Tryggvi í Svartárkoti kvaddur

Tryggvi í Svartárkoti
Tryggvi í Svartárkoti

 

Útvörður Ódáðahrauns er fallinn.  Tryggvi í Svartárkoti laut í lægra haldi fyrir sjúkdómum sínum.   Hann var maðurinn sem draumar æsku minnar miðuðust við.  Þessi stóri hrausti maður sem ekkert óttaðist, var alltaf til taks þegar þurfti að sækja fé og sinna ferðum inn á hálendið.   Ég trúði því að hann hræddist  ekkert enda gekk hann  jafnan æðrulaus til móts við veður og ófærð og rétti nágrönnum sínum og frændum hönd til þeirra starfa sem vinna varð.

  

Hann bjó alla sína ævi í Svartárkoti og átti stefnumót við öræfavættir og byggðarmenn jafnt.   Í uppvexti mínum á Grænavatni var einna styst leið til Svartárkots enda þar að finna fólk sem áhugavert var að eiga samneyti við. Gangnamenn á Framafrétt Mývetninga gistu í Svartárkoti á þessum árum og  Tryggvi vann auk þess á sláturhúsi KÞ  á Húsavík mörg haust.   Hann var fremstur í hópi þeirra hraustmenna sem unnu sér létt og áttu augnablik aflögu fyrir drengi sem stóreygir fylgdu haustlömbum til slátrunar.    

Margsinnis var hann til taks heima, t.d að vinna með Sveini á Grænavatni og til að sinna viðvikum og fjárleitum og grenjavinnslu fyrir Mývetninga, sem endurtekið gaf færi á samskiptum.    

Seinna vissi ég að Tryggvi var skemmtimaður sem dró fram harmóniku eða gítar til að efla söng í glöðum hópi.   Gjarna hefði ég viljað eiga meira samneyti við hann og hans fólk sem fullorðinn maður.  Héðan af verður því ekki komið á.   Samt sem áður er ”lítill drengur” þakklátur fyrir að kynnast þessarri hetju öræfanna og eiga draum um að geta kannski einhvern tíma miðað sig við hann. 

Ég sendi Elínu og börnum Tryggva og ástvinum öllum mínar innilegustu samúðakveðjur við of snemmt fráfall hetju og heiðursmanns.