Þjóðhátíðarkveðja frá BS


Kæru vinir  - um heim allan.

Í dag fögnum við þjóðhátíðardegi - hvert með okkar móti og saman.
Margir sameinast í gleði og aðdáun á landsliði Lars Lagerback í knattspyrnu karla og lyfta glösum á Franskri grund. Margir fleiri íþróttaviðburðir eru í nálægð til að gleðjast yfir. Knattspyrna kvenna stefnir á úrslitkeppni - sundfólk keppir til úrslita og nær á verðlaunapall, frjálsíþróttafólk teygir sig í átt að Ólympíuleikum og ungir frjálsíþróttamenn eru spennandi fyrirmyndir. Í tónlistinni, kvikmyndum og bókmenntum blóðmstrar fjöldinn allur af Íslendingum og nær eyrum og augum heimsbyggðanna og skilar þangað upplífgandi, ögrandi og áhugaverðum anda.

Náttúra Íslands og menning kallar á fjölda heimsóknargesta - og jákvæða athygli heimsins - drífur efnahagslífið upp úr lægðinni með ferðamannasprengingu.

Allt þetta eigum við sameiginlegt - sem skapar gleði og metnað - verður hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar og þeirra sem vilja eiga hér heima og leggja að mörkum.

Á hinu leytinu dregst athygli okkar að fráleitri og hörmulegri frammistöðu stjórnmálamanna og viðskiptalífsins - þar sem óheilindi, spilling og viðskiptaglæpir afhjúpa siðleysi fjölda framlínumanna. Getuleysi stjórnmálamanna, eftirlitskerfis og jafnvel lögreglu og dómstóla - til að rétta kúrsinn og kalla fólk til ábyrgðar með því að víkja til hliðar - er sorgarefni líka á þjóðhátíðardaginn. Úthlutun almannagæða til fámennrar klíku - sem margir breyttust skjótlega í siðferðilega vankaða auðmenn - bæði úthlutn gjafakvóta í sjávarútvegi og einkavæðing banka og stórfyrirtækja - og svo ömurlegt getuleysi stjórnmálamanna í ríkisstjórn og sveitarstjórnum til að byggja upp og skipuleggja móttöku ferðamanna í ábyrgri umgjörð þar sem gjald er tekið af þeim sem fénýta auðlindirnar og þar sem stýring og metnaður varðveita og vernda auðlindina til framtíðar. Fjármálakerfið var endurreist í yfirstærð og hagar sér eins og skrímsli - lífeyrissjóðirnir hafa vaxið efnahagskerfi og lýðræði langt yfir höfuð - og verðtrygging og vaxtaokur, fákeppni og einokun arðræðna allar venjulegar fjölskyldur í landinu - þannig að húsnæðiskostnaður almennnings er að sliga fjölda fólks og búið er að leggja upp drög að ennþá meira íþyngjandi okurkerfi á námslán frá LÍN. Ungt fólk sem kemur úr námi og á möguleika á störfum og lífsafkomu í öðrum löndum hlytur því að leita annað - en á meðan flytja græðgisberserkir inn varnarlaust fólk - með mansalsaðferðum - og halda í beinum og óbeinum þræædómi og vistarböndum - og yfirvöld og framlínan í atvinnulífinu hafast varla að.

 

Forsetakosningar eru framundan; og stutt í Alþingiskosningar.

Sama hvað okkur kann að finnast um einstaklinga og sama hvað við erum eða höfum verið mikið tengd við hagsmunakerfi stjórmála og viðskiptalíf eða stéttarfélög - þá hljótum við meira og minna að geta orðið sammála um að við þurfum að byggja á því sem við höfum gert vel og því sem við getum áfram gert vel - og yfirfæra slík viðhorf yfir á þau svið stjórnmála og athafnalífsins í fjármálum og viðskiptum þar sem við höfum staðið okkur hörmulega.

Þess vegna þurfum við að skipta út rotnu og spilltu hugarfari úr framlínum - við þurfum að aftengja hagsmunaklíkur gömlu stjórnmálaflokkanna og viðskiptalífsins - við þurfum að kjósa nýtt fólk og ný samtök til að bera fram hagsmuni heildarinnar.
Við þurfum að neytendavæða viðskiptalífið og endurvekja blandað hagkerfi þar sem græðginni verða sett takmörk á grundvelli heiðaregra viðskipta og markaðsaðhald og eftirlit virkjað.

Við þurfum að lýðræðisvæða stjórnmálin þannig að Alþingi hafi aga frá kjósendum - með því að stjórnarskrá tryggi 10% kjósenda rétt til að kalla mál frá Alþingi til þjóðaratkvæðis - og einnig þarf að vera tryggt að 30% þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðis - um leið og við virkjum frumkvæðisheimildir almennings og samtaka þeirra til að leggja mál fyrir Alþingi.
Við verðum einnig að virkja afl neytenda alveg sérstaklega gagnvart fjármálakerfinu - með því að skapa heilbrigðan lagaramma um samfélagsbankastarfsemi og um leið tryggja að hölur séu settar á samkrull viðskiptabanka og áhættubrask fjárfestingarbanka - - um leið og við stöðvum háskann sem stafar og lífeyrissjóðunum sem svelgja nú til sín allt að 10% af lansframleiðslunni á ári á meðan vöxtur landsframleiðslu er kannski 2-4%.

Húsnæðiskerfi landsmanna kemst ekki í viðunandi ástand fyrr en fjármálakerfinu verður settur nýr rammi og nær því sem tíðkast í nágrannalöndum V-Evrópu (fyrir utan Bretland og Noreg).

Endurreisn heilbrigðiskerfis og menntakerfis og er afar brýn - en slík endurreisn verður ekki möguleg nema á grundvelli réttlátrar skattheimtu - þar sem aflandsviðskiptumog fákeppnissvindli verða settar skorður og fullt afgjald tekið af þeim sem fénýta auðlindir lands og sjávar.

 

Góðu vinir og lesendur. Þetta er kveðja og jafnframt áskorun til allra um að láta næstu vikur og mánuði og missiri framundan verða tímabil jákvæðrar uppbyggingar og heiðarlegrar orðræðu.

 

Hættum meðvirkni og stemmum stigu við hatri og illvilja - setum okkur það markmið og frekjunni, ranglætinu og yfirgangi sérhagsmuna verði þokað til hliðar en í staðinn færum við framsýni, réttlæti, metnað og góðvilja í forgrunn stjórnmála og atvinnulífs.

 

Þetta getum við einungis gert í gegn um forsetakosningar og þær alþingiskosningar sem eru framunda - og það gerist ekki nema við endurnýjum stjórnarskrá á grundvelli fyrirliggjandi tillagna frá Stjórnlagaráði - þar sem lýðræðisvæðing og sjálfbærni er grundvallaratriði.

Áfram Ísland