónarmiðum sem vilja flytja umsvif ríkisins út af þenslusvæðinu á SV-horninu.  Beinlínis hefur sérstaklega verið beint fjandskap og skeytum að slíkum hugmyndum að því er snýr að Akureyri – umfram aðra staði – sem segir okkur fyrst og fremst að nærsvæði Akureyrar um Eyjafjörð og Þingeyjarsýslu – hefur ekki átt sér neina alvöru talsmenn. 

Ég tel að það megi vera ljóst að ný sókn fyrir landsbyggðina hefst ekki nema Akureyri verði þar í farabroddi.  Um leið er algerlega nauðsynlegt að íbúar og talsmenn annarra landsvæða – einkum innan NA-kjördæmis - komi til liðs við umræðuna.  Á sama hátt þarf að rækta  það viðhorf á Akureyri og í stærri kjörnum landshlutanna að það sé sameiginlegur ávinningur allra að hlú að samgöngum og samskiptakerfum  - og sértækri þjónustu og atvinnnusköpun – af því að landsbyggðin getur einungis notið velgengni að slíkt nái til stærri svæða og helst allra byggilegra hluta landsbyggðarinnar.