Vaðlaheiðargöng - hefjumst handa strax

Frá því byrjað var að ræða um Vaðlaheiðargöng fyrir alvöru á árinu 2003 hefur framkvæmdin mætt undarlegu tómlæti hjá yfirvöldum samgöngumála.  Þannig hefur frumkvæði að undirbúningsathugunum allt komið frá heimamönnum og KEA fjármagnaði nær allar rannsóknir sem fram fóru fyrstu 2 árin.  Ennþá hafa sitjandi þingmenn NA-kjördæmis kosið aðgerðaleysi fyrir þessa framkvæmd og sumir hafa beinlínis lagst gegn því að framkvæmdin væri sett á forgangslista.  Alþingi hefur ekki fjallað um Vaðlaheiðargöng sem hluta af Jarðgangaáætlun eða samgönguáætlun.  Samgönguráðherra hefur ekki talið framkvæmdina brýna. 

Við sem höfum kappkostað að koma framkvæmdinni áleiðis - af því við teljum hana afar mikilvæga - hljótum að krefjast þess að Alþingismenn leggi nú lið og taki málið upp á þessu þingi.  Framkvæmdin verður að komast af stað - sem formlegur hluti af vegakerfi landsins.   Verði verkið unnið í einkaframkvæmd á það ekki að þurfa að trufla önnur verkefni ríkisvaldsins með beinum hætti og það væri aldeilis fráleit hugmynd að halda því fram að það sé sérstök þörf að tefja framkvæmdina vegna þess að hér við Eyjafjörðinn sé þensla í efnahagskerfinu. 

Þeir sem svöruðu spurningu á heimasíðu minni (198) voru flestir áhugasamir um Vaðlaheiðargöng - og að verkið ætti að fara hratt af stað.  Hins vegar er á það að líta að 19% töldu framkvæmdina ekki brýna.  Hugsanlega skortir enn nokkuð á kynningu á verkinu  - og hugsanlega erum við að sjá vísbendingu um að þeir sem ekki búa hér á nærsvæðinu álíti að framkvæmdin sé alls ekki brýn eða raunhæf.   Þarna þurfum við einfaldlega að taka á með verkefninu og vinna því aukið samþykki.  Til þess þurfa stjórnendur Greiðrar leiðar - félagsins sem stofnað var til að koma verkefninu í höfn - einfaldlega að taka betur á og kynna málið með góðum gögnum og röksemdum.