Vegna Úkraínu: Bensi reynir að endurmeta afstöðu sína

Stríð í Úkraínu
Stríð í Úkraínu

Frá ungum aldri var ég ekki í vafa um að hernaður og stríðsrekstur væri á allra handa máta slæmur – fyrir alla – bæði þá sem  slíkt stunda og þó einkum þá sem fyrir verða.    Hafði allan vara á gagnvart NATO og ekki í vafa um að ranglega hefði verið að staðið þegar Alþingi tróð þeirri samþykkt í gegn og sigaði illa siðuðum rustastrákum til árásar á þann almenning sem safnast hafði saman til réttmætra mótmæla á Austurvelli 30.mars 1949.    Virkileg andvígur hernaðarbrölti og yfirgangi Bandaríkjanna og hjálparkokka þeirra um S-Ameríku og Asíu á árabilinu milli 1960 og 70 og tók virkan þátt í andófinu gegn Víetnamstríðinu.   Á sama tíma furðulostinn yfir heimskulegum fasistatilburðum Brésnevs Sovétríkjanna og innrás þeirra í Tékkaslóvakíu og íhlutun í Póllandi.

 Bandaríkin hrökkluðust burtu úr Víetnam -  eftir að hafa sprengt landið aftur á steinaldarstig -  eyðilegt gróðurlendi með óransinum og spillt 60% akurlendis varanlega.   Þeir létu þó ekki staðarnumið við ósigurinn heldur stóðu fyrir svívirðilegum viðskiptaþvingunum og útilokun Víetnama frá alþjóðasamfélaginu í 20 ár í viðbót -  og komust upp með það að neyða upp á örbjarga ríkið einkavæðingu og niðurbrot velferðar sem skilyrði fyrir fjármögnun Alþjóðabankans og aðgangi að viðskiptum.

Kaldastríðið geysaði -  með njósnastarfsemi í blóma -  og hernaðaríhlutnun og gagnkvæmum ógnunum hingað og þangað um heiminn - - og helvítis kjarnavopnakapphlaupið gerði okkur flest bókstaflega skíthrædd.

Þrátt fyrir allt var gamla Sovétið um marg fyrirsjáanlegt – og í ljós kom að það var hægt að semja um hitt og þetta -  jafnvel takmörkun á vígbúnaði og niðurskölun á vopnadreifingu og þeir samningar héldu fyrir það mesta.

Seinna hrundi Sovétið eftir pólitískt og menningarlegt dauðastríð og efnahagslegar hörmungar – og Berlínarmúrinn varð að mylsnu.    Rússland Yeltsíns var svo ólánsamt að taka nær eingöngu inn ráðgjöf frá öfgasinnuðum hagfræðingum og viðskiptabullum frá Ameríku -  en úthýstu nánast allri umræðu um stjórnarskrár-grundvöll réttarríkis og uppbyggingu velferðar og siðmenntaðs lýðræðis í þágu almennings.

Eistland, Lettland og Litháen fengu skyndihjálp ma. frá Íslandi -  og byggðu að nokkru leyti upp samfélagsgrunn – þótt hagfræðiöfgarnar frá USA hafi sannarlega spillt fyrir því að þar yrðu til forsendur fyrir jafnaðarsamfélögum í þeim anda sem Norðurlöndin voru meira og minna tilbúin að stuðla að.

ESB og NATO opnuðu fyrir Eystrasaltsríkjunum, Póllandi, Tékklandi og Ungverjalandi -  seinna Slóvakíu, Cróatíu, Slóveníu, Búlgaríu og Rúmeníu.    
Því miður náði Úkraína ekki inn í þeirri törn og Moldóva og Georgía bíða úti . . . Skelfingar síðustu vikna kynnu vissulega að breyta þessu.

 

Já;  -  svo kom Pútín.   Þá voru menn farnir að halda að Rússland mundi haga sér eins og hvert annað lýðræðisríki sem virti viðskipti og þar með hagsmuni kapítalistanna og almenningur mundi njóta.    Fljótt kom í ljós að fáránleg einkavæðing almenningseigna í Rússlandi hafði skilað örfámennum hópi gríðarlegum eignum.   Meira og minna voru þessir nýju kapítalistar skriðnir fram úr spillingarkimum og áttu sín tengsl við nómenklatúru hins fallna ríkis og gamla KGB og aðra gengjahópa sem náð höfðu tengslum við álíka óþjóðalýð frá hinum kapítalíska heimshluta.

 

Já; og Pútín kunni gömlu taktana frá sínum uppeldistíma í KGB og á glæpabraut með spilltum borgarstjóra í Pétursborg.    Hvernig hann síðan skilaði sér beina leið frá ofurspilltum og föllnum borgarstjóra í Pétursborg og inn á skrifstofu forsetans áfengisdrukkna – og náði að setjast beint í stól Yeltsíns þegar sá gamli hlunkaðist í gólfið - er ennþá ekki að fullu útskýrt fyrir okkur í Vestrinu.

Pútín er alls ólíkur gamla Sovétinu að því leyti að hann  er ekki fyrirsjáanlegur  -  hann tekur ekki ákvarðanir í nútímanum – eftir meira en 20 ára valdaferil -  þannig að hann byggi á greiningum og vinnslu gagna með öflugum kollegum eða fagmönnum sem hafa forsendur og bakfisk til sjálfstæðra og rökrænna niðurstaðna.  (Líklega tók gamla Sovétið heldur ekki ákvarðanir í samtíma nema að takmörkuðu leyti en eftir Stalín var líklega ekki bókstaflega um að ræða einræðisstjórn undir Ráðstjórninni -  og „Kremlarfræðin“ mátti læra til einhvers skilnings.)  Einræðisherrann Pútín hefur smátt og smátt einangrað sig  -  með þeim sem segja honum það sem þeir halda að hann vilji heyra -  um leið og hann hefur byggt upp heimsmynd sem er þróuð og hönnuð af honum sjálfum og einhverjum afar vafasömum „heim-spekingum“ sem búið hafa til fantasíu þar sem ríki Pútíns er einhvers konar sjálfvirkt og óhjákvæmilegt framhald af því stórveldi sem Rússakeisarar réðu fyrir á velmektartímum og því veldi sem Sovét Stalíns færði Krútsjeff og Brésnev -  en í kokkabók Pútíns var fellt af „bjánum eins og Gorbasjev“ sem var svo ólánsamur að fara að leika sér með Reagan og baða sig í fjölmiðlaljósum Vesturlanda.

Já;  nú sit ég hér og fordæmi illvirki Pútíns og allsherjar afnám lýðræðis og fjölmiðlafrelsis í Rússlandi um leið og ég græt með íbúum Úkraínu sem verða fyrir árásarstríði hins brjálaða einvalds og leppa hans.

Um leið og ég græt yfir örlögum alsaklausra barna og fjölskyldna -  foreldra og systkina og afa og amma í Úkraínu þá reitir það mig til reiði að lesa ótrúlega ruglaða réttlætingu á árásarstríði Pútíns með því að það sé nú allt saman vegna þess að ESB og NATÓ hafi veitt nágrannaríkjum Rússlands aðgang -  þeim ríkjum sem sættu hernámi gamla Sovétsins og gegndu hlutverki leppríkja án sjálfstæðrar heimsmyndar eða lýðræðis næstum 50 ár.

Það er ekki einu sinni hlægilegt að verða vitni að því að gamal-kommúnistar með arfgengar pólitískar tengingar við Sovétarfinn – skuli nú skríða fram með fordæmingar á lýðræðisþróun Eystrasaltsríkjanna og kenna við einhvers konar illgjarna „heimsvaldastefnu USA“ – þegar þeir samúða sig alla leið með Pútín og stórveldisórum hans.  Rugluðum órum sem telja einræðisdólgnum trú um að honum beri einhvers konar réttur til að ríkja yfir þjóðum og lendum sem nema um það bil þeim ystu mörkum í ríki Rússakeisar og Sovétstjórnarinnar.   Þetta sama fólk gerir ekkert með lýðræðislegar ákvarðanir kjósenda í fyrrum leppríkjum Sovétsins -  heldur vísar það til furðulegrar stórveldadýrkunar þar sem Stalín og Vesturveldin skiptu megninu af jarðkringlunni á milli sín og sinna yfirráða – án þess að virða í nokkru sjálfsákvörðun ríkja, þjóða eða þjóðarbrota með lýðræðislegum leikreglum.

Það er virkilega sorglegt að verða vitni að því að þessar pólitísku eftirlegukindur sem nú skreyta sig með merkjum friðarhreyfinga 20.aldarinnar  - skuli koma fram á Útvarpi Sögu og annars staðar þar sem falsfréttagengi Trumpismans ræður ríkjum og saman blandast órar og rugl „samsæriskenningasmiða“ og nazista öfgahægrisins í öllum löndum.    Þetta lið þyrlar upp vaðli og vitleysu meira en gott er  og sjáið nú það síðasta;   - þessi hópur virðist sérstaklega styðja það allsherjar fjölmiðlabann og ritskoðun sem Pútín hefur nú lagt á Rússland og úthýst um leið erlendum fréttaveitum frá landinu.

Nei krakkar þetta er miklu, miklu verra en brjálað.

Ég leyfi mér að rifja það upp eftirfarandi;

  • það voru ekki friðarhreyfingar fjórða og fimmta áratugar tuttugustu aldarinnar sem stöðvuðu heimsstríð Hitlers og þjóðarmorð á gyðingum og fleiri þjóðernis og félagshópum
  • það voru ekki friðarhreyfingar Vesturlanda sem reyndu að stilla til friðar í Balkanstríðunum 1990-2000

Mín spá er að það verði heldur ekki „sjálfsupphafnar friðarhreyfingar og fundahöld á Vesturlöndum“ sem stöðva Pútín.   Ef það tekst á annað borð að koma í veg fyrir frekari árásarstríð Pútíns og mögulega beitingu kjarnavopna eða kjarnorkuslysa – þá verður það einungis gert með víðtækri samstöðu lýðræðisríkja um efnahagsþvinganir, útilokun á Rússlandi Pútíns og því miður  -  með beinni og óbeinni hernaðaríhlutun í Úkraínu og annars staðar þar sem einræðisdólgurinn Pútín og samstarfsliðar hans ráðast gegn lýðræðiþróun og fjölmiðlafrelsi í heiminum.

Því miður;    brjálaðir einræðisdólgar verða ekki stöðvaðir með samningum eða góðum vilja vopnlausra Vesturlandabúa.