Fyrirsjáanleg úrslit – gamalkunnug “lykt”

Sé litið til baka má sennilega segja að ég hefði átt að sjá að þegar búið var að ákveða að loka prófkjörinu og negla niður póstkosningu um 3 sæti þá urðu möguleikar nýrra aðila inn á völlinn frekar litlir.     Samt sem áður hafði ég fengið þannig jákvæð viðbrögð á mitt svar við fjölmiðla og einnig þær kannanir sem hvatamenn að framboði mínu höfðu dregið upp – að það varð ekki aftur snúið; - þannig séð. Ég vissi auðvitað að tiltekinn hópur í “eignarhaldsfélagi Samfylkingarinnar á Akureyri” mundi ekki fagna framboði mínu og ég vissi líka að opinská pólitík og hugmyndalegt frumkvæði ætti ekki upp á pallborðið hjá þeim sem fyrir sátu á fleti frá fyrra framboði; Alþingismenn og varaþingmenn.    

Á kjördæmisþinginu í Skjólbrekku 10. september fann ég “gamalkunna lykt” frá þeim tíma þegar Alþýðubandalagið var á sínum mesta niðurlægingartíma –  undirlagt af klíkustarfsemi og persónulegri illvild milli manna.   Ég hélt satt að segja að VG hefði tekið til sín fúlasta hlutann af því liði sem eyðilagði Alþýðubandalagið gamla og ég hafði trúað því að endurtekin úthlaup Alþýðflokksleifanna á Akureyri (Sigbjörn og Oktavía) hefðu dregið gömlu “fýlukratana” yfir til Sjálfstæðisflokksins.

Þarna kom líklega eitthvað allt annað í ljós – og er eiginlega alveg furðulegt að sjá hversu takmarkaðan hóp ráðandi aðilar í flokksstarfinu á Akureyri hefur dregið að sér.    Hér þarf að mínu mati að verða verulega breyting á ef t.d.ungliðastarf á að skila áhugasömum ungum jafnaðarmönnum til liðs við Samfylkinguna – til að endurnýja þann hugmyndagrunn sem jafnaðarmenn þurfa að geta skilað breyttu samfélagi framtíðarinnar.   Sorglega fámennur hópur ungra – og lítil virkni í skólunum;  kannski eru engir af þeim eldri að hjálpa til? 

Ég hafði ekki og hef ekki uppi nein áform um að þóknast klíkum gömlu flokksbrotanna – og á sama hátt sóttist ég ekki eftir stuðningi tiltekinna einstaklinga fyrirfram.  Lít enda svo á að það fari best  á því fyrir stjórnmálaflokkana að halda öllum flokkadráttum og opinberri liðssöfnun frambjóðenda í lágmarki í prófkjörum flokkanna og forðast að stilla upp blokkum  - með einum frambjóðanda og á móti öðrum.