Rekstrarskilyrði atvinnugreina

Rekstrarskilyrði atvinnugreina:

Aðal-Seðlabankastjórinn hefur ekki yfirgefið hinn pólitíska völl og kann því greininlega illa að hafa takmörkuð verkfæri í höndum.   Davíð fer sem áður sínu fram – og nú í beinni andstöðu við lykilaðila í atvinnulífinu.   Nú finna hinar veikari atvinnugreinar virkilega fyrir ofurvöxtum Seðlabankans – og það sem verra er vaxtastiginu má líkja við landsbyggðarskatt.   Ofurvextirnir skapa forsendur fyrir útgáfu skuldabréfa í íslenskum krónum og leiða þannig beint til frekari gengishækkana.    Þar með fer þetta tvennt saman – háir vextir og hátt gengi  - og fyrirtæki í útflutningi missa niður tekjur um leið og ódýr innflutningur skákar samkeppnisiðnaði út af markaðnum.   Ferðaþjónustan og samkeppnisiðnaðurinn eiga það sameiginlegt að vera illa fjármagnaðar greinar – og finna þar af leiðandi meira fyrir þessu vaxtastigi en þjónustugreinar og innflutningur.   Einnig er á að líta að sjávarútvegurinn hefur alveg fram undir þetta verið ein megingrein á landsbyggðinni – og finnur nú fyrir hágenginu sem aldrei fyrr.  Ef ekki kæmi til alveg sérlega hagstæð verð á ýmsum mörkuðum þá mundi sjávarútvegurinn vera í alvöru kröggum.   Rækjan er liðin undir lok og þeim byggðarlögum fækkar sem sækja grunn lífsafkomunnar til auðlinda sjávarins. 

Starfslok bankastjóra

Það er ekki í eintómu gríni sem áhrifamenn í atvinnulífi bjóðast til að leggja að mörkum til starfsloka fyrir Seðlabankastjóra.     Það er nefnilega alls ekki séð fyrir endann á þessarri stöðu sem nú er uppi.     Menn spyrja  hvort Davíð ætli að halda áfram að hækka vextina þegar kæling hagkerfisins framkallar gengishrun – með tilheyrandi verðbólgu.  Menn spyrja líka hvers konar atvinnulíf verður eftir á landsbyggðinni ef þensluskeiðinu – með hágengi og ofurvöxtum - er haldið áfram í 5 til 10 ár.   Ætla stjórnvöld að halda áfram að keyra risaframkvæmdir á SV-landi inn í hagkerfið – 2-3 álver?  Menn velta því þá að vonum fyrir sér líka – hvað fólk á að gera á þeim stöðum á landsbyggðinni ”sem ekki fá álver.”  Hér er greinilega búið að skapa vítahring sem sannarlega einkennist ekki af stöðuleika og vexti í þágu allra – og alls staðar á landinu. 

Vaxtargreinar og þekkingarfyrirtækin flýja

Á tímabili stóriðjustefnunnar og þeirrar spennu sem einkavæðingin og útrásin hafa lagt til efni í þá hafa vaxtargreinar þekkingariðnaðarins verið vanræktar.   Stórfyrirtæki eins og Marel, Össur, Sæplast og fleiri slík hafa átt í erfiðleikum með að efla innlenda og verðmæta starfsemi sína.    Ef ekki hefði komið til stofnunar Íslenskrar Erfðargreiningar  á sínum tíma þá væri Ísland afar neðarlega á listanum yfir framlög þjóða til rannsókna og nýsköpunar.  Nú blasir hins vegar við að ef ekki verður skipt algerlega um stefnu að þessi áhugaverðu og verðmætu nýsköpunar- og þróunarfyrirtæki – ásamt hugbúnaðarfyrirtækjum – munu leggja áherslu á að byggja sig upp erlendis og etv. mikið til flytja úr landi.   Það er ástæða til að hlusta á reynslubolta eins og Hörð Arnarson í Marel og Geir Gunnlaugsson hjá Promens – þeir eru ekki að reyna að plata neinn þegar þeir kalla eftir stefnubreytingu hjá stjórnvöldum.  Ágúst Guðmundsson kenndur við Bakkavör og margir fleiri hafa tekið í sama streng.  Samtök Iðnaðarins hafa kallað eftir breytingu – og nú sem aldrei fyrr vegna rekstrarskilyrða fyrirtækjanna.    Það væri  þó einungis einn hluti af lausn í málinu að nálgast mynt- og vaxtaumhverfi Evrópusambandsins eins og SI hefur lagt til. 

Nýsköpun í atvinnulífi þarf að örva

Samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum og í viðskiptum hafa breytt vinnumarkaði á Íslandi varanlega.   Frjáls flutningur vinnuafls frá láglaunasvæðum – skapar aukinn þrýsting á að sem flestir ljúki skólagöngu með staðfestum árangri – í formi starfsréttinda eða annars lokaprófs sem nýtist á vinnumarkaði.  Sérhæfð þjónusta – etv. einkum á sviði fjármála – þekkingarstörf, hönnun og hátækni  eru þau svið sem framtíðarhagsæld Íslendinga verður í verulegum mæli að byggjast á.Til að slíkt verði er mikilvægt að vinna markvisst að einstökum málum;

  • Rannsóknarstyrkir og stuðningur við fjárfestingar einkaaðila í nýsköpun, rannsóknum og þekkingaryfirfærslu eru virk aðgerð.
  • Skattaumhverfið þarf að styðja nýsköpun – með þekkingarsetur/vísindagarðar í tengslum við háskóla og rannsóknarstofnanir sem fá beinan stuðning ríkisvaldsins.
  • Fjárfestingarsjóðir þurfa að leggja lið með einkaaðilum, – fjármagnaðir með opinberu fé í samstarfi við viðskiptalífið.
  • Vaxtarsamningar – með virku frumkvæði viðskiptalífsins og samstarfi við sveitarstjórnir og stofnanir ríkisins   - ættu að taka yfir eldri aðkomu Byggðastofnunar.
  • Vísinda og tækniráð/Tæknisjóður  og Nýsköpunarsjóður geta tekist á við aukið hlutverk í þróun og fjárfestingum – um allt land.
 Mörg nágrannalönd hafa stillt rekstrarumhverfi nýsköpunar  og hátækni þannig að þangað sækja þekkingarfyrirtæki og skapa varanlega verðmæt og krefjandi störf.  Það getum við líka gert – og haft af því skýran efnahagslegan ávinning.    Ég vil leggja slíkri stefnubreytingu lið.