Vek www.bensi.is og reyni að sinna skrifum

 

Af UMSÁTRI Styrmis Gunnarssonar.

myndStyrmir Gunnarsson

Hef lesið bók Styrmis fram og aftur - síðustu dagana.    Ekki get ég sagt að mér hafi verið skemmt - öðru nær.    Sérkennilega hlutdrægur maðurinn - - - - og meir en mér datt í hug þó sitthvað hafi ég um hann vitað frá fyrri tíðum.

 

Tilgangur bókarinnar virðist ótvírætt vera að freista þess að ”endurskipuleggja” sannleikann.   Skrifa efni hagstætt “innmúruðum” og klæma höggum og dylgjum á andstæðinga.    Eftirtektarverðar eru dylgjur og aðdróttanir Styrmis í garð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og stundum langt seilst.   Hann nefnir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sem sat frá maí 2007 til febrúar 2009, gjarna ríkisstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.  Almennt er hann ekki vanur að kenna ríkisstjórnir við aðra en forsætisráðherra eða flokka stjórnarinnar.    

Með því undirstrikar Styrmir nærveru Ingibjargar.   Hann lætur einnig nánast í veðri vaka að Ingibjörg hafi meira og minna verið á vettvangi hrunsins - á meðan hún var fyrst í svæfingu og aðgerð í USA og síðan veik og fjarverandi lengri tímana allt þar til í febrúar að allir sáu að það var fárveik manneskja sem samt gat lokað stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokk Geirs - með pólitískt mannborlegum hætti - og myndað nýja ríkisstjórn sem hún setti í hendur Jóhönnu Sigurðardóttur.

Frásagnarlegur “umskiptingur” - eða “pólitískur geðklofi”

Það er eins og bókin sé skrifuð af amk. tveimur mönnum - og að lýðræðis-Styrmir sé reyndar með köflum sjálfur þriðji maðurinn.   

Lengi vel hefur maður skýra tilfinningu fyrir því að Davíð Oddson hefur orðið; - næstum í fyrstu persónu og vitnað er í tveggja manna tal og símtöl sem ekki eru “dokúmenteruð” á öðrum stöðum.    Taumur Davíðs er svo sterklega dreginn að dómgreind höfundarins hallast verulega.  Dugar þá ekki að Styrmir láti í veðri vaka að “hann hafi ekki alltaf látið Davíð segja sér fyrir” og vísar beint til þess að Morgunblaðið hafi haft sjálfstæða stefnu t.d. að því er (gjafa-)kvótakerfið varðar.

Styrmir gerir undarlega lítið úr því hvaða samskipti Geir Haarde forsætisráðherra og Árni Matthiessen fjármálaráðherra áttu við Gordon Brown og Alasdair Darling - - frá því í mars apríl 2008 þegar fyrir lá undurbúnigsvinna frægrar skýrslu Sibert og Buiters innan Landsbankans - og með heimsókn Geirs til Gordons Brown í Downingstræti.   Sérkennileg er þannig sú kenning Styrmis að illur hugur og undirferli Gordons og Alasdairs hafi leitt til þess að “allir sameinuðust gegn litla Íslandi” . . . þegar sú vitneskja var ekki falin fyrir þjóðinni að Geir og Árni  voru í margendurteknum samskiptum við ráðherra Bresku ríkisstjórnarinnar - - og á lokadögunum fyrir “allsherjarlokunina” - með hyrðjuverkalögunum - í símasambandi dag eftir dag:    Þar sem bresku ráðherrarnir virðast hafa átt frumkvæðið - - - að því að þrýsta á um aðgerðir ríkisstjórnar Íslands og bjóða upp á samstarf og krefjast þess um leið að leitað yrði til AGS - - jafnvel ráðlagt að leita á náðir Seðlabanka Evrópu.

Leyfi mér því að minna alveg sérstaklega á eitt:

Á vef íslenska forsætisráðuneytisins er eftirfarandi að finna: http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/2920 

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, átti í dag fund í Lundúnum með Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands. Á fundinum var fjallað um ástand og horfur í alþjóðlegum efnahags- og fjármálum og áhrif breyttra aðstæðna á fjámálamarkaði á Íslandi og í Bretlandi. Þá var ákeðið að ljúka gerð viljayfirlýsingar Íslands og Bretlands um öryggismálasamstarf á friðartímum sem feli í sér reglulegt samráð og samræmingu auk þess sem lýst var áhuga breskra stjórnvalda á þáttöku í loftrýmiseftirliti yfir Íslandi. Forsætisráðherrarnir ræddu einnig Evrópumál, loftlags- og orkumál, hvalveiðar og framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Loks fóru þeir yfir gang viðræðna um skiptingu Hatton-Rockall svæðisins.

 

Reykjavík 24. apríl 2008 

Frá þessum fundi var einnig sagt í fréttatilkynningu á vef breska forsætisráðuneytisins sama dag.  Frásögnin gekk út á það að tilgreina að ráðherrar landanna hefðu rætt um mikilvægi þess að Ísland leitaði til Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins til að sortera fjármálavandann og ofvöxt bankanna og jafnframt lýsti Brown stuðningi við væntanlega aðildarumsókn Íslands að ESB.

Margir virðast nú hafa gleymt því að Náhirðin í Sjálfstæðisflokknum gekk af göflunum og Geir beitti öllum ráðum til að fá frétt Downingstrætis breytt.   Niðurstaðan varð sú að fjölmiðlafulltrúi Breska forsætisráðherrans tók fréttina út . . . .  og setti algerlega innihaldslaus  staðestingu á að íslenski forsætisráðherrann hefði komið við í “Number 10″ .

Hvers vegna Geir hringdi svo ekki  til Gordons Brown þegar hryðjuverkalögin voru komin á  - er enn sérkennilegra efni - eftir öll samskiptin sem á undan voru gengin . . . og hljóðritin hafa glatast af . . .

Lærdómar Styrmis af óútkominni skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis - um að ráðherrar og þá ekki síst Ingibjörg Sólrún kunni að verða dregin fyrir Landsdóm - eru afar sérkennilegir.   Svo sérkennilegir að Páll Hreinsson formaður nefndarinnar hefur talið ástæðu til að árétta að slíkar tillögum um að kalla ráðherra fyrir Landsdóm séu beinlínis ekki á verkefnasviði nefndarinnar samkvæmt þeim lögum sem nefndin starfar eftir.

Enn skrítnara og óskiljanlegra finnst mér að Styrmir skuli setja sig í gír stjórnkerfislegs umbótasinna - - með yfirlýsingum sínum um að “valdið skuli til fólksins” og að “beint lýðræði” sé svarið.   Ekki það að ég sjái ekki að þannig sé Styrmir sjálfum sér samkvæmur - heldur vegna þess sem hann sjálfur sýslaði og starfaði sem klíkubróðir og innmúraður leyndarhyggjumaður í Sjálfstæðisflokknum.  Þannig starfaði hann fyrir það mesta - og þannig skrifaði Morgunblaðið í þágu flokkshagsmunanna eins og hann og þeir félags skilgreindu þá.    

Einnig þykir mér að Styrmir verði ekki marktækur sjálfur í þessum tilburðum sínum til að ganga í lið með “Búsáhaldabyltingu liðins vetrar” - eftir það hvernig hann lepur upp eftir Davíð Oddssyni og dregur taum hans og hinna innvígðu allan fyrrihluta bókarinnar.

Hvort honum hefur tekist með þessarri bók að “endurskipuleggja sannleikann” - um óhófið, yfirganginn og hrunið . . .  verður tíminn að leiða í ljós.    Mér sýnist samt algerlega ljóst að “Umsátur Styrmis” og hinna handgengnu í kjarna Davíðs - heldur áfram.

Þeir eru tilbúnir að berjast fyrir því að “Öðrum verði kennt um” allt sem aflaga fór - - og ekki síst Samfylkingu Ingibjargar Sólrúnar  (og Ingibjörgu sjálfri sem rændi Borginni af Davíðs-arfanum) og þeir ætla sér að berjast fyrir því að þeirra menn haldi lykilstöðu á Eftir-hrunstímanum.

 Mér þykir með ólíkindum hversu langt Styrmir gengur í því að halda því fram að "umsátrið" hafi stafað af einhverjum ofbeldishneigðum og illvilja Breta og Hollendinga - - en ekki sjá að frammistaða einkavinavæddu bankanna og vanburðugt fjármálaeftirlit og ruglaður Seðlabankastjóri og forsæti Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn - hafði saman stýrt Íslandi út af því samskiptakerfi sem gerði pólitískt og efnahagslega fært að draga okkur að landi.   

Enginn lykilaðilanna í stjórnmálum eða fjármálalífinu sýndi nokkra tilburði til að aðhafast það sem dygði til að forða áföllum og hini óhjákvæmilega.

Skrítið líka að Styrmir og heimildarmenn hans skuli ekki hafa lagt neina merkingu í innkomu Lord Adair Turner í formennsku fyrir FSA í September 2008.