Kosningu lokið

Takk fyrir viðtökurnar

Atkvæði sem talin verða á laugardaginn þurfa að hafa fengið stimpil í síðasta lagi í gær.   Við vitum ekki hversu margir tóku þátt - og bíðum frétta af því allt til 4. nóvember.

Þakka ykkur fyrir góðar viðtökur - og reyndar alveg frábærar viðtökur við heimasíðunni www.bensi.is - sem hefur fengið upp í 416 heimsóknir á einum degi.  Flesta daga hafa heimsóknir verið 200-250 og nokkrum sinnum um 350.  Þessar 5 vikur sem bensi.is hefur verið á vettvangi hafa þannig vakið meiri athygli heldur en ég lét mig dreyma um.

Framboð mitt hefur fengið býsna mikla og jákvæða athygli hjá almenningi - og málefnauppstilling mín hefur vakið nokkurt umtal um allt kjördæmið.  það hefur fjöldi fólks staðfest með tölvupóstum og einnig í beinum samtölum.   Það er afar gefandi og jákvæð reynsla fyrir mig sem áhugamanns um samfélagsmál.  Ég kalla mig "samfélagslegan-aðgerðasinna" og fannst þess vegna áhugavert að bjóða fram krafta mína á þessum vettvangi.  Takk fyrir viðtökurnar - og ekkert síður þið sem alls ekki hafið áhuga á að skrá ykkur inn í Samfylkinguna - ykkar jákvæðu viðbrögð skipa máli þó þau komi mér ekki beint til góða í formi atkvæða.

Neikvæða hliðin  er líka til staðar.  "Eignarhaldsfélög" hafa mikilvægu hlutverki að gegna í atvinnurekstri en slík samtryggingarfélög geta reynst stjórnmálastarfi fjötur um fót og beinlínis vegið að lýðræðinu - ef þau ráða för í starfi stjórnmálaflokkanna.    Sitjandi fulltrúar  - oddvitar og Alþingismenn - setja sig allt of oft í þá stöðu að þeir kalla nánast til "eignar" á sætum og embættum.  Slíkt er sjálfsagt bæði mannlegt og fyrirsjáanlegt - en þá veltur á að stjórnmálaflokkarnir hafi nægilega gagnsæjar reglur og sanngjörn kerfi til að koma í veg fyrir misbeitingu af nokkru tagi.

Leikreglur við val á framboðslistum  hjá Samfylkingunni eru ekki samræmdar.  NA-kjördæmi er eina kjördæmið þar sem prófkjörið er lokað - og skráning í flokkinn forsenda þátttöku. Þess vegna er það eina kjördæmið þar sem fram kemur einhver misvísun með aðgengi að skráningunni - og það veldur vandræðum að heimasíðan og vefkerfið sem er notað er ekki að virka.    200 manns eru teknir inn á kjörskrána eftir að frestur er liðinn og prófkjörsnefndin tekur sér 14 daga til að "still af skráningu í flokkinn" - áður en skráningu er skilað til aðalskrifstofu Samfylkignarinnar í Reykjavík.   Samræmdar aðferðir þurfa að koma til  - fyrir kosnningar 2010 og 2011  - til að gera okkur trúverðugri og sýna meiri heildarsvip.

Gagnsæjar leikreglur - opinská og öflug kynning flokks og frambjóðenda  - m.a. með auglýsingum -  er að mínu mati sú umgjörð sem stjórnmálastarf í nútímanum þrífst best í.   Pukur og lokuð kerfi með alls konar takmörkunum og hindrunum  - eru ekki líkleg til að efla lýðræði eða auka áhrif þeirra sem eiga minnst undir sér.   Áhrif fjármálaflanna og einstakra fjármálamanna eða valdamanna verða miklu hættulegri lýðræðinu ef þeim er öllum beint undir yfirborðið - í stað þess að kalla þau fram og upplýsa.     Reglur um fjárreiður í stjórnmálastarfi þurfa auðvitað að ná til prófkjöra og beinlínis að hvetja til þess að allt verði uppi á borðinu.  Kannski ættu fyrirtækin á fá skattafslátt fyrir framlög til stjórnmálastarfs rétt eins og til menningarmála, mennta og íþrótta.  Þetta eru jú allt mikilvæg samfélagsverkefni sem við eigum mikið undir.

Ég get verið mjög ánægður með málefnalegan árangur minn fram til þessa.  www.bensi.is ætlar að halda áfram.  Á laugardaginn fáum við að vita á hvaða plani það verður - innan Samfylkingarinnar í NA kjördæmi - næstu 4 árin.

takk og bless