Skarpur vinkill hjá Agli

Langlundargeðið

sem Egill Helgason lagði út af í pistli sínum í Silfrinu í dag - sunnudag - er sannarlega umræðu vert.  Hvers vegna sættum við okkur við hærri  vexti - hærri verðbólgu  - meiri óstöðugleika - hærra matvælaverð - dýrari skó og dýrari fatnað - en nokkrir aðrir?

Einhverra hluta vegna er verðlagning á landbúnaðarvörum dregin sérstaklega fram.   Stórveldið á matvörumarkaðnum - Bónus/Baugur - hefur ákveðið að leggja virkilega til atlögu við töllmúra og innflutningsvernd íslenska landbúnaðarkerfisins.     Skiljanlegt satt að segja að settar séu spurningar við innflutningsvernd gagnvart svínakjöti og kjúklingum.  Iðnframleiðsla í nágrannalöndum er ekki ólík framleiðslu stórbúa á Íslandi og byggir á sama fóðri - en hins vegar hlýtur það að valda áhyggjum að framleiðsluumhverfi Evrópu  er að flytjast til fjarlægari hluta álfunnar.   Jafnframt er að færast í vöxt að uppruni fóðurs og framleiðslu fer til gömlu Sovétsvæðanna - og ennþá lengra til N-Afríku og Asíu - þar sem matvælaöryggi og umgjörð framleiðslunnar er ekki af þeim standard sem við viljum sætta okkur við.  Danir og þjóðverjar hafa upplifað stórfellda fjölgun tilfella af smiti og hættulegri sýkingum - salmonella og kamfýlóbakter -  síðustu missiri.

Getum við ekki orðið sammála um að við viljum fyrst og fremst setja strangar kröfur um hollustu og upprunavottun framleiðslu?   Viljum við samþykkja innflutning á afgangsframleiðslu kjúklinga og svína - af undirboðsmörkuðum - frá SA-Evrópu? 

Ég held ekki.

Landbúnaðarvörur skipta orðið frekar litlu í heildarrekstri heimilisins

og sífellt lægra hlutfall útgjalda fer í mjólk og kjöt.  Það má hins vegar ekki verða til þess að við sættum okkur við sjálfdæmi framleiðenda í landbúnaði - t.d. með því að sameina í fyrirtæki allan mjólkuriðnaðinn í MS-risann - á sama tíma og innflutningur mjólkurvara er bönnuð og einokun MS er staðreynd.

Það er bensínið - fötin - vextirnir og skórnir sem eru dýrari á Íslandi

heldur en í Evrópu.

Það er verðtryggingin á pappírskrónunni og okur vextirnir sem eru fráleitu hlutirnir - og afhjúpa fáránleikann í myntkerfi dvergríkisins - sem hefur opnað fjármagnsflutninga - án fyrirvara.

Verðum að leysa þessa þversögn - og það eitt að ákveða í dag að leggja af fullum þunga í Evrópu-væðinguna mun hjálpa okkur að skapa stöðugleika á krónunni.....

meðan á aðlögunarferlinu stendur.

Afram Ingibjörg - og ekki láta gamla flokksarfinn frá Alþyðuflokknum og Alþýðubandalaginu rugla nýsköpunina.

NÝJA MIÐJAN OG TIL VINSTRI - ÞRIÐJA LEIÐIN - verðskuldar það.  Þú hefur sprotann - og verður að beita honum.    Þú ert í hlutverki álfkonunnar - og verður að nýta það - NÚNA.