Sósíalistaflokkur Íslands með raunhæfa húsnæðisstefnu - einn flokka

Brekatún 1-3 Kjarnagata 12-14 í baksýn
Brekatún 1-3 Kjarnagata 12-14 í baksýn

Íbúðaverðbólga ógnar hamingju og framtíð fjölda  fólks

Það er Covid-kreppa í íslensku þjóðlífi – og efnahagssamdráttur sem ekki sér fyrir endann á.    Á sama tíma og atvinnuleysi er í hærri tölum en lengi vel og kjör öryrkja og hluta af eldriborgurum - þeirra verst settu - dragast aftur úr -  rýkur íbúðaverð upp úr öllu valdi og stjórnvöldin beinlínis ýta undir óstöðugleika á húsnæðismarkaði.

Ríkisstjórnin og Seðlabankinn dældu fjármagni inn í hagkerfið samhliða vaxtalækkunum 2020.    Ódýrara fjármagn fór því miður í verulegum mæli til að endurfjármagna íbúðaskuldir þeirra sem þegar höfðu fest kaup á húsnæði -  auk þess sem þeir betur stæðu ókváðu að veðja á hækkanir -  í þeirri skortstöðu sem lengi hefur verið viðhaldið.

Það liggur fyrir endurtekin mæling á að í kjölfar algerrar frystingar á íbúðabyggingum gegn um Bankahrunið og eftirárin -  hefur hvergi nærri verið byggt nægilega mikið til að halda í við fólksfjölgun og verulega breytta nýtingu íbúðarhúsnæðis.    Bankar -  í höndum ríkisvaldsins – hafa verið kerfisbundið misnotaðir til að skammta völdum verktökum fjármögnun og Sjálfstæðisflokkurinn  hefur fengið alla samstarfsflokka á Alþingi til að endurreisa öfgafulla séreignarstefnu íbúðarhúsnæðis.

Sprenging í ferðaþjónustu frá 2013 flutti inn margfaldaðan fjölda  nýbúa -  til viðvarandi vinnu -   (ekki bara til að koma og fara) – um leið og AirB&B íbúðaleigan freistaði margra.  Skattastefnan gerir bröskurum kleift að fjárfesta í íbúðum og velta -  án skattlagningar á söluhagnaði – og margfölduð frítímanýting íbúðarhúsnæðis á landsbyggðunum skapar víða beinan og óbeinan íbúðaskort.  Stéttarfélög hrósa sér af því að kaupa upp íbúðir til frímtímaleigu fyrir félagsmenn sína – sem aldrei fyrr – og jafnvel bara “til fjárfestingar” og ávöxtunar á digrum sjóðum sínum.

Sveitarstjórnir vítt um landið virðast næstum  líta á það sem hlutverk sitt að auðvelda íbúðabrask – enda dekur við frekustu verktakana raunverulegur og landlægur ósómi.

Svokallaðir fjárfestar og umsvifamestu verktakar ná við þessar aðstæður auðveldlega höndum saman um að viðhalda þessarri svikamyllu – studdir af bönkum og ægivaldi fjármálaráðherrams yfir þeim – með handvalinni stjórn Bankasýslu ríkisins.    Allir sjá þann óheilbrigða gróða sem bankarnir raka til sín -  og hefur í höndum fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins beinlínis breyst í sérstakan skatt á skuldsettar fjölskyldur og smærri fyrirtæki.

Smáskammtalækningar stéttarfélaganna -  sem hafa látið sér nægja að kría út örfáar íbúðir í fjölbýli og hverfiskjörnum -  þar sem fátæku fólki er safnað saman á grundvelli stöðu sinna – megnar auðvitað næstum ekki neitt.    Bjarg íbúðafélag ASí og BSRB  -  þar sem ríki og sveitarfélög afhenda peninga til niðurgreiðslu á yfirverðlögðum eignum – styrkir sem eru einokaðir fyrir félagsmenn þessarra launþegasamtaka -  er að mínu mati afar slæm og úrelt leið -  og fer gegn öllum bestu ráðleggingum um markvissa félagslega blöndun íbúðahverfa og kjarna.  
Þessi aðferð opinberra styrkja/stofnframlaga  verður bókstaflega til þess að réttlæta  og viðhalda óhagkvæmni á byggingamarkaði og ríkisstyrkja yfirverðlagningu á húsnæði og lánsfé, en gerir ekkert jákvætt fyrir húsnæðismarkaðinn í heild -  meðan einungis er mjatlað inn örfáum íbúðum fyrir allra tekjulægstu hópana.

Ungt fólk af almúgastétt og lágtekjufólkið á fárra eða engra kosta völ

(Staðan á haustdögum 2021)

Húsnæðisbólan veður enn áfram; íbúðaverðið í rugluðum hæðum í Höfuðborginni og teygir sig til nærsvæðanna, Hveragerði og Selfoss, Akranes og jafnvel alla leið til Akureyrar.

Byggingarkostnaður fer vissulega hækkandi  eftir langan tíma með hóflegum breytingum á efnisverðum.   Byggingarvísitala hefur þó einungis hækkað um 22,6% frá því í ársbyrjun 2016 og fram til dagsins dag -  á meðan fermetraverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað úr 275 þús og í 524 þús á sama tímabili -  eða um 90%.      Allir vita samt að bætt tækni og framfarir  og fjölbreytni í efnum spornar beinlínis gegn hækkunum á raunkostnaði íbúðabygginga, en verktakarnir og milliliðir stinga öllum mögulegum ávinningi í sína vasa -  og miklu meira en það.

Ungt fólk kemst ekki inn á séreignarmarkaðinn nema með verulegri meðgjöf frá fjölskyldu og sá hópur sem alinn er upp við kröpp kjör eða bindur sér skuldabagga með námi er í afar þröngri stöðu  -  klemmdir á leigumarkaði og geta ekki lagt fyrir.    Unga fólkið af landsbyggðinni er í enn þrengri stöðu til að komast áleiðis og undir sig fótum -  vegna námskostnaðar umfram höfuðborgarbúann um leið og foreldrum á dreifbýlissvæðum er ekki auðvelt að nýta veðheimildir í fasteignum sínum sem metnar eru á einungis brot af eignaverði á Höfuðborgarsvæðinu.

 

Skortur er á leiguhúsnæði víðast um land og leiguverð rýkur aftur upp.    Fákeppnistök svokallaðra fjárfesta (stóru leigufélaganna) birtast grímulaus í þeirri ruddalegu hugmynd að hægt sé að spinna ávöxtunarkröfur af útleigu íbúðarhúsnæðis svo bratt upp að skráning í Kauphöllina hafi  yfirleitt einhvern tíma verið raunhæfur kostur.    Skráningarhroki Heimavalla sem á sínum tíma fengu íbúðir á silfurfati á hrakvirði úr höndum Framsóknar-stjórnvalda eftirhrunsins – hefur nú fært þær íbúðir í hendur norsks gróðafélags undir nafninu Hemstad.

Vaxandi fjöldi fólks sem er þegar kominn eða er að komast á lífeyrisaldur sér ekki fram á viðunandi húsnæðisúrræði - -  er eignalítill eða bókstaflega eignalaus og er með hörmungarlega lágan lífeyri sem ekki býður upp á rekstur eigin húsnæðis.   

Þótt greiningar sýni að umtalsverður hópur eldri borgara sé eignamegin í samfélaginu þá má ekki horfa framhjá því að hinn sterkefnaði hópur er fámennur -  og kjarabilið í hópnum 65+ er alveg rosalega mikið.     

Ekkert framboð er af hagkvæmu leigu og búseturéttarhúsnæði í forgang fyrir eldri borgara - - en fasteignabraskarar keppast um að selja ríku eldra fólki meintan lúxus á uppsprengdu verði þannig að stór einbýli eða raðhús duga varla fyrir nýju íbúðinni.

Hinn opinberi Íbúðalánasjóður var gerður að undirdeild í Húsnæðisstofnun  býður áfram bara ofurvaxtalán fyrir smáíbúðir (Þak á verði og stærðum) sem eru óralangt frá því sem þekkist í siðmennuðum samanburðarlöndum eða 3,6% verðtryggðir vextir á meðan nágrannalöndum eru vextir til langs tíma 1-2% óverðtryggt og niður undir 0-1,2% fyrir breytileg kjör í styttri tíma til bestu kúnna.

Ástandið skýrist ekki af því að það sé “skortur eða langur biðtími eftir félagslegum íbúðum” -  heldur er húsnæðisverðið og leiguverðið á almenna markaðinum komið svo langt upp fyrir greiðslugetu fullvinnandi fólks á lægri launaskölum að með því verður til alveg ný eftirspurn eftir félagslegu húsnæði.

Verðbólan er hættumerki og engum til gagns nema spákaupmönnum

Hækkandi íbúðaverð langt upp fyrir byggingarverð  bætir ekki hag nokkurs manns til lengri eða skemmri tíma.  Einungis spákaupmenn hagnast raunverulega á verðbólunni; – þeir sem veðja á hækkanir, byggja til að selja á skortmarkaði og þeir örfáu sem eru að selja sig út af eigendamarkaði.

Allir hinir tapa á verðbólunni og alveg sérstaklega skuldsetti hópurinn sem tekið hefur lán í verðtryggðum íslenskum krónum og sæta nú því að vísitala lána hækkar meira vegna verðbólgu íbúða  heldur en unnt er að sætta sig við.    Þetta er afleiðing af illa rökstuddum duttlungum Hagstofunnar sem virðist ekki hafa nein skýr lagafyrirmæli um verðmælingar að baki útreiknings VtNV sem síðan er notuð til grundvallar við verðtrygginu lána.  

Nú hótar Seðlabankastjóri auðvaldsins þeim skuldsettu að hann muni hækka vexti svo um munar ef menn kjósa ekki stjórnvöld sem eru honum að skapi.   Já; vaxtahækkanir eru ógn við allan skuldsettan íbúðarekstur -  og kemur fram í verðbólgunni og eykur kostnað allra.

Allar aðgerðir og umræða beinist enn meira og minna í þá átt að “auðvelda kaup” eins og það er orðað  - sem þýðir á mannamáli að fjölga þeim sem skuldsetja sig vegna íbúðarhúsnæðis.    Engin virk orðræða er um aðra kosti -  hagkvæmrar almennrar leigu eða reksturs íbúðafélaga í samvinnufélögum og sjálfseignarféögum eins og algengt er í þeim löndum sem best sinna húsnæðiþörfum venjulegs fólks. 

Meðan orðræðunni er beint að því að “auka eftirspurn” – með jafnvel með lánum og viðbótarskuldsetningu byrjenda á húsnæðismarkaði þá hækkar verðið.

Lausn á þessu ástandi getur ekki falist í því að Lífeyrissjóðir landsmanna fari inn á þenna uppblásna markað sem fjárfestar;   --  það væri beinlínist efni í stórslys ef svo fjársterk grúppa mundi færa sínar óraunhæfu ávöxtunarvæntingar þangað  inn.

Tilboð Sósíalistaflokks Íslands um 30 þúsund íbúðir á næstu 10 árum er bæði tímabært og raunhæft.

Lausnin getur eingöngu falið í sér aðgerðir á eftirfarandi sviðum;

 1. Að stórauka framboð.
 2. Að skila bættri tækni og hagkvæmni magnframleiðslu beint til neytenda.
 3. Með almennum kostnaðarlækkandi aðgerðum.
 4. Með því að stíga út úr fákeppnistökum verktaka og fjárfesta sem er valdað af ríkisbönkunum í “svokallaðri armslengd” frá fjármálaráðherranum

Það er vel hægt að skapa varanlega betri íbúðamarkað og húsnæðisöryggi.

Fyrirmyndir eru tiltækar í nágrannlöndum og lykilríkjum ESB/EES svæðisins.  Þar er víða hagkvæmur leigu- og búseturéttamarkaður í neytendafélögum/samvinnufélögum – verulega umfangsmikill og stórt hlutfall almennra íbúða í fjölbýli.   Það gerist með því að sveitarfélög og hálfopinberir sjóðir eru farvegir fyrir skipulagsákvarðanir og fjármögnun hagkvæmra íbúða í almannaþágu.    

Hægristjórn Venstre í Danmörku, í samvinnu við sveitarfélög, jók fyrir ekki svo mörgum missirum “ríkislán” til Landsbyggefonden sem lánar almennum íbúðaleigufélögum/samvinnufélögum neytenda vaxta- og/eða afborgunarlaus lán til lengri tíma.     Almen-bolig kerfið danska og andels-bolig eru kerfi þar sem almenningur getur gengið að öruggu og hagkvæmu húsnæði  -  án þess að sæta flokkun á grundvelli tekna eða félagslegrar stöðu.   Þótt verð á séreignaríbúðum í miðborg Kaupmannahafnar sé sannarlega hátt þá þarf ekki langt að fara frá Ráðhústorginu til að finna hagstæðari verð á eign og leigu -  auk þess sem hagkvæmar almenbolig/andelsbolig íbúðir eru plantaðar í öllum eldri hverfum og þar sem enduruppbygging er í gangi.

Finnar hafa sl. 20 ár borið gæfu til að tryggja framleiðslu hagkvæms húsnæðis og að langmestu leyti með samstilltu átaki neytendafélaga og sveitarfélaganna – með virkum þróunarstuðningi ríkisins.   Verbólga íbúðaverðsins hefur þannig ekki stefnt öryggi í afkomu fólks í hættu í því landi -  og vextir íbúðalána eru afar lágir síðustu ár.

Í Þýskumælandi Evrópu er löng hefð fyrir því að tryggja hófsaman leigumarkað -  bæði með íhlutandi stýringu og sterkum réttindum leigjenda og með því að neytendarekstur í samvinnufélögum í  bland við hálfopinber íbúðafélög – skapar jafnvægi og markaðsaðhald.     “Leiguverðþak”/Mietbremse er virkt tæki til að koma í veg fyrir skriðuhækkanir á leiguverði og hefðir eru fyrir því að einkarekin leigufélög sem fara offari gegn neytendum séu yfirtekin eða einstakar íbúðir keyptar yfir í annað rekstrarumhverfi -  með liðstyrk sveitarfélaga.

Í kosningum til fylkisþingsins í Berlín í September 2021 verða greidd atkvæði um tillögu um að borgarstjórnin leiti fulltingis stjórnvalda til að yfirtaka leigufélög sem hafa það eina markmið að spenna upp og sprengja leiguverð á þöndum markaði.

Í húsnæðiskreppu sjötta áratugarins í Svíþjóð settu sósíaldemókratar í gang samhæft byggingarverkefni -  Milljonprogrammet – þar sem hálfopinber íbúðafélög byggðu 1,3 milljónir íbúða á rúmlega 10 árum og síðan hafa þær íbúðir verið reknar á samfélagslegum forsendum.    Frjálshyggja og einkavæðingarbylgja hægri manna í Svíþjóð sem  fór af stað á síðasta áratug 20. aldar hefur smitast í stórpólitíkina  -  og Sósíaldemókratar  hafa ekki staðið í ísstaðinu og einungis fáeinar borgir og sveitarfélög hafa viðhaldið öflugu samfélagslegu íbúðakerfi á neytendaforsendum.   Stokkhólmur og Gautaborg hafa til að mynda ekki beitt opinberum lausnum til íbúðabygginga síðustu 25 árin að neinu marki -  heldur selt félagslegar eignir til einkafjárfesta -  með þeim afleiðingum að íbúðaverðbólga er í hæstu hæðum og ógnar stöðugleika og hagfelldri félagslegri blöndun.   Ástandið er býsna slæmt og ýtir undir ghettóvæðingu sem ekki var nú á bætandi eftir flóttamannasprenginguna 2015-2016.     Líklegt er að húsnæðismál verði að kosningamáli í Stórþingskosningum í Svíþjóð 2022 en ekki ljóst hvar sósíaldemókratar ætla að leggja sínar áherslur -  hvort þeir vilja rétta við arfleifð Erlander og Palme eða hvort þeir vilja halda áfram frjálshyggjuflaninu sem Carl Bildt leiðtogi íhaldsins lagði upp fyrir nærri 30 árum.

“Sér-íslenska húsnæðiskerfið”

Íslenska húsnæðisregluverkið hefur tekið óþægilega mikið mið af Bandarískum og Breskum viðmiðunum -  þar sem almenningi er kastað á “bál” húsnæðisbraskara og spákaupmanna  -  eða situr uppi með undirmálshúsnæði og búsetu í ömurlegum ghettóum.  

 

Á Íslandi undir lok ársins 2021  er ekki einu sinni til neitt heildar yfirlit um það hversu margt fólk býr við ófullnægjandi húsnæði – í iðnaðarhverjum og bráðabirgðaskúrum – eða er í raun heimilislaust þótt það fái húsaskjól hjá ættingjum eða velviljuðum.   Vafi leikur á að Íslandi standi við alþjóðlegar skuldbindingar að því er húsnæðiöryggi almúgafólks varðar.   Gistiverkafólk frá starfsmannaleigum virðist meðhöndlað af fullkominni ósvífni og hefur mátt sæta ótrúlegri niðurlægingu í gegn um covid-atvinnuleysið.   Ástandið er á ótrúlega marga mælikvarða ömurlegt og hvergi sér fyrir endann á því, þetta sjá allir og þetta viðurkenna allir aðrir en bankar og “svokallaðar greiningardeildir”  og aðrar málpípur braskaranna.

Almenningur á Íslandi verðskuldar að gert verði þjóðaátak í  húsnæðismálum árin 2021-2025 -  þar sem við sækjum viðmiðin til þess sem best hefur gengið í næstum 100 ár í þeim Evrópulöndum sem við viljum bera okkur saman við.     Til þess átaks skortir okkur ennþá nægilega leiðsögn eða alveg nýja forystu.    Ný forysta í stórum félögum launþega hefur örlítið reynt  til að ná fram úrbótum í gegn um kröfugerð sína í kjarasamningum.   Það er hins vegar hrein og bein þversögn að alþýðuhreyfingar og almenn launþegafélög beiti sér fyrir flokkun íbúða og íbúa – í fjölbýlishús og hverfiskjarna þar sem eingöngu er safnað saman fátæku fólki -  í stað þess að knýja á um að almennar aðgerir skapi öllum valkosti á húsnæðismarkaði.   Til leigu/leiguréttar í neytendareknum félögum og til búseturéttar í samvinnufélögum sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða – þar sem hagkvæmni í raðsmíði og fjöldaframleiðslu er skilað beint til neytenda í formi hagstæðra kjara og öryggis.

Jafnhliða þurfa aðilar með þekkingu á markaðinum og reynslu að virkja hugvit og vilja til að færa okkur lærdóma og lausnir frá þeim svæðum í nágrenni og á EES svæðinu sem best hafa staðið sig.

Aðgerðalisti í húsnæðismálum í aðdraganda stjórnarmyndunara 2021:

 . . . . . .  og umbótum á stöðu neytenda gagnvart fjármálakerfinu

 1. Bann við verðtryggingu lána til einstaklinga: Eitt af forgangsverkefnum til að koma kjörum og möguleikum íslenskra fjölskyldna inn í sambærilegan farveg við það sem er almenn regla í betur siðuðum nágrannalöndum er að innleiða bókstaflegt bann við verðtryggingu lána til einstaklinga.  
 2. Leigustarfsemi verði skráð og eftirlitskyld -  bannað verði að harka með skammtímaleigu og fylgt fordæmi Svía og Þjóðverja t.d. að því er varðar beinar verðlagshömlur á húsaleigu.    Aðilar í leigustarfsemi verði skyldaðir til að bjóða alltaf langtímaleigusamning – án uppsagnarsjálfdæmis  og án sjálfdæmis um verðbreytingar sem ekki eru rökstuddar með kostnaðarbreytingum.    Íbúðir verði ekki sjálfkrafa fluttar á milli nýtingarflokka án eðlilegrar umfjöllunar hjá skipulagsyfirvöldum;  þannig verði leiguíbúð ekki einn daginn breytt í frítímaíbúð til einkanota eða í gistiþjónustu -  né heldur að lögheimilisíbúð verði breytt í “tómthús” án virkrar nýtinga   -  sem braskarinn getur þá geymt á meðan veðjað er á verðbóluna sem húsnæðisskorturinn keyrir áfram.
 3. Skipulagsskilmálar virkjaði með endurnýjaðri löggjöf sem takmarkar eða afnemur sjálfdæmi eigenda íbúða sem byggðar eru og stofnaðar sem heilsársíbúðir til lögheimilis fjölskyldna;  nauðsynlegt er að skattleggja “tómthús”, stöðva verður svarta útleigu og hark, stöðva þarf skammtímaleigu á lögheimilisíbúðum.   Koma þarf á varanlegri skilgreiningu lóða undir leigu- og búsetuíbúðir án hagnaðarkröfu og skilyrða ábyrga og hagfelld blöndun allra íbúðahverfa.  
 4. Úthlutun lóða til almannafélaga sem rekin eru án hagnaðarkröfu gegn kvöðum um að íbúðir verði ekki seldar út úr félögunum til hagnaðar eða þannig að það raski skipulagsákvörðunum.   Jafnhliða væri málefnalegt að úthluta lóðum til einstaklinga sem byggja yfir sig sjálfir þannig að lóðin væri á “gjafverði” – en þá þannig að við sölu mundu lóðagjald koma til greiðslu sem fast hlutfall af íbúðaverðinu eftir nánari verðskrá.
 5. Jafnframt ætti að veita íbúðafélögum neytenda sem rekin eru án hagnaðarkröfu takmarkaðar heimildir til útgáfu á verðtryggðum skuldabréfum til langs tíma – miðað við að um væri að ræða þak á vexti við 1-1,5% ofan á samræmda vísitölu NV.    Með þessu ætti að leggja “skyldusparnað” á alla sjóðasöfnun lífeyrissjóðanna – í því formi að gera þeim skylt að kaupa tiltekið magn skuldabréfa af íbúðafélögum neytenda -  miðað við eftirspurn eftir hagkvæmum íbúðum í Not-For-Profti rekstri í samvinnufélögum og lýðræðislegum sjálfseignarfélögum.
 6. Sveigjanlegt regluverk fyrir íbúðafélög neytenda – til jafns við félög aldraðra og stúdenta: varðandi þéttni byggðar og íbúðagerðir/stærðir  - þannig að þjónusta í sameign gæti sinnt mikilvægum fúnksjónum t.d. um geymslur og þvottahús.
 7. Sveitarfélögum væri með öllu bannað að “skortselja lóðir” -  til hagnaðar og með heimildum kaupenda til að braska með byggingarrétti.   Byggingarréttur sem ekki er nýttur í samræmi við skipulag innan hóflegra tímamarka falli aftur til sveitarfélags án endurgreiðslukvaðar – fyrr en nýr byggingaraðili tekur við honum.
 8. Viðlagasjóður 2021; RAÐSMÍÐI: Íbúðafélög neytenda og sveitarfélög stofni til svæðisbundinna framkvæmdaverkefna  þar sem raðsmíði og hagkvæmur innflutningur á húseiningum og einingahúsum frá Skandínavíu verður settur í forgang:  - af enn stærri skala en gert var með Viðlagasjóði 1973-1975 þegar flutt voru innnærri 500 hús.   Raunhæft er að stefna að smíði/innflutningi amk. 5.000 nettra íbúða í raðhúsum/keðjuhúsum, parhúsum og smærra fjölbýli í 24-30 mánuðum og öðrum 5000 íbúðum næstu 3-5 ár þar á eftir.     Eðlilegt er að slíkt verkefni yfirtaki sérstakan stuðning við leiguíbúðir fyrir lágtekjufólk, skv. lögum nr. 52/2016 um stofnstyrki -  og þetta stórátak verði útfært þannig að um verði að ræða blandaða íbúðabyggð fyrir alla aldurshópa, ólíka tekjuhópa og fjölskyldustærðir.
 9. Horfið verði frá ghettóvæðingarstefnu ASÍ-BSRB – þar sem lágtekjufólki er safnað saman í sérgreind íbúðafélög og stigaganga eða hverfiskjarna.  Slík stefna er bæði mannfjandsamleg og heimskuleg af því að hún felur ekki í sér neina tegund af hagkvæmni eða samfélagslega jákvæðum markmiðum sem slík.   Þess í stað standi sveitarfélög og launþegafélög með neytendum og framfylgi skilvirkri skipulagsstefnu með blöndun íbúðagerða og breiðum verðflokkum í öllum hverfum og kjörnum.   Íbúðafélög með leigu- og búseturétti -  í óhagnaðardrifinni umgjörð geta orðið kjölfesta í samfélagslega sjálfbærri endurnýjun byggða um Höfuðborg og landsbyggðarþéttbýli alveg jafnt.
 10. Skattur í sjóðsöfnun lífeyrissjóðanna er réttætismál:  hann verði notaður til að fjármagna stórauknar byggingar íbúðafélaga neytenda – sem rekin eru án hagnaðarkröfu/Not-For-Profit: til að framleiða upp í núverandi íbúðaskortinn og skapa varanlegt jafnvægi á húsnæðismarkaðnum.    Með því væri dregið úr fjárfestingarþrýstingi lífeyrissjóðanna – og verðbóluhættu – og um leið tappað af möguleikum spákaupmanna og ósvífinna braskara til að hrifsa til sín alltof mikla fjármuni á skömmum tíma.
 11. Húsnæðisbætur verði eitt kerfi skattendurgreiðslu:  óháð eignarformum en tengt framfærslubyrði  verðir “persónuframlag”  vaxtafrádráttar og leigufrádráttar.

Eina stjórnmálaaflið sem hefur sett fram metnaðarfull markmið í húsnæðismálum er Sósíalistaflokkurinn:

Bygging 30 þúsund íbúða á næstu 10 árum er bæði raunsæ og þörf hugmynd  -  en meirihluta þeirra íbúða þarf að leggja grunn að á næstu 3-5 árum til að vinna inn í þann skort sem er raunverulegur.

  Neytendarekin húsnæðissamvinnufélög og sjálfseignarfélög sem rekin eru sjálfbær og án hagnaðarsjónarmiða  geta hiklaust orðið lykill að langtímalausn – með virku samstarfi við sveitarfélögin og launþegafélög -  og með styðjandi lagaramma ALþingis.  

Það er gríðarlega áríðandi að hin nýja forysta launþega -  forysta ASÍ og endurnýjuð forysta opinberra starfsmanna – leggist á eitt með hagsmunum félagsmanna sinna.  Það er einnig áríðandi að BHM og Kennarasambandið viðurkenni að húsnæðisöryggi er kjaramál  – líka þeirra sem glíma við námslánabyrðina eins og henni hefur verið hlaðið á flestar menntastéttir landsins.    Á mesta uppbyggingarskeiði áranna frá 1950 fólst hrein bylting fyrir margar fjölskyldur opinberra starfsmanna sem komu yfir sig öruggu húsnæði í byggingarsamvinnufélögum undir verndarvæng stéttarfélaga sinna.

Það er bókstaflega þjóðarnauðsyn að  neytendavæða íbúðabyggingar og rekstur húsnæðis fyrir fjölskylduþarfir  og hemja gróðasókn spákaupmanna og siðleysi fjármálakerfisins.

Það verður best fyrir okkur öll til lengri tíma litið

Fyrir kosningar 2021

Benedikt Sigurðarson er eftirlaunamaður á Akureyri