Stofnum samvinnu-hlutafélag um Pennann

Leyfi mér að gera tillögu um það hvernig við leggjum drög að samvinnufélagi til að kaupa Pennann -

opið félag fyrir allar fjölskyldur sem geta séð af þrjúþúsund krónum til allt að þremur milljónum.

SAMÞYKKTIR FYRIR SAMVINNUHLUTAFÉLAGIÐ PENNAR SVF.

I. KAFLI

NAFN, HEIMILI OG TILGANGUR FÉLAGSINS

1. grein

Félagið heitir PENNAR SVF og starfar í samræmi við lög um samvinnufélög nr. 22/1991 og lög um hlutafélög nr. 2/1995 - með áorðnum breytingum. Félagið notar heitið Pennar eða Pennar svf. jöfnum höndum. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæði og starfssvæði Penna svf er um allt Ísland.

2. grein

Tilgangur félagsins er að vinna að hagsmunum félagsmanna með því að eiga og reka sérvöruverslanir með bækur og ritföng og margvíslega skylda vöru og/eða semja um viðskiptakjör fyrir hönd félagsmanna sinna.

Félagið skal gefa út rafrænt félagskort sem skráir alla viðskiptaveltu félagsmanna - og fjölskyldu þeirra eftir atvikum - við rekstrareiningar félagsins, við dótturfélög og við samningsbundna samstarfsaðila - í þeim tilgangi að veita félagsmönnum beina hlutdeild í arði af viðskiptum félagsins. Aðalfundur ákveður ár hvert hver skuli vera sanngjörn hlutdeild félagsmanna í rekstrarafgangi og/eða eignamyndun liðins árs.

3. grein

Félaginu er fyrst og fremst ætlað að vera einsleitt félag neytenda og hefur því með höndum rekstur í eigin nafni. Félaginu er heimilt að stofna/kaupa og reka dótturfélög sem ýmist eru að fullu í eigu Penna svf eða í sameign með öðrum aðilum ef slíkt getur þjónað markmiðum 2. greinar að mati stjórnar.

II. KAFLI

ÁBYRGÐ FÉLAGSMANNA OG AÐILD

4. grein

Allir lögráða einstaklingar geta orðið fullgildir félagsmenn í Pennum svf. Einstaklingar undir lögræðisaldri geta einnig orðið félagsmenn með ábyrgð forráðenda sinna og þeim takmörkunum varðandi trúnaðarstörf sem lög ákvarða.   

Til að gerast félagsmaður í Pennum svf greiðir hver einstaklingur stofnhlutafé að lágmarki kr. 3.000 en að hámarki kr. 3.000.000 til félagsins og varðveitist sú fjárhæð í stofnsjóði.

Eftir sem áður gildir sú regla að hver félagsmaður fer einungis með eitt atkvæði á almennum fundum félagsins og við stjórnarkjör þrátt fyrir mögulega mismunandi stofnfjárhlut og mismunandi viðskipti við félagið.   Við atkvæðagreiðslur á aðalfundi sem snerta ráðstöfun rekstrarafgangs og arðgreiðslur félagsins geta stofnfjáreigendur ráðstafað 3 aukaatkvæðum fyrir hverja 1000.000 króna samvinnuhlutareign umfram kr.3.000.    Skulu eigendur samvinnuhluta að verðgildi umfram kr.336.000 skulu tilkynna það félaginu amk. degi fyrir aðalfund óski þeir að ráðstafa aukaatkvæðum í samræmi við þessa grein við atkvæðagreiðslu á aðalfundi.   Skal þá liggja fyrir á fundarstað auðkennandi tákn eða skilti til að tryggja rétta talningu atkvæða fundinum.

5. grein

Félagsmenn bera ekki ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins umfram greiðslu stofnhlutafjár eða lágmarksaðildargjalds og með eignaraðild að sjóðum félagsins.

Félagaskrá skal varðveitt á skrifstofu félagsins. Nöfnum og heimilisföngum nýrra félaga skal bætt á hana um leið og þeir gerast félagar og skal hún uppfærð reglulega með samanburði við þjóðskrá.

Um vörslu félagaskrár skal farið að gildandi lögum og almennum reglum um persónuvernd.

6. grein

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg. Getur þá viðkomandi einstaklingur sem segir sig úr félaginu sótt um að greidd verði út stofnsjóðseign hans samkvæmt samþykktum þessum og í samræmi við ákvæði gildandi laga – að viðbættum vöxtum og viðskiptaarði -  eða stofnsjóðshlutfall ef eiginfjárstaða félagsins er lægri en sem nemur bókfærðu nafnvirði í stofnsjóði.

7. grein

Falli félagsmaður frá eða gangi félagsmaður úr félaginu á hann ekkert tilkall til annarra eigna félagsins en þeirra sem skráðar eru á nafn hans og varðveitast í stofnsjóði.

III.KAFLI

SKIPULAG FÉLAGSSTJÓRNAR OG FRAMKVÆMDASTJÓRN

8. grein

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins og tekur þær ákvarðanir um starfsemi félagsins, sem þörf er á.

Stjórn boðar til aðalfundar með að minnsta kosti viku fyrirvara, að jafnaði eigi síðar en 30. apríl ár hvert.

Aðalfundur er lögmætur og ályktunarfær ef til fundarins hefur verið boðað með lögmætum og sannanlegum hætti – með amk. einni auglýsingu í útbreiddasta dagblaði og með amk. tveimur auglýsingum í útvarpi og sjónvarpi allra landsmanna.

Almenna félagsfundi getur félagsstjórn boðað þegar henni þykir þess þörf. Stjórn er skylt að boða til almenns félagsfundar ef 10% skráðra félagsmanna kallar eftir því skriflega og skal ávllat tilgreina fundarefni í slíkri beiðni.

Allir félagsfundir skulu haldnir þannig að félagsmenn geti fylgst með fundum úr fjarlægð  og ber stjórn að skipuleggja þátttöku  félagsmanna í starfsemi félagsins þannig að reglubundið sé aflað upplýsinga og viðhorfa þeirra og þeim gert kleift að taka þátt í kosningum og atkvæðagreiðslum með rafrænum aðgangi - - og gera ráð  geti tekið þátt í fundum gegn um tölvu eða fjarfundabúnað.

Nú hefur stjórnin eigi boðað til fundar innan 14 daga eftir að henni berst krafan og geta þá hlutaðeigendur snúið sér til ráðherra með ósk um að boðað sé til fundar.

Dagskrá aðalfundar skal jafnan greina í fundarboði, en fastir liðir á aðalfundi skulu vera:

1. Skýrsla stjórnar.

2. Skýrsla framkvæmdastjóra.

3. Tillögur félagsstjórnar um ráðstöfun hagnaðar eða taps.

4. Afgreiðsla reikninga og tillagna félagsstjórnar.

5. Breytignar á samþykktum félagsins

6. Kosning stjórnar og löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarfélags.

7. Þóknun stjórnar.

8. Önnur mál sem heyra undir aðalfund skv. félagssamþykktum.

Hver félagsmaður á rétt á því að fá mál tekið til meðferðar á aðalfundi ef hann gerir skriflega kröfu um það til félagsstjórnar með minnst tveggja vikna fyrirvara. Telji stjórn slíkt mál sem til hennara berst frá einstökum félagsmönnum eða fámennum hópi félagsmanna ekki verðskulda að vera tekið á dagskrá skal slíkt afsvar berast til frumkvæðisaðila með amk 5 daga fyrirvara. Getur viðkomandi félagsmaður/félagsmenn þá leitað liðsinnis viðskiptaráðherra/viðskiptaráðneytis um úrskurð í slíkum ágreiningi.

Að fundum hafa allir félagsmenn frjálsan aðgang, með málfrelsi og tillögurétt og fara með jafnan atkvæðisrétt. Úrslitum mála á félagsfundum ræður afl greiddra atkvæða, nema þar sem lög eða félagssamþykktir mæla fyrir um annað.

9. grein

Reglulegt stjórnarkjör skal fara fram með þeim hætti að öllum félagsmönnum gefist kostur á að taka þátt í kjörinu með rafrænum aðgangi sem úthlutað er fyrir hvert einstakt kjör. Skal setja nánari reglur sem kynntar eru hverju sinni – og skal skipa sérstaka trúnaðarmenn félagsins til að hafa eftirlit með því að verktakar/samningsaðilar sem annast framkvæmdina vinni að öllu leyti eins og best verður gert að slíku kjöri.

Skal jafnan leitað eftir framboðum til stjórnar og skal vera kosið úr þeim hópi eingöngu sem gefið hafa kost á sér fyrirfram.

Heimilt er að leita eftir því að óháðir aðilar taki að sér framkvæmd og/eða eftirlit með stjórnarkjöri samkvæmt þessarri grein.

Stjórn félagsins skal skipuð 9 mönnum, sem kosnir eru til tveggja ára, og þremur varamönnum, sem kosnir eru til eins árs í senn. Kjósa skal stjórn félagsins þannig að formaður er kosinn beinni kosningu til tveggja ára. Stjórnarmenn skulu kosnir fjórir á hverju ári. Varamenn skulu kosnir samkvæmt þessarri grein til eins árs og telst sá fyrsti varamaður, er flest atkvæði hlýtur í stjórnarkjöri en hlýtur ekki kosningu, og annar varamaður sem næstflest atkvæði hlýtur. Og þriðji varamaður sá er var með þriðju hæstu atkvæðatöluna.

Stjórnin kýs varaformann úr sínum hópi til eins árs í senn.

Formaður kveður til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Fund skal og jafnan halda ef einhver stjórnarmanna krefst þess. Stjórnarfundur er lögmætur, ef meira en helmingur stjórnarmanna er á fundi.

Úrslitum mála ræður afl atkvæða. Allar fundargerðir stjórnarinnar skulu ritaðar í gerðabók og staðfesta viðstaddir fundarmenn fundargerð með undirskrift sinni.

Stjórn skal staðfesta nánari starfsreglur í samræmi við ákvæði laga og gildandi reglna á hverjum tíma. Jafnframt skal stjórn staðfesta siðareglur fyrir félagið og leiðbeiningar fyrir starfsmenn og trúnaðarmenn félagsins.

Stjórnin boðar til félagsfunda og undirbýr málefni þeirra, framkvæmir fundarályktanir og annast störf milli funda. Stjórnin leggur endurskoðaða reikninga félagsins fyrir næsta ár á undan fyrir aðalfund, hefur eftirlit með eignum félagsins, gætir hagsmuna þess í öllum greinum og getur leitað aðstoðar laga og réttar í málefnum félagsins, er þörf krefur.

Aðalfundur ákveður þóknun fyrir störf stjórnar yfirstandandi árs.

Ákvæði til bráðabirgða: í fyrsta skipti sem stjórnarkjör fer fram skal kjósa fjóra stjórnarmenn til tveggja ára og fjóra stjórnarmenn til eins árs. Skulu þeir kosnir í tvennu lagi og þeir sem kosnir eru til tveggja ára á undan. Þeir skulu hljóta kjör sem varamenn sem eru númer 5-8 í kjöri stjórnarmanna til eins árs.

10. grein

Félagsstjórn ræður framkvæmdastjóra félagsins til að annast allan daglegan rekstur og hafa yfirumsjón með starfsemi þess svo og samstarfi um stofnun og rekstur fyrirtækja með eignaraðild félagsins. Félagsstjórn gerir við hann starfssamning.

Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir tilgangsgreinum samþykkta þessara og þeirri stefnu og ákvörðunum, sem stjórnin hefur samþykkt.

Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana, sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórninni eða að höfðu samráði við stjórnarformann, ef ekki er unnt að bíða ákvarðana frá stjórninni án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins. Í slíkum tilfellum skal stjórninni tilkynnt tafarlaust um ráðstöfunina og ber stjórnarmönnum að gera strax viðvart ef þeir telja að slíkar ákvarðanir þarfnist sérstakar og tafarlausrar umfjöllunar stjórnar.

Samskipti stjórnarmanna geta farið fram í gegn um síma, fjarfundarbúnað og tölvur og teljast þau form lögmæt. Stjórnarmenn skulu að öllum jafnaði sækja boðaða stjórnarfundi, en heimilt er stjórnarmanni að óska eftir því að taka þátt í fundi með fjartengingu, ef hann er tímabundið á ferðalagi vegna starfa sinna eða í sumarleyfi.

11. grein

Allir þeir samningar sem stjórnin eða framkvæmdastjóri gera fyrir hönd félagsins samkvæmt samþykktum þessum eða ályktunum aðalfunda, eða ákvörðunum stjórnar eru bindandi fyrir félagsheildina og hvern einstakan félagsmann.

Stjórnarmenn, fimm saman, rita firma félagsins.

V. KAFLI

REIKNINGAR OG ENDURSKOÐUN

12. grein

Aðalfundur kýs einn löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag.

Endurskoðandi rannsakar reikninga, starfrækslu og allan hag félagsins. Hann gefur aðalfundi skýrslu um störf sín. Endurskoðandi skal hafa aðgang að öllum bókum og reikningum félagsins á hvaða tíma sem er.

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal ávallt leggja fram endurskoðaða reikninga félagsins og taka ákvörðun um þá.

13. grein

Tekjuafgangi í ársreikningi félagsins ráðstafar aðalfundur samkvæmt ákvæðum laga og samþykktum félagsins. Heimilt er með samþykki aðalfundar að færa tekjuafgang að nokkru leyti eða öllu til næsta árs.

VI. KAFLI

SJÓÐIR OG VELTUFÉ

14. grein

Minnst tíu hundraðshluta þess hagnaðar, sem ekki fer til þess að jafna tap fyrri ára og ekki er greiddur út eða lagður í lögbundna sjóði, skal heimilt að leggja í varasjóð félagsins uns varasjóður nemur tíu hundraðshlutum af fjárhæð stofnsjóðs. Þegar varasjóður nemur 10% af fjárhæð stofnsjóðs skulu framlög í varasjóð vera allt að fimm hundraðshlutar hagnaðar þar til varasjóðurinn nemur einum fjórða hluta af fjárhæð stofnsjóðs.

15. grein

Í stofnsjóð félagsins rennur stofnhlutafé félagsmanna. Arður til félagsmanna greiðist í stofnsjóð í hlutfalli við skráða viðskiptaveltu samkvæmt nánari ákvörðun aðalfundar hverju sinni.

Aðalfundur ákveður hvort greiða skuli vexti á stofnhlutafé félagsmanna og skal við slíka ákvörðun taka mið af rekstrarniðurstöðu félagsins. Verði tap á rekstri félagsins er ekki heimilt að reikna vexti á stofnhlutafé félagsmanna.

Stofnsjóðseign skal endurmetin ef félagið stendur frammi fyrir sérstökum erfiðleikum í rekstri. Getur aðalfundur ákveðið að niðurfæra og/eða afskrifa stofnhlutafé félagsmanna ef þannig má tryggja áframhaldandi rekstur félagsins og aðra mikilvæga hagsmuni félagsmanna.

Stofnsjóðseign félagsmanna skal koma til útborgunar í neðangreindum tilvikum:

a) við andlát félagsmanns

b) við brottflutning félagsmanns af Íslandi enda gangi hann þá úr félaginu

c) að ósk félagsmanns þegar hann hefur náð 70 ára aldri - enda gangi hann úr félaginu (sbr.4.grein).

d) Einnig er heimilt samkvæmt samþykktum þessum að greiða út stofnhlutafé við úrsögn félagsmanns skv. 6. grein samþykkta, enda hafi hann staðið skil á uppgjöri sínu við félagið.

Stofnhlutareign er ekki framseljanleg og stendur ekki til fullnustu fjárkröfum skuldheimtumanna.

Heimilt er stjórn félagsins við sérstakar aðstæður að leita samþykkis viðskiptaráðherra fyrir því að fresta útgreiðslu stofnhlutafjár þar til eiginfjárstaða félagsins gerir slíkt mögulegt án íþyngingar fyrir félagið.

16. grein

Félagið ráðstafar þeim fjármunum sem það fær í arð af rekstri sínum beint og óbeint til félagsmanna og til nýrra fjárfestinga í samræmi við stefnu félagsins, samþykktir aðalfundar og ákvarðanir stjórnar á hverjum tíma.

Skal stjórn félagsins kynna endurnýjaða stefnu á aðalfundi ár hvert

VII. KAFLI

BREYTINGAR Á SAMÞYKKTUM, SLIT O.FL.

17. grein

Tillögu um að slíta félaginu má bera upp á löglega boðuðum félagsfundi og skal hún hljóta samþykki 2/3 hluta fundarmanna til þess að teljast samþykkt. Skal stjórn þá sjá til þess að fram fari almenn atkvæðagreiðsla um tillöguna meðal félagsmanna – með rafrænum hætti. Skal slík atkvæðagreiðsla fara fram á tímabilinu 6-8 vikum eftir að tillaga í þá veru hefur hlotið samþykki á félagsfundi.

Nú eru slit félagsins samþykkt með einföldum meirihluta þátttakenda í samræmi við það sem að ofan segir.

Þegar allar skuldbindingar hafa verið inntar af hendi í samræmi við gildandi lög skulu eignir félagsins sem til skipta koma renna til velferðar- og mannúðarmála.

Um ráðstöfun fer nánar samkvæmt ákvörðun félagsfundar eða þess aðila sem falið er að ganga frá slitum félagsins og starfar í samræmi við gildandi ákvæði laga um samvinnufélög/hlutafélög eftir því sem við á og hafa hlotið samþykki r.

18. grein

Samþykktum þessum verður ekki breytt nema á löglega boðuðum aðalfundi eða aukaaðalfundi.   Skal tillaga að samþykktarbreytingum einungis tekin til afgreiðslu á aðalfundi að hún hafi áður verið kynnt með auglýsingu opinberlega með að minnsta kosti viku fyrirvara.

Til þess að ná samþykki þarf slík breytingartillaga að hljóta 2/3 hluta atkvæða á fundinum nema lög eða félagssamþykktir mæli fyrir um annað.

Þegar leggja á fyrir aðalfund tillögur um breytingar á félagssamþykktum, skal þess getið í fundarboði og ber að kynna slíkar tillögur með minnst einnar viku fyrirvara á aðgengilegu formi fyrir alla félagsmenn.