Benedikt býður sig fram til forystu fyrir Samfylkinguna

Benedikt sækist eftir forustusæti hjá Samfylkingunni í NA kjördæmi

 

 

Ég gef kost á mér til forystu á lista Samfylkingarinnar og býð fram krafta mína og málafylgju,“ segir  Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri, sem sækist eftir einu af efstu sætum Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi.  „Mér finnst afar mikilvægt að við göngum jákvæð til framtíðar og sýnum kjark um leið og við biðjum kjósendur afsökunar á þeim mistökum, sem flokkur okkar átti þátt í meðan stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn stóð yfir.  Ég teldi mjög vænlegt til árangurs að fá að deila öðru af tveimur forystusætunum með öflugri konu sem valin væri til þess,“ segir Benedikt ennfremur.

 

Benedikt telur að virkni hins almenna kjósanda í umræðunni síðustu mánuðina beri að túlka sem ákall eftir lýðræðisumbótum og að vaxandi þungi virðist vera í kröfunni um að stjórnmálamenn axli ábyrgð. Samfylkingin sé lýðræðislegur jafnaðarmannaflokkur og eigi ótvírætt að vera í fararbroddi siðbótar íslenskra stjórnmála  Því sé opið prófkjör hjá Samfylkingunni í NA kjördæmi sjálfsögð tilraun til að bjóða áhugafólki um félagshyggju og samfélagslegt réttlæti að taka þátt í endurnýjun forystusveitar flokksins í kjördæminu.

 

Aðgerðir fyrir heimilin

Benedikt hefur sérstaklega beitt sér í umræðunni um rekstrarskilyrði heimilanna og afleiðingar kreppuhrunsins fyrir fyrirtækin og heimilin. Barátta hans fyrir jafnræði milli lántakenda og fjármagnseigenda hefur vakið athygli og hefur hann komið fram sem málsvari hugmynda um ákveðna niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra lána.

„Það er algert forgangsmál að koma til móts við yngri fjölskyldurnar, sem fjárfest hafa í góðri trú. Skilvirkasta leiðin og sú sem kemur flestum fjölskyldum til góða er að færa niður höfuðstól lánanna – sem nemur því yfirskoti sem vístala neysluverðs hefur bætt við höfuðstólinn frá 1. mars 2008. Jafnframt þarf að gera upp gengistryggð lán með samningsgengi. Þetta er óhjákvæmilegt að gera þar sem forsendur fyrir samningum almennra lántakenda við fjármálafyrirtækin hafa algerlega brostið. Bæði brugðust stjórnvöld skyldu sinni um að varðveita stöðugleika og fram hefur komið að viðskiptabankarnir markaðssettu lán með villandi hætti, í ljósi þess að þeir stunduðu á sama tíma áhættu, sem að lokum felldi allt fjármálakerfi okkar.“  

 

Aðild að ESB

Benedikt telur knýjandi að leita samninga við ESB og vill óska flýtiaðgangs að tengingu við evru eða fulla aðild  að myntbandalaginu.  „Það er hins vegar algerlega lífsnauðsynlegt fyrir atvinnureksturinn í landinu að keyra stýrivextina niður í 4-5% með miklum hraði. Jafnframt verðum við að afnema verðtryggingu og gera víðtækan sáttmála um að leggja verðbólguna að velli.

 

Stöðugleiki gæti skapast mjög fljótt ef framtíðarsýnin er skýr og byggð á breiðu samkomulagi aðila í stjórnmálum og á vinnumarkaði.“

 

Benedikt er virkur bloggari og heldur úti vefsíðu http://blogg.visir.is/bensi og einnig heldur hann lifandi heimasíðunni http://www.bensi.is

 

Hægt er að fá nánari upplýsingar hjá Benedikt Sigurðarsyni, en hann er í síma: 869-6680