Vonbrigði með fréttastjóra DV

 

Fréttastjóri DV sýnir einbeittan vilja til ”að halla máli”

Las kjallaragrein eftir Inga Vilhjálmsson fréttastjóra í blaðinu föstudaginn 26.nóvember 2010. 

Ingi Freyr Vilhjálmsson

Greinin er helguð Hagsmunasamtökum Heimilanna og að hluta einum af fv. stjórnarmönnum samtakanna Marínó G Njálssyni sérstaklega.     En greinin er einnig helguð sérstökum lítt dulbúnum stuðningi við yfirgang fjármálakerfisins og við áróðursblandinn málflutning stjórnvalda og þátt Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra öllum öðrum fremur. 

Þetta framlag fréttastjórans er afar sérkennilegt vegna þess hversu óvandað það er og raunar illskeytt í garð opinna almannasamtaka sem hafa helgað sig baráttu fyrir hagsmunum heimila.  HH koma fram:

  • Með almennri kröfu um að fjölskyldur séu varðar fyrir efnahagslegum áföllum með samfélagslegum viðbrögðum.
  • Baráttu fyrir því að neytendaréttur gildi í viðskiptum við fjármálakerfið.
  • Báráttu fyrir því að lántakendur njóti sérstakrar verndar gegn handstýrðum yfirgangi fjármálkerfisins – gegn handrukkun og innheimtu löglausra lána og okurvaxt.
  • Baráttu fyrir því að jafnræði sé innleitt og jafnvægi skapað um áhættudeilingu milli lántakenda annars vegar og lánveitenda hins vegar.
  • Tillögugerð um breytt fjármögnunarumhverfi á húsnæðismarkaði.
 

Og skyldu nú þessi baráttumál vera ógnun við hagsmuni þeirra annarra sem ekki vilja leggja Hagsmunasamtökum Heimilanna lið?   Auðvitað ekki.   

HH eru ekki baráttuhópur fyrir sérhagsmunum og hafa beinlínis mælt gegn áherslu stjórnvalda á sértæka og duttlungakennda úrvinnslu skuldamála einstaklinga og fyrirtækja innan bankanna. 

HH er ekki leynifélag sem vinnur að því að viðhalda forréttindum - - þvert á móti hafa samtökin kallað eftir því að jafnvægi sé skapað á milli hagsmuna fjármálakerfisins og almennings annars vegar og að stjórnvöld beiti sér til að leiðrétta þá mismunun sem skuldsettur almenningur sætir af hálfu stjórnvalda en á sama tíma beitti ríkisstjórn og Alþingi handafli með ”neyðarlögum” til að tryggja sparifjáreigendum 100%+ innistæðutryggingar 

HH eru aðeins ein af fjölmörgum tilraunum almennings til að kalla eftir breyttu og betra samfélagi eftir-hrun - - þar sem sérhagsmunir víki fyrir almennum hagsmunum og jafnræði hópa og hagsmuna taki við af valdbeitingu fámennrar stjórnmálaklíku og yfirgangi siðblinds fjármálakerfis.     

Málflutningur samtakanna og stefnumörkun er auðvitað ekki fullkomin og í samtökunum eru einstaklingar af breytilegum ”stærðum og gerðum.”   Það sem einkennir hópinn eflaust öðru fremur er að þeir eiga sameiginlega reynslu í því að hafa orðið fyrir ”stökkbreytingu” lána sinna - - og hafa mætt því að áætlanir sem gerðar voru í góðri trú hafa hrunið.  

Fjölmargir sitja uppi með óleysanlega stöðu - - eftir að hafa orðið fyrir atvinnumissi eða tekjuhruni og eftir að höfuðstóll lána rauk langt upp fyrir greiðslugetu og verðmæti eignar.      Einhverjir læstir með tvær eignir ofurskuldsettar eftir stökkbreytingu lána og hið bráða markaðshrun.   Menn geta ekki selt sig frá ofþungri byrði og sjá ekki fram úr – telja sig þannig að óbreyttu svipta sjálfræði sínu um fyrirsjáanlegan tíma. 

Að virða fólki í slíkri stöðu það til ámælis að þeir taki þátt í opinberri umræðu um skuldavandann er ótrúlega ósvífið af lykilmanni í fjölmiðlun dagsins - - álíka ósvífið og að halda því fram að sjómenn sem lent hafa í stórslysum á sjó eigi ekki að ræða öryggismál sjómanna eða að þeir sem nú bíða, tekjulausir og atvinnulausir í biðröðum hjálparstofnana, - eigi ekki að blanda sér í umræðu um fátækt í landinu.

 

 

Marínó sleginn niður . .   

Ef Marínó G Njálsson hefði nýtt sér það umboð sem hann hélt á sem stjórnarmaður í HH eða fulltrúi samtakanna í samskiptum við stjórnvöld, til að draga áherslur að, - eða kalla fram úrræði, - sem persónulega hefðu komið honum betur en ”almennar aðgerðir” -  þá kynni málið að líta öðru vísi út - -eða hefði hann  farið með rangar tölur og útreikninga.    Slíkt gerði hann ekki.

Og ekki hefur heldur verið bent á með rökum að hann eða aðrir fulltrúar samtakanna hafi afflutt neinar tölur eða staðreyndir.   Þvert  á móti hafa stjórnvöld þverskallast við að leggja fram umbeðnar greiningar og staðreyndir þannig að allur almenningur eigi auðveldara með að taka þátt í að meta vandann og mögulegar leiðir.    

Og eins og áður sagði hafa HH og allir fulltrúar samtakann haldið sig við hugmyndir um að kjarninn í viðbrögðum samfélagsins skuli byggjast á almennum aðgerðum – þannig lágmarkist fjöldi og vandi þeirra fjölskyldna sem verður ekki komið til hjálpar nema með sértækum aðgerðum, með greiðsluaðlögun eða gjaldþrotum.  HH hafa einmitt lagt áherslu á að hin sértæku úrræði yrðu gerð skilvirk og endi settur við þá nauð sem þrotameðferð leiðir yfir fjölskyldur með styttum líftíma á kröfum eftir gjaldþrot. 

Samhjálp 

 

Hrafnaflóki hafði ekki Bjargráðasjóð að leita til þegar hann missti búsmalann og hraktist aftur til baka til Noregs – hann var eyland á Íslandi og átti engan aðgang að samhjálp eða nábýli.  Þannig var það í árdaga byggðar.  

Það er engu síður orðin löng hefð fyrir því hér á Íslandi að samfélag og nágrenni bregðist við vanda – með samstilltu átaki.    Sá miðlar ef efnum og forða sem af nógu hefur að taka.   Njáll á Bergþórshvoli lét senda Gunnari á Hlíðarenda ”hey og mat” þarna um árið þegar Hallgerður var i klúðrinu fræga -  - löngu fyrir daga almannatrygginga og Mæðrastyrksnefndar.     

Smátt og smátt innleiddu Íslendingar siðmenntaða samhjálp, innleiddu almannatryggingar og gjaldfría heilbrigðisþjónustu og almenna menntun.   

Þannig var staðan í öllum meginatriðum t.d. 1973 þegar íslenska þjóðin taldi það algerlega sjálfsagt að stofna til Viðlagasjóðs og sameiginlegra opinberra trygginga til að takast á við hamfaratjón af völdum Vestmannaeyjagossins.   Það sama hefur þjóðin endurtekið í hamförum vegna snjófljóða á Vestfjörðum og Austfjörðum og vegna jarðskjálfta á Suðurlandi.      Í slíkum tilvikum fá einstaklingar og fjölskyldur bætur í hlutfalli við tjón sitt. 

 

Um það er ekki deilt að sá sem ekki verður fyrir tjóni í slíkum hamförum fær ekki bætur, en  sá sem á stórar eignir og verður fyrir miklu tjóni fær miklar bætur.  Jafn sjálfsagt þykir að sá sem verður fyrir minniháttar tjóni fái litlar eða engar bætur.  Þá er aldrei spurt hvort viðkomandi tjónþoli eigi miklar eða litlar aðrar eignir, hvort viðkomandi skuldi meira eða minna, eða hvort viðkomandi hafi góðar tekjur eða engar tekjur. 

 

Almennar aðgerðir

 

Ein af meginkröfum Hagsmunasamtaka heimilanna gagnvart því hamfaratjóni sem verðtrygging lána í gegn um Hrunið stóra færði inn í persónulegan fjárhag skuldsettra fjölskyldna verði meðhöndlað með sambærilegum hætti og náttúrhamfara hafa verið meðhöndlaðar síðustu 40 árin - - þ.e eins og samfélagslegt áfall.   

Sérstaklega telja samtökin að gild rök liggi til þess gagnvart skuldavandanum af því annars vegar að vandinn ýkist vegna meðvitaðra ákvarðana stjórnvalda á hrundögum og eftir hrun þar sem vísitölur eru ekki aftengdar og stjórnvöld hlaða á stökkbreytt lán með hækkun á gjöldum og sköttum.   

Hins vegar eru góð rök til samfélagslegra viðbragða við skuldavanda heimilanna vegna þess að afleiðingar lama neytendahagkerfið og veldur keðjuverkunum í gegn um allt hagkerfið, með minnkandi neyslu, minnkandi vinnu og veikari tekjugrunni hins opinbera samfara auknum útgjöldum til atvinnulausra og niðurskurði í velferð, menntun og heilbrigðismálum.  

 

Þróun - eða afturför

 

Síðustu tveir til þrír áratugir græðgisvæðingar og sérhyggju  – hafa klárlega kallað fram augljóst bakslag gagnvart almennum samfélagslegum ábyrgðarverðmætum    Tekin er upp ”sér-eignarsparnaður” og innleidd alls konar notendagjöld, skólagjöld og greiðslur sjúklinga.    Viðhorfum samhjálpar og almannaeignarhalds  var ýtt út af borðinu og ”hluthafalýðræði,” einkavæðing ríkiseigna og hagnaðardrifin viðmið tekin upp í rekstri opinberrar þjónustu.    

Skýringar á núverandi skuldavanda eru ekki bara fólgnar í óábyrgri hegðun bankanna, Seðlabankans, FME sem endaði í Hruninu stóra og þannig ekki bara í því sem gerðist án eða þrátt fyrir aðkomu stjórnvalda.    Skýringarnar eru að stórum hluta í tvennu sem hvort tveggja er handstýrt;

  • Sér-íslensk verðtrygging lána heimilanna var hönnuð og upphaflega hugsuð til að takast á við stöðuga og langvarandi þensluverðbólgu og lánskjör voru í byrjun tengd launaþróun.    Verðtrygging hins vegar leiðir til þess að leiðréttingarmekanismar bankahruns og efnahagshruns raskast – og fara að vinna í öfuga átt; - lán hækka um leið og verðmæti eigna lækkar og gjaldeyriskreppan býr til ”mælda verðbólgu” sem hefur ekkert með þenslu að gera.   Vegna verðtryggingar ”höfuðstóls lána” – sem er óþekkt í nágrannalöndum  og vegna hávaxtastefnu sem enn er við lýði - er ekki  mögulegt að beita klássískum aðferðum til bráðabirgða við skuldavanda - - með einföldustu gerð af greiðlufrestun og lengingu lánstíma.
  • Innistæðutryggingar upp á 100% í gegn um hrun allra stærri bankanna – með aukin heldur ýktri ávöxtun innistæðna  gegn um verðtryggingu og óraunsæja hávaxtastefnu um árabil -  handflutti amk. 800 milljarða frá kröfuhöfum og almenningi – á kostnað ríkisins - - og til takmarkaðs hóps stór-innistæðueigenda.  Til ríks fólks og til lífeyrissjóða og spekulanta flutti ríkið gríðarlega fjármuni.  Og ekki bara nafnverð innistæðna - - heldur ofur-ávöxtun og miklu meiri ávöxtun heldur en staða inneigna nú nemur.     Í gegn um hrunið hefur  1 milljón í fjárfestingar-peningum margfaldast af kaupmætti; - - eignir hafa hrunið og nú má fá fasteignir á hálfvirði og lífvænn rekstur fæst fyrir 20-30% af því verði sem greitt var fyrir sambærilegan rekstur fyrir hrun.      

 Auk þessa voru 230 milljarðar greiddir út úr peningamarkaðsreikningum föllnu bankanna með meira en vafasömum ákvörðunum – og með þokukenndir íhlutun eða amk. í skjóli stjórnvalda.   Fjármagnseigendum voru þannig færðar fjárhæðir sem námu meira en 1000 milljörðum – með beinum aðgerðum stjórnvalda og í skjóli þeirra 

Með því formi sem haft var á þessu inngripi fyrir fjármagnseigendur stóð upp á stjórnvöld í október og nóvember 2008 að bregðast við fyrirsjáanlegum vanda vegna verðtryggingar lána.   Jóhanna skipaði nefnd sérfræðinga - - sem síðan ráðlögðu að ekki yrði gripið inn í með frystingu vísitalna í lánasamningum - - vegna mikilvægta ávöxtunarhagsmuna lífeyrissjóðanna og fjármálakerfisins  - í gegn um Hrunið.    

Að fara í manninn en ekki boltann - fréttir eða áróður

 

Með vísan til þess sem að ofan greinir er býsna sérkennilegt – að ekki sé fastar kveðið að orði – hversu harkalega fréttastjóri DV hallar máli og ræðst að Hagsmunasamtökum Heimilanna.    Ekki vegna þess að Ingi Vilhjálmsson sé ekki frjáls skoðana sinna, heldur vegna þess að hann er yfirmaður og verkstjóri við fréttaflutning sem vill alveg örugglega gefa sig út fyrir að flytja fréttir með hlutlægum og yfirveguðum vinnubrögðum.  

Sjálfur vil ég geta treyst því að fréttaskrif DV séu ekki skekkt og kerfisbundið dreginn taumur sjónarmiða eða hafður uppi beinn og óbeinn rógur gagnvart aðilum og samtökum. Mér er því ”kjallaragrein” fréttastjórans verulegt áfall og finnst raunar óskiljanlegt af hverju tiltölulega reyndur blaðamaður getur ”ekki stillt sig” og haldið eigin fordómum til hlés - - eða það sem hefði átt að bjarga faglegum heiðri blaðamannsins sjálfs að ”skrifa harða fréttaskýringu” þar sem sjónarmið hefðu verið lögð á vogarskálar - - með og á móti – af hófsemd og hlutlægri yfirvegun.     

Eftir hrun er okkur sannarlega meiri vandi á höndum en áður – vitandi um skaðsemi þeirrar hlutdrægu þrætubókar sem fjölmiðlun liðinna ára er sannarlega búin að vera undirlögð af.   Fjölmiðlun þar sem aðilar ganga erinda sérhagsmuna og flokka – og þar sem eigendur og áhrifamenn möndla fréttir og sigta umfjöllunarefnin með eigin glámskyggnum gleraugum.    Slík fjölmiðlun varð ótvírætt einn hluti af þeim ”hjarð-kúltúr” og meðvirkni þar sem allir spunnu hver eftir öðrum og hugðust verða velmegunarfarþegar á hinni lánadrifnu hagvaxtarbólu. 

Vonbrigði mín . . .  

 

Sjálfsagt er ég að gera fréttastjóra DV alltof hátt undir höfði – eða kannski er ég að bregðast við miklu víðtækari vonbrigðum mínum sem hafa lítið með þennan blaðamann að gera.     Það eru líka miklu fleiri blaðamenn á DV og víðar sem hafa enn og um langa tíð sýnt og sannað að þeir hafa tilhneygingu til að lita ”frétta-skrif” sín tiltekinni óvild eða velvild í garð einstaklinga, samtaka og sjónarmiða.   

Skoðanaskrif - - leiðarar og stefnuyfirlýsingar -  þar sem blaðamenn koma fram undir nafni - - leyfa ábyrgðarmönnum skrifanna að taka sterklega til orða á sínum forsendum.   Slík afstöðu-tjáning eða stefna – ætti alltaf að vera vandlega aðskilin frá fréttum og fréttaskýringum.    

Þykir mér því að fréttastjóri DV hefði átt að stilla sig um þann róg sem að Hagsmunasamtökum Heimilanna er dreginn í kjallaragrein hans og sérstaklega þykir mér að illvígur andróður hans gegn persónu og borgarlegu svigrúmi Marínós G Njálssonar til þáttöku í samfélagsmálum, sé ódrengilegur og beinlínis fráleitur á allra handa máta.