Stórhríð í mars

Svo slotar hríðinni.   Það liggur krap meðfram fjöruborðinu og sullgarðurinn staðfestir að áhlaupið var grimmt.

Hávellurnar eru órólegar þótt veðrið sé gengið niður. Þær synda í flokkum og stinga sér ótt og títt.

Þessar hávellur hafa sýnilega hrakist undan veðrinu og kunna ekki almennilega við sig; - það er ekki kominn sá tími að vorlognið slétti hafflötinn.

Hann stöðvar bílinn og leggur úti í snjóruðningi – gengur svo alveg niður í fjöruna.   Það er greinilega að kólna í veðri – og napurt þrátt fyrir að það sé næstum orðið alveg kyrrt veður.    Það er að létta til - næstum alveg sólarbjart – skýin eru grá og þynnast.

Hann opnar myndavélina á símanum og reynir að fanga þessa vorfugla sálarinnar á skjáinn.   Það tekst ekki almennilega svo hann snýr sér við og myndar snjóinn, ruðninga og skafla.    Að því loknu  stingur hann símanum í vasann -  með þessum menjum vetrarhörkunnar  – og gengur að bílnum.

Hvenær ætli hávellurnar komi til með að synda rólegar á Pollinum þetta árið?  – í morgunlogni -  þá veit maður að minnsta kosti að það mun koma vor.  

Þegar síðvetrarkyrra  og spegilsléttur  sjórinn lyftir undir stélin á hávellusteggjunum og söngurinn hljómar; a, a – álla; þá ætlar hann sannarlega að setjast við fjöruborðið og leggja við hlustirnar.   

Og kannski fer hann þá líka í gúmmískóna og gyrðir sokkana utanyfir buxnaskálmarnar? Alla vega yngist hann um mörg ár - og þó það endist ekki nema smástund - þá verður það sannarlega þess virði. Og kannski fer hann þá líka í gúmmískóna og gyrðir sokkana utanyfir buxnaskálmarnar? Alla vega yngist hann um mörg ár - og þó það endist ekki nema smástund - þá verður það sannarlega þess virði.