Jarðgöng á Austurlandi

Jarðgöng á Austurlandi

Samgöngur verða áfram eitt mikilvægasta mál landsbyggðarinnar.  Austurland getur ekki þróast sem ein heild án þess að verulegt átak verði gert til að stytta vegalengdir og jafnframt tryggja vetrarsamgöngurnar.   Jarðgöng verða langstærsti hlut slíks verkefnis.   Á síðasta ári vann Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri ágæta skýrslu sem fól í sér skoðun og frummat á mörgum jarðgangakostum í landshlutanum (RHA, JÞH og VS, 2005).    Í framhaldinu var unnin nánari greining á “fernum göngum á Mið-Austurlandi” – sem gætu tengt Eskifjörð, Norðfjörð um Mjóafjörð við Seyðisfjörð og undir Fjarðarheiði við Hérað.    Sú greining birtist sl. sumar og  er að finna á skýrslu stofnunarinnar frá því í júní 2006 (RHA, JÞH og VS, júní 2006; www.rha.is).     Heildarlengd jarðganga í þessarri fernra ganga syrpu er metin 30,25  km og heildarkostnaður um 18,5 milljarðar króna.  Eina augljósa viðbótin sem þessi útfærsla býður upp á er vetrartenging Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar – og þá um leið tenging þeirra við Fjarðabyggð. Gögn RHA staðfest að arðsemi framkvæmdarinnar í heild er afar lítil og að auki þarf að vinna hana að miklu leyti sem eina framkvæmd áður en hún fer að skila tilætluðum árangri.   Kostnaður við pakkann er það mikill að það mun reynast erfitt að vinna víðtækt samþykki fyrir verkinu þannig að það gæti hafist strax frá næsta ári með undirbúningi.    Þarna er því verulegur þröskuldur sem ástæða er til að viðurkenna. 

Milli Héraðs og Neskaupstaðar/Eskifjarðar

Stærstu kjarnar opinberrar þjónustu á Austurlandi hafa lengi verið á Neskaupstað og Egilsstöðum.  Vegalengdir milli þeirra eru umtalsverðar og Oddsskarðið illa fært þrátt fyrir gömlu göngin þannig að samstarf og samhæfing í rekstri framhaldsskólanna og Fjórðungssjúkrahúss og Heilbrigðisstofnana torveldar eflingu og uppbyggingu slíkrar þjónustu.  Á sama hátt er atvinnulífið talsvert klofið og önnur þjónusta nær ekki að styrkjast sem heild.    Til að geta keyrt upp öflugri þjónustu og samhæft einn vinnumarkað þarf þess vegna að koma inn öflugri tenging milli meginkjarna.  Jarðgöng sem tengja stystu leið milli Héraðs og Neskaupsstaðar/Eskifjarðar – undir Fönn – eða  “Austurstjörnuna” eins og hugmyndasmiðir mínir vilja nú kalla lausnina  (vinnuhugmynd Austurkrossinn), - eru kostur sem áhugavert er að skoða nánar Ég fékk leyfi til að kynna hugmyndina á kynningarfundi frambjóðenda í Prófkjöri Samfylkingarinnar á Egilsstöðum en þar voru allt of fáir til þess að hugmyndin vekti athygli.    Ég hef því í framhaldinu fengið leyfi til að kynna hana á heimasíðu minni.

PDF-skjal (smella) 

TALSETT - KYNNING (smella)    

Ný jarðgöng

Þarna er um að ræða ein megingöng sem tengja Norðfjörð og  Hérað og opnast við mynni Slenjudals/Eyvindarárdals.   Um leið er gert ráð fyrir þvergöngum sem tengja Eskifjörð og öðrum þvergöngum sem tengja Mjóafjörð og Seyðisfjörð.   Samtals er áætluð lengd jarðganga nærri 28 km.   Heildarkostnaður þá nærri 16 milljörðum og reiknuð arðsemi verksins í heild 3,7%.   Útfrá sjónarmiðum arðsemi skipast þetta verkefni þannig í flokk með bestu jarðgangakostum á Austurlandi.  Útreikningar Bjarna Hjarðar og Guðmundar Kr. Óskarssonar eru byggðir á öllum sömu forsendum og RHA notar í sinni greiningu og þannig ætti að vera unnt stilla þessum kosti upp til samanburðar.     Það sem “Austurstjarnan” hins vegar hefur umfram aðrar þær hugmyndir sem teknar hafa verið til skoðunar upp á síðkastið er að til verður nýr öxull samskipta og þjónustu sem tengir þá kjarna sem hafa verið fjærst hver öðrum.   Með því móti skapast vaxtarforsendur sem ættu að geta stóreflt Austurland sem eina heild – vinnumarkað sem vex saman og samskiptasvæði sem ber alla nútímalega þjónustu.     Það er ekki bara opinber þjónusta sem þannig fær nýjar forsendur heldur og ekki síður verslun og viðskipti og allt menningarlíf. 

Formælendur gamla tímans

Athygli vekur að sitjandi þingmenn kjördæmisins virðast hafa fest sig í eldri lausnum  - án þess að sjá þá gerbreyttu samfélagsmynd sem við blasir og kallar á stóreflda þjónustu og stystu vegalengdir milli meginbyggða.   Þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur sem stöndum svolítið álengdar að  spyrja hversu miklu  “ný Oddsskarðsgöng” bæta við fyrir þróun samfélagsins á Mið-Austurlandi og þá sérstaklega á Neskaupstað?   Er ekki miklu nær að leita stystu leiða milli Norðfjarðar/Eskifjarðar og Héraðs  og byggja upp Fjórðungssjúkrahúsið á Neskaupstað til að þjóna öllu Austurlandi ennþá betur en það hefur getað gert um skeið með fullri samhæfingu við Heilbrigðisstofnun á Egilsstöðum?  Er ekki með sama hætti full þörf á því að samhæfa og efla framhaldsskólana  – og breikka námstilboð þeirra?   

Að lokum

Austfirðingar og aðrir landsmenn verðskulda að fá tækifæri til að sjá vönduð gögn sem meta alla samgöngukosti – innan landshlutans – áður en ákvarðanir eru teknar.  Það er þess vegna brýnt að vinna að frekari gagnaöflun og hraða áætlanagerð.   Um leið er það bjargföst trú mín að það sé ómaksins vert fyrir heimamenn og aðra áhugasama að leggja að mörkum til að skapa víðtækt samþykki fyrir þeim miklu framkvæmdum sem bíða í samgöngumálum landshlutans.   Ég býð mig fram til forystu fyrir Samfylkinguna í NA-kjördæmi og þess vegna læt ég mig málið varða.   Ég vil verða málsvari kjördæmisins alls.   Ég trúi því að stjórnmálamönnum beri skylda til að efla samstarf og samstöðu landshluta og byggðarlaga – og með samvinnu munum við öll geta notið framfara og lífsgæða – og upplifað hagsæld framundan.