Og Árni Johnsen mættur á svæðið

Þá fer nú að verða skrautlegt víðar.  Fyrirgefning er falleg og göfug og á við í flestum efnum – kannski líka í stjórnmálum – en þarna sýnist mér að Sjálfstæðismenn hafi skotið yfir markið og kvittað of sterklega fyrir sinn mann.  Þeir verða nefnilega að hugsa um aðra líka – og Sjálfstæðisflokkurinn á ekki stjórnmálin í Suðurkjördæmi einn og sjálfur. 

Það er sama þó að Guðjón Hjörleifsson og Gunnar Örlygsson séu í skammarkróknum  - þeirra pólitíska refsing er ekki marktæk af því að Drífa Hjartardóttir er dæmd til útlegðar líka – og hún hefur fjadakornið ekkert til sakanna unið – eða þannig beint.    

Veit ekki alveg hvað maður á að halda; – ég hélt að Árni Johnsen þyrfti ekki að berjast þarna fyrir uppreisn – ég  hélt að flokkurinn gæti komið til móts við hann með góðum hætti og sýnilega.    

Til hamingju með þetta samt Árni – úrslitin eru glæsileg fyrir þig og gefa þér virkilega annað tækifæri.  Nú er bara að nýta það jákvætt og fara ekki að halda fram einhverri bölvaðri vitleysunni  um jarðgöng til Eyja – strax eftir kosningar.   Skoðum frekar ferjuhöfn á Landeyjasandi og “millilandaflugvöll” á Bakka.

 

Aftur til hamingju elsku kallinn; -  og Róbert Marshall er líka kominn á svæðið með gítarinn.  Þetta getur sjálfsagt orðið miklu skemmtilegra hjá ykkur heldur en vísnahnoð Halldórs Blöndal, Steingríms J og Jóns Kristjánssonar hefur verið hér um útkjálkana fyrir norðan.

 

Að skíta í nytina sína (sagði amma) 

En samt Árni þú klúðraðir annars ágætri iðrun með rugli um "tæknileg mistök" og einhverja aðra sem sluppu við ákæru...... "Sigur þinn er strax orðinn dálítið kæstur og illa lyktandi.... nú þarftu að taka þig á og líklega steinþegja og kannski vera í úteyjum fram undir páska."