Gott það fór svona illa - fyrst það fór ekki vel

Sennilega er það rétt sem einn vinnufélagi minn gaukaði að mér eftir prófkjörið; eitthvað á þessa leið; “ - að fyrst þú náðir ekki árangri þá var best fyrir framhaldið að oddvitar Samfylkingarfélagsins og bæjarfulltrúarnir hér á Akureyri snerustu opinskátt gegn þér  - sem frambjóðanda og málsvara fyrir mikilvæga hagsmuni Akureyrar og nærsvæðisins – og kjördæmisins í heild.   Þannig öðlastu fullt málfrelsi að afloknu prófkjörinu.” 

Líklega er þetta alveg rétt;  ég hef enga skuldbindingu gagnvart þeim sem skipa efstu sætin og alls ekki gagnvart bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar á Akureyri – þeir hafa algerlega frábeðið sér liðsinni af minni hálfu í þessarri umferð.     Ég hlýt að fagna þessu “frelsi” öðrum þræði þó ég álíti að Samfylkingin og nútímaleg og lýðræðisleg jafnaðarstefna hafi þannig misst af  málafylgju minni og forystu frá einum af sínum “bestu sonum” – jafnvel öflugasta málsvara þessarra sjónarmiða hér á NA-landinu.  

Ég er ekki í fýlu út í flokkinn minn, - Samfylkinguna og alls ekki út í jafnaðarstefnuna.    Ég vil jafnframt taka fram að ég varð alveg sérstaklega ánægður á sínum tíma þegar Ingibjörg Sólrún var kjörin formaður í flokknum – það taldi ég boða að möguleikar væru á endurnýjun og virkilegri nútímavæðingu í íslenskri pólitík.   ISG virðist hins vegar hafa lent í tiltekinni sjálfheldu og gíslingu hinnar “mjúku nálgunar” þar sem hún hefur forðast að stugga við Össuri svila sínum og þeim forpokuðu sjónarmiðum sem nokkrir af helstu stuðningsmönnum hans halda á lofti.  Össur hins vegar misnotar að mínu mati þessa “fjölskyldu-aðstöðu” og virðist fyrirmunað að skilja að hans tími er liðinn á þessum vettvangi.   

En ég hef sem sagt fullt málfrelsi og ætla að láta síðuna  www.bensi.is flytja þau sjónarmið sem ég tel mikilsverð fyrir samfélagið og fyrir pólitíkina á miðju og til vinstri.   Ég hef ekki misst meðvitund varanlega þrátt fyrir “rothöggið” og ég tel mig engu minni samfylkingarmann eftir prófkjörið.  Ég lærði hins vegar ákveðna lexíu – og ég kynntist býsna vel tilteknum vanda vinstri hreyfingar á Íslandi.   

Mér finnst mikilvægt að ég læri af reynslunni – og ég er handviss um að Samfylkingin hefur gott af því að ég ræði málin alveg opinskátt.   Hver mundi svo sem vilja forðast umræðuna – eða koma í veg fyrir hana?