Skuldavandinn er handstýrður og heimatilbúinn

Skuldavandi heimila og fyrirtækja á Íslandi dagsins er ekki neitt smámál.   Orsakir þess vanda eru langstæðar - - og rekja sig í gegn um hörmungartíma verðtryggingar, verðbólgu og græðgisbólu.    Stærstu skýringar vandans eins og hann birtist núna liggja samt í röð mistaka sem stjórnvöld frömdu í gegn um Hrunið stóra og hafa viðhaldið allar götur síðan.

·        Neyðarlögin fólu í sér alvarleg mistök með því að 100% innistæðutrygging var langt umfram þau efni sem samfélagið hafði.  Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis má lesa að undirbúning skorti varðandi aðgerðina og engar staðfestingar liggja fyrir um það hverjir, hvar og hvernig ákvörðun var tekin.  Hins vegar munu finnast staðfestingar á því að búið hafi verið að velta upp möguleikum á að tvöfalda lágsmarksupphæð tryggingar eða láta fasta fjárhæð við 10-20 milljónir marka þak á tryggingarfjárhæð.    þessi langtum of ríkulega trygging færði 5%  fjársterkustu Íslendingunum og erlendum viðskipamönnum bankanna meira en helming heildauppæðar innistæðna.    Til að jafna efnahagsreikninga bankanna þurfti ríkisvaldið síðan að setja inn 414 milljarða og leggja auk þess allar verðtryggðar og gengistryggðar skuldir almennings í hendur þeirra andlitslausu kröfuhafa sem ríkisstjórnin síðan afhenti bankana.

·        Það voru afdrifarík mistök ríkisstjórnar Geirs H Haarde og einkum Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra að frysta ekki vísitölur allra fjárskuldbindinga - -  amk tímabundið í gegn um Hrunið.  Sorglegt að þar fóru þau að ráðgjöf frá Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og hjálparkokkum í nefnd sem Jóhanna skipaði þegar ljóst varð að verðtryggð og gengistryggð lán mundu stökkbreytast.    Röksemdir Gylfa gegn því að stöðva sjálfvirkar hækkanir verðtryggðra lána snerust einkum um að það væri mikilvægt að tryggja lífeyrissjóðunum ávöxtun með stökkbreytingu lána heimilanna.

·        Það voru gríðarlega alvarleg mistök af hálfu Steingríms J, Jóhönnu og Árna Páls -  að sækja fremur ráðgjöf og leiðsögn um endurreisn bankanna til manna eins og Gylfa Magnussonar og Yngva Arnar Kristinssonar fremur en nýta reynslu og þekkingu Mats Josefsson hins sænska sérfræðings.    Josefsson hafði lagt til að ríkið yfirtæki bankana og notaði þá sem verkfæri til að skuldahreinsa hagkerfið - - áður en þeir yrðu síðar seldir og sameinaðir -  til að ná fram hagræðingu í bankakerfinu.      Steingrímur J, Gylfi Mag og Árni Páll og félagar töldu hins vegar smámál að skella þessum 414 milljörðum inn í bankana - - og afhenda þá síðan andlitslausum kröfuhöfum og vogunarsjóðum.    Þeir kumpánarnir kórónuðu nú ruglið með því að til viðbótar við milljarðana 414 voru ekki settir neinir skilmálar um niðurskrift á stökkbreyttum lánum almennings og ekki settir neinir takmarkandi rammar um störf skilanefnda  - - og engar  alvöru hömlur á bónusa og  kauprétti - - eins og nú má sjá m.a. á launasjóði Steinþórs í Landsbankanum og efhendingu milljarðahlutar í Landsbankanum til valinna starfsmanna.

·        Hagnaður bankanna frá endurreisn er kominn á þriðja hundrað milljarða (220 milljarðar) - - og sér þess hvergi stað í efnhagsreikningum að leiðréttingar Hæstaréttar á ólögmætum gengistryggðum lánum hafi skaðað afkomuna.     Það er auðvitað meira en galið að á tímum hinna miklu afskrifta skuli bankar skila bólgnum hagnaði - - og svokallaðir eigendur bíða eftir því að geta tekið til sín arðgreiðslur - - langt umfram hóf.

Nú sjá allir að ekki er hægt að gera upp þrotabú Kaupþings og Glitnis -  og greiða úr þær gríðarlegu fjárhæðir sem bankarnir eru virtir á.   Það er ekki einu sinni ágreiningur um að milli pólitísku flokkanna.

Þessar hengjur skrúfa áfram verðbólgu og sjálfvirka skudsetningu í hagkerfi heimilanna með verðtryggingunni.

Nýleg rannsókn Jacky Mallett bendir til að verðtryggingin sjálf sé verðbólguvaldur - - og sé þar með vítahringur í eðli sínu.   Meðan ekki er höggvið á hnútinn með því að afnema verðtryggingu allra fjárskuldbindinga og leiðrétta jafnframt stökkbreyttan höfuðstól vex skuldavandinn  -  þar sem okurvextir ofan á verðtryggingu auka skuldsetningu langt umfram verðmætasköpun í takmörkuðum hagvexti  - - og auka peningamagn í umferð með því að spinna upp verðtryggðar eignir.

Vítahringinn verður að rjúfa: - með afgerandi og víðtækum aðgerðum og stefnumörkun sem er bæði djörf og yfirgripsmikil.

Dögun hefur sett á dagskrá samsett plan aðgerða til að skala efnahagskerfið ákveðið út úr hjólfari sjálfvirkrar skuldsetningar og umfangsmikilla tilflutninga á fjármunum frá skuldsettum almenningi til fámennrar elítu ríkismanna, banka og sjóða.

Tillögur Dögunar verða ræddar á landsfundi um helgina og eru einu ítarlegu og heildstæðu plön til lausnar á þessum vanda sem stjórnmálaflokkur hefur lagt fram í aðdraganda kosninga 2013.

Tillögur Dögunar í efnahagsmálum:

Aðgerðir til lausnar skuldavandans; Landsfundur Dögunar

Tillaga til landsfundar Dögunar um húsnæðismál