Framtíð prófkjöra – forkosningar?

Ef prófkjör verða við lýði 2010 þá er mitt mat að galopið prófkjör sé það form sem Samfylkingin á að viðhafa – það er heilbrigðast fyrir lýðræðislegan jafnaðarmannaflokk.    Von mín er hins vegar sú að innan fárra ára náist samkomulag um að breyta kosningakerfinu og prófkjörum þannig að unnt verði að halda forkosningar allra flokka á sama degi.  Jafnframt vildi ég gjarna sjá að kjósendur gætu bæði kosið fólk og flokka í kosningum sjálfum og framboðsaðilar myndu þá bjóða fram óraðaða lista.   Einmenningskjördæmi  geta kannski komið til greina – en þá því aðeins að það verði tvöföld kosning einhvers konar og jafnvel tvær þingdeildir. 

Það hlýtur að vera  eðlilegast að í forkosningum geti einstaklingar einungis kosið einn flokk (leiðinlegt fyrir Siglfirðinga) og merkt t.d. einungis við ca. 1/3 af þeim fjölda sem síðan eiga að skipa listann.  Síðan á kjördag gæti kjósandi merkt við tiltekinn fjölda einstaklinga – óháð því á hvaða lista þeir sætu, en einungis mætti velja einn flokk.      

Stjórnlagaþing! 

Sennilega þarf að draga umræðu og ákvöðun um þetta mál úr höndum stjórnmálaflokkanna og frá stjórnarskrárnefnd flokkanna og stofna til sérstaks stjórnlagaþings sem væri kosið beint og kerfisbundið aftengt hinu pólitíska valdi sem situr í landinu.   Þetta var hugmynd sem Samtök um jafnrétti milli landshluta héldu á lofti hér á árum áður en varð lítið ágengt með.   Hugmyndin sofnaði síðan endanlega þegar forvígismenn stofnuðu Þjóðarflokkinn og sumir gengu síðan til liðs við Alþýðubandalagið og VG.