Silfur Egils

Var í fyrsta holli Silfri Egils í gær ásamt Margréti Sverrisdóttur, Gísla Marteini og Margréti Frímannsdóttur.   Egill Helgason hefur lesið minn langhund með góðri athygli - og tengir mín skrif inn á sína síðu.   Nokkur árangur --- og innihaldsumræða sem það býður upp á!

Margrét Sverrisdóttir hamaðist hvað af tók við að afneita "rasisma" í Frjálslynda flokknum.  Gísli Marteinn verulega glaður yfir skrifum Össurar og þeim vanda sem hann og bandmenn hans valda Samfylkingunni - en því miður hvarf útkoma "Stelpunnar frá Stokkseyri" sem er saga Margrétar Frímannsdóttur - nokkuð í skuggann, kannski mest fyrir útkomu Kristins Gunnarssonar  í prófkjörinu í NV-kjördæmi.

Margrét Frímannsdóttir virkaði ekki glöð með greiningu mína á vanda Samfylkingarinnar.  Hún missti sig pínulítið í að gera lítið úr þessu sjónarmiði (og mér) af því að ég væri ekki í þingflokknum og þekkti ekki vinnuna innanfrá; - væri ekki búinn að vinna nógu lengi innan Samfylkingarinnar.  

Kannski er þetta einmitt vandinn sem ég var að benda á: Þingflokkurinn er ekki í góðu sambandi við almenna flokksmenn og hefur ekki brugðist eðlilega við því kalli um endurnýjun sem fólst í yfirgnæfandi kjöri Ingibjargar Sólrúnar sem formanns.   Slík endurnýjun þarf bæði að verða í gegn um fólk og ekki síður efnisleg í gegn um vinnubrögð og áherslur. 

Framtíðarhópar og samræðustjórnmál - gott mál en... 

Tilraunin til opinnar stefnumótunar með fjöldaþátttöku er orðin "súrnuð" af því að hún lenti inn í gamla klíkufarinu að lokum og þar slær í hana.   Það gengur ekki í nútímanum að láta vinnuplögg liggja - með því breytast slík gögn undrahratt í "sagnfræði" eða fornminjar.   Slík umræða þarf að vera lifandi og síkvik - og geta endurnýjast í gegn um þróun dagsins. Til þess þarf forystu.  Raunverulega forystu sem er upplýsandi og skilningsauðgandi.   ISG getur veitt slíka forystu, en ekki ein og sér hún þarf með sér og samhliða nýtt og gamalt fólk sem hefur burði á ólíkum málasviðum og er tilbúið til að leggja að mörkum.

Þarna hefur bandalagapólitíkin og gömlu klíkurnar því miður slegið skjaldborgina gegn breikkun og þroskun Samfylkingarinnar sem eins breiðs jafnaðarmannaflokks.

Gísli Marteinn réði sér varla fyrir "ánægju" með Össur og skrif hans.  Sagði hann "skemmtilegan og frábæran penna."  Um það deili ég ekki við hann - skrifin eru læsileg og það flæðir úr pennanum hjá kallinum.  Það er kannski vandinn; - hann gleymir sér í því að "skemmta  Sjálfstæðismönnum"  - líklega er þetta staðfesting á minni gagnrýni -  rétt eins og viðbrögð Margrétar Frímanns.

Nú þarf einhver/einhverjir  sem er bæði velviljaður Össuri og Samfylkingunni að taka sig til að leysa kallinn frá þessum kaleik.   Hann þarf hjálp til að stíga tímabær skref og við eigum auðvitað að þakka honum fyrir samfylgdina.

Margrét Frímannsdóttir á einnig og ekki síður þakkir skildar fyrir sinn hlut í pólitík og sinn hlut að því að Samfylkigin varð til.  Ég ætla svo sannarlega að lesa bókina hennar.  Hún á samt ekki síst þakkir og virðingu skilda fyrir að stíga út af sviðinu þegar þörf er á málefnalegri endurnýjun.  Að því leyti þekkir Margrét sinn vitjunartíma.   Flott hjá þér.  Það væri mikill fengur Margrét ef þú legðir að mörkum við að endurnýja málefnasóknina fyrir flokkinn - fremur en að ýta undir flokkadrættina - einmitt núna þegar þú ert að stíga út,  - þú getur orðið ennþá öflugri við þessar aðstæður en nokkru sinni fyrr.