1.maí 2008 í Húsavíkurkirkju

Uppstigningardagur og 1. maí hafa verið frídagar hjá vinnandi fólki svo lengi sem elstu menn muna.   Á skólaárum mínum voru þessir stöku frídagar ekki mjög drjúgir og ekki er alveg fráleitt að það hafi verið kennt í heimavistarskólum  -  sem voru utan áhrifasvæðis hinnar skipulögðu verkalýðshreyfingar  - - svona upp úr miðri síðustu öld.

 

Já; lengi vel hafa  þessir dagar haft mikilvæga og djúpa merkingu - -

 
 1. maí hefur sérstaklega  sterka tilhöfðun – víða um heim.  Alþjóðlegur baráttudagur - - fyrir réttindum og kjörum launafólks - - í heimi þar sem það er ekki einu sinni orðið sjálfsagt mál að allir njóti lágmarkskjara og réttinda.   Fyrir fáum dögum var mér t.d.  sýnd aðstaða og aðkoma að bústöðum erlendra verkamanna á Íslandi; - - gluggalausar kompur þar sem hópi manna var hrúgað saman í kojum; - - (og kojurnar minntu mig reyndar svolítið á heimavistarherbergi í Laugaskóla forðum) - - -en herbergin samt sínu rýmri og að mörgu leyti vistlegri en algengt var með vistarverur á togurum og bátaflota landsmanna lungann úr síðustu öld.
 2. Þetta umhverfi er nærri – okkur í augnablikinu  - - það reynist ennþá þannig að réttur er brotinn á fólki - - - ef það getur ekki varið sig sjálft og þá ekki síst þegar yfirvöld standa sig ekki í stykkinu - - og eftirlitsstofnanir og leyfisveitendur beita blindum augum . . .  og aðgerðaleysi.
 3. Uppstigningardagur í trúarlífi landsmanna - - hefur að mínu mati ekki haft svo mikið vægi fyrir allan almenning.   Frásögn uppstigningarinnar - - - er augljós kjarni þeirrar trúar að guðlegur kraftur  og tilgangur píslargöngu  Krists hafi þannig orðið raunverulegur - -fyrir lærisveinum og síðar hinum trúuðu á öllum öldum.    Kannski er trúarlíf landsmanna svo hógvært að það sinni ekki sínum eigin merkisdögum nema takmarkað.
 4. Það er þannig ekki nema vel til fundið að þessi dagur sé tileinkaður öldruðum í samfélaginu.    Á ýmsum tímum hafa hinir öldruðu í hópi eignamanna og valdamanna haft sterka stöðu - - en alltaf sem fámennur hópur – sem forréttindahópur.    Hins vegar hefur allur fjöldinn misst vægi og stöðu  - - einkum þegar krafta og heilsa bila og menn missa möguleika á því að framfæra sig nema með eignum og eigin sjóðum.   Fjöldi aldraðra vex hlutfallslega mjög mikið  - - bæði vegna framfara í heilbrigðisþjónustu og almennrar velferðar - - en ekki síður vegna þess að barnsfæðingum fækkar með hverjum áratug - - og nú heyrir til undantekninga ef konur fæða fleiri en 4 börn - - flestar fæða 1 – 2 eða kannski 3 börn.
 5. Þegar stórfjölskyldan var og hét - - þá annaðist einhver barna eða barnabarna gjarna hina öldruðu og sjúku - - - ef tök voru á - - eða svo er okkur sagt - en ef við skoðum nánar þá var það hinn kaldi raunveruleiki almúgafólks á Íslandi og í nágrannalöndum að fjölmargir nutu ekki þeirrar stöðu að geta búið hjá eða annast sína.   Menn þurftu að reiða sig á bónbjörg og skjól vandalausra.
 6. Það var í þeim jarðvegi sem barátta verkalýðshreyfingar og stjórnmálabarátta jafnaðarmanna og félagshyggjufólks hóf að skila Íslendingum árangri.    Á árinu 1916 var Alþýðusamband Íslands stofnað – og á sama tíma stofnuðu jafnaðarmenn sinn gamla Alþýðuflokk og 5 þingmenn af landsbyggðinni stofnuðu Framsóknarflokkinn út af leiðindum í höfn á Seyðisfirði - á skipi á þegar þeir voru á leið til Þings.    Á áratugunum frá 1882 – til 1916 höfðu sjálfstæðir bændur og almúgamenn stofnað samvinnufélög – kaupfélög og sparisjóði – lestrarfélög og ungmennafélög - - til að efla hag sinn og sjálfræði almennings – og losa menn undan ofurvaldi fákeppni og kúgunar sem kennd var innlendu og erlendu kaupmannavaldi.   
 7. Ungmennafélög höfðu þann tilgang að sinna uppbyggingu andans og líkama  - efldu félagsanda og glímur, og aðrar íþróttir - - kenndu sund - - en þau höfðu líka þann tilgang að veita lítilmagnanum – með sjálfboðavinnu við heyskap og byggingar.    Það er ástæða til að rifja það upp hér að ungmennafélögin í Sambandi Þingeyskra Ungmennafélaga – lögðu gríðarmikið að mörkum til að koma Héraðsskólanum á Laugum á fót – og beinlínis við byggingu hans með gjafavinnu og söfnunarframlögum.
 8. Því skyldi ég nú vera að nefna þetta hér; ÁRIÐ             2008 á degi aldraðra  - - sem ber upp á alþjóðlegan baráttudag launþega um heim allan?
 9. Jú; ég geri það vegna þess að inntak allrar samhjálpar, samvinnu og samkenndar - - er sannur kristilegur boðskapur - - og jafnsígildur í dag og hann var fyrir 50 árum eða jafnvel 100 árum.     Það er þörf á að halda þeim gildum á lofti sem kalla menn til sameiginlegrar viðurkenningar á því að við eigum ekki bara eignir og land sameiginlega - - ekki bara umhverfi og náttúru og menningu - - heldur eigum við saman samfélag.   Þetta samfélag verður ekki samfélag okkar allra í raun nema það  virði þau siðferðilegu viðmið sem sem gera okkur öllum kleift að njóta lágmarkslífsgæða - - og mannvirðingar.
 10. Tímabil græðginnar hefur gengið yfir á síðustu nokkrum árum og áratugum ef til vill frekar - - - Þetta tímabil hefur í alltof mörgu tilliti vikið til hliðar þeim áherslum sem við áður höfðum á samfélagslega ábyrgð á velferð og það félagslega öryggiskerfi sem stjórnmálin - verkalýðshreyfing og samvinnuhreyfing – byggðu upp sameiginlega og sitt í hvoru lagi - - Þetta samfélagslega velferðarkerfi var stutt og viðurkennt með beinni og óbeinni þátttöku ungmennfélaga, kvenfélaga og margvíslegra íþrótta- og menningarfélaga - - þar sem sjálfboðastarf var mikilvægur kjarni starfs og árangurs.    Í slíku starfi hafa margir af þeim sem nú fylla flokk hinna öldruðu átt sínar mikilvægustu stundir lífsfyllingar og ánægju - - -og þar hafa margir skilað þeim árangri sem þeir eru stoltastir ef - - í félagsstarfi og íþróttum og menningu sækja nefnilega margir reisn sína og sjálfsmynd.   Jákvæð sjálfsmynd er okkur öllum mikilvægur grunnur að öðrum árangri - - og að andlegu og líkamlegu heilbrigði  - - og lífsgæðum til skemmri og lengri tíma.
 11. Síðustu árin hefur áhersla á samfélagslega samábyrgð - - og áhersla á lágmarksréttindi og sígilda málafylgju verkalýðshreyfingar  farið halloka.   Menn sitja einir að sínu;  gera launasamninga með leyndarákvæðum - - trúa því að þannig nái þeir að kreista fram örlítið hærri laun en nágrannar og samstarfsmenn - - - - sú hugsun hefur  einnig rutt sér til rúms að þeir sem njóta opinberrar þjónustu skuli sjálfir borga fyrir hana  - - jafnvel raunkostnaðar-verð - - menn borga sjálfir fyrir lyf og læknishjálp - - og umræðan um skólagjöld blossar upp nú sem aldrei fyrr.
  1. Innskot; Bankastjóri Englandsbanka Mervyn King tjáir sig í viðtali við Guardian – með þeim hætti að hann bendir á að fjármálageirinn hafi afvegaleitt efnilegt ungt fólk – keypt það út úr sjálfbærum og þróunardrifnum störfum í framleiðslu og hátækni - - og heitið óraunsæjum græðgisbónusum – ofur-uppgripum – sem séu í eðli sínu sjálfstortímandi þar sem þau skorti þann þróunar- og framleiðsludrifna grunn sem sjálfbært efnahagslíf þarf að hafa til langímajafnvægis.
 12. Í mínum huga er þessi dýrkun á efnahagslegum gæðum og hagnaðardrifinni starfsemi  á villigötum; því hún hafnar þeim grundvallaratriðum samábyrgðar og samkenndar sem öll samfélög þurfa á að halda til að geta þróast og þrifist og fóstrað nægilegt gagnsæi til þess að samheldnin bresti ekki.      Á síðustu vikum virðist mér hafa borið á því að menn átti sig á því að uppsveiflan er ekki eilíf - - og “svokölluð brotlending” í efnahagskerfinu er þegar farin að  laska marga.      Þá kann einmitt að vera betra að hafa öflugt velferðarkerfi - - og sanngjarnt öryggisnet - - sem engan skilur útundan.
 13. Eitt einkenni þeirrar græðgi sem riðið hefur yfir upp á síðkastið er stöðugt kvart og kvein yfir skattpíningu - - með því er verið að greiða veg fyrir skattalækkunum fyrir þá ríku.    Já skattar lækka á þeim sem eru velstæðir – en Í staðinn eru sett á sjúklingagjöld og skólagjöld og gert ráð fyrir að hinir öldruðu kosti sinn aðbúnað að umtalsverðu  leyti.  Að minnsta kosti eru þær greiðslur sem aldraðir og öryrkjar á sjúkrahúsum og stofnunum halda eftir  - þvílíkir smánarpeningar - - að við hljótum öll að fyrirverða okkur fyrir það siðferði sem þær staðfesta.
 14. Stofnuð eru samtök aldraðra;  til að berjast fyrir málefnum og kjörum þeirra sem hóps.   Mér bregður hins vega pínulítið þegar einstakir talsmenn þeirra ganga fram með talsverðum þunga og krefjast skattalækkana - - - - - ég get alveg skilið að menn vilji á öllum tímum kalla eftir réttlátri skattheimtu og þá tala menn einkum um það hverjir bera skattana  - - - en sjálfur er ég þannig gerður að ég kýs að borga skattana þegar ég sæmilega heilbrigður og fullvinnandi; - - ég vil glaður borga skattana mína núna og væri til í að borga ögn meiri skatta ef ég gæti síðan verið alveg viss um það að þegar mér þrjóta kraftar og heilsa þá þurfi ég ekki að reiða fram seðla - - Íslenskar krónur  - dollara eða Evrur  - - áður en ég ég gæti fengið þjónustu við hæfi hjá heilbrigðis – og öldrunarþjónustukerfum framtíðarinnar.   Satt að segja fellur mér það afar illa að þurfa að reiða fram umtalsverðar fjárhæðir þegar ég leita mér læknis eða þarf á lyfjum að halda - - og ennþá verr fellur mér sú tilhugsun að foreldrar barna þurfi í auknum mæli að greiða gjöld vegna menntunar barna sinna - - nóg er nú samt orðið um það ægilega peningaplokka sem er í kring um íþróttastarf og félagsmál barna og unglinga (eins og árangurinn hafi batnað í hlutfalli við það að farið var að borga öllum þjálfurum og mörgum leikmönnum meistaraflokka ofurlaun).
 15. Þess vegna er dagur eins og 1. maí - - og dagur aldraðra dagur þar sem við sameinumst í ákalli eftir réttlæti og sanngirni - - þar sem við sameinumst í þeirri kristilegu útleggingu að það sem við viljum sjálf fá að njóta sé hæfilegt fyrir alla aðra við sömu aðstæður.
 16. Meðan kirkjan ber fram kröfur um réttlæti fyrir hönd aldraðra á degi sem þessum og stendur þá um leið að ákalli um réttlæti fyrir alla aðra  - þá er von um að við höldum í jákvæðu horfi – jafnvel náum fram einhverjum réttarbótum
 17. Þau gildi sem mótað hafa flest lýðræðissamfélög vesturlanda – eru gildi samhjálpar og félagshyggju - - borin fram af samtökum launþega – skipulagðri verkalýðshreyfingu og almannasamtökum eins og samvinnufélögum, ungmennafélögum og kristallast einnig í verki í margvíslegum menningarfélögum.    Þessi gildi úreldast aldrei - - - en hafa verið kæfð í sjálfsupphafinni umræðufrekju græðginnar síðustu missirin.   Nú hefur fjármálakreppan greitt sérhyggjunni og græðginni talsvert högg - - - enda líklega rétt hið fornkveðna að “dramb er falli næst” - - -  Alþjóðleg peningakrísa gefur okkur vonandi svolítið andrúm til að staldra við - - og spyrja okkur sjálf hvort við viljum virkilega fylgja forskriftum sérhyggju og einkagræðginni mikið lengra.
  1. Rowan Williams Erkibiskup af Kantaraborg og helsti trúarleiðtogi Bretlands – situr í Lávarðadeildinni og tjáir sig inn á milli um siðferðileg og pólitísk málefni.  Í nýlegri ræðu sinni brýnir hann stjórnmálamenn til að setja græðginni hömlur og mæta grundvallarþörfum og réttindum smælingjanna þannig að ekki rofni sú samheldni sem nauðsynleg er til að samfélög fái þrifist og haldið heilbrigði sínu og varðveitt vítæk og almenn lífsgæði.      Skyldi ekki þessi boðun geta átt við Ísland dagsins í dag rétt eins?
 18. Það er ekki endilega víst að sú þróun sem orðið hefur hér á landi sé svo ólík því sem orðið hefur í Bretlandi – og í hinum stóra heimi vesturlanda - - - hinir ríku hafa orðið ríkari á kostnað þeirra sem minna mega sín - - og það virkar kannski sársaukalítið í uppsveiflunni þegar allir hafa ástæðu til að vænta betri tíma – sem afleiðingar af verðþenslu og velmegun.   Þegar hins vegar niðursveiflan kemur- - að ég tali nú ekki um þegar kemur til “brotlendingar í efnahagskerfinu”  - eins og virðist raunin hér á landi  þá verða alltaf þeir sem minnst mega sína fyrir mestum búsifjum – og þar verður afkomubresturinn sárastur;  - hjá börnum og barnafólki  örldruðum og öryrkjum.
 19. Það siðferði sem fylgt hefur verið í græðgisvímunni hér á landi -  - er að mínu mati hlaðið yfirgangi þeirra sem hrifsað hafa til sín auð á skömmum tíma – oft í krafti fákeppni eða beinlínis ranglátra leikreglna.   Það siðferði hefur ekki verið sniðið eftir hófsemdarboðskap kristinnar kenningar - - og hefur látið sér náungann og hans kjör í léttu rúmi liggja.    Hér eigum við öll erindi - - til að snúa við því sem á hefur hallast - - - og endurreisa af metnaði drauminn um jafnræði og lágmarkslífsgæði fyrir alla - - bæði yngri og eldri - - í samfélagi þar sem okkur getur öllum liðið vel - - og þar sem við getum stolt notið þess að eldast við öryggi - í samfélagi sem vill eiga okkur öll - - og lætur okkur finna það.
 20. Slíkir draumar úreldast aldrei þó við höfum mörg hver verið alltof feimin við það upp á síðkastið að orða slíka drauma og halda þeim til streitu.     Okkur hættir til að láta okkur það best líka að falla í hópinn - - og fáir vilja tala fyrir sjónarmiðum sem ekki eru kúl og hipp  . . . . .
 21. Hagnaður er kúl og neysla er inn - - - - sparnaður er ekki kúl - - og ráðdeild og samhjálp eru hallærisleg hugtök - - - jafnvel kennd við “lítið spennandi nágrannþjóðir”  - - sem þykja leiðinlegar – jafnvel óþolandi af því að þar er allt skipulagt og fyrirsjáanlegt – jafnvel langa framtíð . . .
 

Ég lýk orðum mínum með ósk um að réttlæti til handa öldruðum og öllum kynslóðum byggist á endurnýjaðri samábyrgð - - stjórnmálanna og almannasamtaka  - og verð varalega stutt af  víðtækum skilningi á “þjóðarsátt” - - sem stenst eðlilegan metnað okkar allra.

 

---

                       

Ég þakka ykkur ágætu kirkjugestir fyrir að ég skuli fá að koma á þessum merkisdegi – og tala til ykkar.

Ég þakka sóknarprestinum fyrir boðið hingað og óska kirkju ykkar og safnaðarstarfi alls hins besta um ókomna tíð.

 
 1. maí 2008.   Í Húsavíkurkirkju

Benedikt Sigurðarson