Sorptunnuvæðing og horfin tré á Akureyri

 

Sorpvæðing íbúðahverfa og horfin tré

Núna í kring um hátíðarnar hef ég farið ofurlítið um hverfi Akureyrar.   Tvennu hef ég veitt sérstaka eftirtekt.  Hið fyrra er hvernig bæjaryfirvöld hafa skapað aldeilis ömurlega aðkomu að íbúðarhúsum með því að mæla svo fyrir að sorptunnur skuli varða aðkomu og innganginn að íbúðarhúsum.  Heilar íbúðagötur eru þannig rammaðar inn af sorptunnum – sem standa mismunandi skakkar og útúrfullar og faðma snjóinn.     Ég hef haft efasemdir um þessa sorpvæðingu – líka þótt sett séu lok á blokkirnar sem steyptar hafa verið utan um tunnurnar.   Ekki lítur nú betur út þegar raðhús og fjölbýli stækka sorpílátin og sundurleitir gámar eru það fyrsta sem mætir gestum sem að húsunum koma.

Undarlegir skilmálar,  satt að segja – að áskilja tiltekna stystu fjarlægð sorpíláta frá götu.   Það var áður kannski hálf-umhendis að setja allar sorptunnur bakvið hús í kjallaratröppur eða í kjallarakompur – vegna þess hversu erfitt gat verið að sækja sorpið og koma á því á bíla til losunar.   

Held samt að þessa óskynsamlegu breytingu hafi ekki verið ráðist í vegna sérstakrar tillitssemi við starfsmenn sveitarfélaganna sem sinntu sorphirðunni – og grunar miklu frekar að rekja megi hana til verktakavæðingarinnar sem krefst þess að hægt sé að hagnast að einhverju marki með verktökunni.  Sorpílátið er það fyrsta sem mætir gestum og gangandi og sama þótt menn hafi þokkalegan vilja til að ganga vel um sitt sorp þá verður þetta aldrei annað en óyndisleg aðkoma.    Þegar heilar götur eru varðaða sorpi er bærinn búinn að breyta um ásýnd er ekki lengur hreinn og snyrtilegur.

 

Á Akureyri hefur trjágróður þrifist sérstaklega vel eftir því sem gerist á Íslandi.  Eldri hverfin hafa orðið skjólsæl og römmuð í grænt allt sumarið.   Sérstaklega hefur Alaskaöspin orðið vöxtugleg – en sennilega gróðursett miklu þéttar á árunum milli 1960 og 1990 heldur en seinna var ráðlagt -  enda vöxturinn langt umfram björtustu vonir ræktunarfólks.   Vindálag og veðrun húsa hefur minnkað stórlega -  og það er skjól bæði sumar og vetur.   Skafrenningurinn var hættur að ríkja á vetrarhríðum.   Það var ekki bara Innbærinn og Eyrin, og Neðri-Brekkan heldur voru Glerárhverfið Lundahverfið og Síðuhverfið býsna gróið að verða.    

Um nokkurra ára skeið hefur geysað hér í bænum eitthvert óskiljanlegt fár – og áróður gegn trjágróðri í görðum.  Sérstaklega hafa aspirnar orðið illa úti í áróðrinum.    Þær hafa verið miskunnarlaust toppklipptar og felldar.     Rökstuðningurinn hefur verið að það sé kominn skuggi í allan garðinn eða að þær séu að eyðileggja frárennslið.

Á síðustu vikum hef ég veitt því athygli að fleiri og fleiri garðar sem áður voru skjólsælir og grónir líta nú út eins og á svæðum sem hafa orðið fyrir hamförum.     Myndir frá Chernobyl og hrjáðum svæðum SA-Asíu minna mann á hvernig skelfingar leika gróður og eyðileggja allt sem fyrir verður.    Nú eru því miður aðeins örfáar stóru aspirnar eftir við Hamarsstíginn og eftir því sem grisjunin gengur lengra þeim mun hættara er á að þau tré sem eftir standa stök falli í stórviðrum allra árstíða.

Já; og á  Akureyri er samt bannað að fella tré yfir tiltekinni hæð  nema með leyfi byggingafulltrúa.   Kannski leyfir byggingafulltrúi að hvaða tré sem er sé sagað niður?

Kannski er byggingafulltrúinn einmitt að rýma sem mest af trjám úr görðum til að sorptunnuvæðingin blasi sem allra best við.    Kannski vilja bæjaryfirvöldin að gamall skafrenningur nái aftur völdum í íbúðahverfum á Akureyri þannig að verktakar fái meira að gera við snjómoksturinn og að íbúarnir upplifi sem mest óþægindi af ófærðinni.

Hvað veit ég?