Sérfræðingarnir sem grófu Jóhönnu Sigurðardóttur - pólitíska gröf

Verðtrygging lána  og sérfræðingarnir sem brugðust ráðherranum sínum.

(Birtist í Morgunblaðinu í desember 2008)

  Verðtrygging húsnæðislána: brugðust ráðgjafarnir ráðherranum? 

 

Á síðustu árum hefur Jóhanna Sigurðardóttir sýnt staðfestan vilja sinn til að afnema verðtryggingu húsnæðislána.  Á Alþingi árin 2003 – 2006 var hún fyrsti flutningsmaður þingsályktunar um það efni og málflutningur hennar og þeirra annarra þingmanna Samfylkingarinnar sem tjáðu sig um málið gaf flokksmönnum og kjósendum skýrt til kynna hver væri afstaða þeirra.  Svo víðtæk þátttaka þingmanna Samfylkingarinnar í tillöguflutningnum var næg staðfesting á því að flokkurinn væri þeirrar skoðunar að rétt væri að vinna að því af alvöru að afleggja þennan sjálfvirka mæli til hækkana á höfuðstól lána.  

 

Verðtrygging í almennum lánaviðskiptum einstaklinga er sér-íslenskt fyrirbæri. Í nokkrum öðrum OECD ríkjum þekkist verðtrygging ríkisskuldabréfa í takmörkuðum mæli.   Venjulega eru slík bréf samt með vexti til málamynda og gefnir hafa verið út takmarkaðir flokkar bréfa.   Í almennum fasteignaviðskiptum og viðskiptum með lán til menntunar innan OECD tíðkast almennt ekki að binda höfuðstólinn við verðhækkanavísitölu.

 

Á fyrstu dögum eftir að búið var að skella bönkunum skipaði ráðherra húsnæðismála “starfshóp um möguleg úrræði vegna verðtryggingar.  Væntanlega hafa margir álitið að umboð ráðherrans til starfshópsins mundi beina sjónum sérfræðinganna að því hvernig væri auðveldast og sanngjarnast að skala okkur út úr verðtryggingunni og leggja línur um það hvernig við mundum lifa við jafnvægi í heimilisrekstri með framtíðargjaldmiðil.

 

Það kom þess vegna mjög á óvart að ráðgjöf starfshópsins og veganesti til ráðherrans gengi útfrá því sem grundvallaratriði að EKKI væri ástæða til að stíga út úr verðtryggingunni – ekki einu sinni að frysta eða skerða vísitölumælinguna á meðan “kreppuleiðrétting” fasteignaverðs og gengis krónunnar gengi yfir.    Rökstuðningur ráðgjafanna virtist því miður eingöngu hafa beinst að því að leita leiða til að “fá fólk til að greiða” fullar vísitölubætur á húsnæðislánin.   Ekki er að sjá að starfshópurinn hafi sérstakar áhyggjur af því hvernig full vísitöluhækkun á námslánum fer með greiðslugetu og greiðsluvilja ungra fjölskyldna sem einnig hafa tekið húsnæðislán í verðtryggðu krónunni.

 

Hugmyndin um “greiðslujöfunarvísitölu,” sem veitir tímabundinn afslátt afborgana meðan launavísitalan dregst aftur úr verðtryggingarvísitölunni, er “vörn fyrir verðtrygginguna.”     Líklega mun þessi greiðslujöfnunarvísitala og heimild til frestunar á hluta verðbóta -  verða til þess að umtalsverður fjöldi fólks velur að fresta greiðslum.  Raunverulega vandamálið er samt hækkun höfuðstólsins – og í mörgum tilfellum hækkun langt umfram raunsætt verðmæti húseignar.   Hækkun höfuðstóls lánanna – mun ekki ganga til baka um fyrirséða framtíð þar sem neysluvísitalan er ekki tengd verðmæti og virkar í raun öfugt við gengi íslensku krónunnar (þ.e gengisfelling veldur hækkun höfuðstóls lána).  Með frestun hluta verðbótanna taka menn á sig aukna byrði til allrar framtíðar og hærri heildargreiðslur.  

 

Allir fasteignaeigendur  mæta auðvitað verðfalli eigna sinna – óháð skuldsetningu – og við lifum öll við gengisfall íslensku krónunnar, en fjármagnseigendur njóta sérstakrar verndar verðtryggingarinnar á meðan lántakendum er refsað tvöfalt.Þá er ótalinn vandi þeirra sem skulda námslán auk húsnæðislána.   Greiðslubyrðin þyngist og svo sérkennilegt sem það kann að virðast þá sér ríkisstjórnin ástæðu til þess að reikna með vaxtahækkun á námslánum unga fólksins – ofan á fulla verðtryggingu lánanna.

 

Skammtímavandi einstakra íbúðareigenda mun minnka, en langtímavandinn vex með því lagi sem greiðslujöfnunarleiðin býður upp á.  Það er auðvitað sjálfsagt fyrir langflesta sem skulda einhverjar fjárhæðir eða verulegt hlutfall í íbúðum sínum að sækja um frestun hluta afborgana.  Það er  þó einungis skynsamlegt í því trausti að næstu vikur verði nýttar til að endurmeta vísitölumælinguna, - eða alveg frá því að bankakrísan fór að fella gengi krónunnar og þangað til við erum komin í gegn um verðbólgukúfinn.    Með slíku má líta þannig á að þessi frestunarleið greiðslujöfnunarvísitölunnar gefi ríkisstjórn og Alþingi það tímarými sem nauðsynlegt er til að leggja verðtryggingu húsnæðislána og námslána endanlega að velli.

 

Ráðgjöf starfshópsins beindist því miður ekki að því að útfæra neina leið til að afnema verðtryggingu húsnæðislána eins og endurtekinn tillöguflutningur Jóhönnu Sigurðardóttur á Alþingi hefði sannarlega verðskuldað. Hins vegar sé ég t.d. í grein Þorkels Helgasonar í Mbl. 15. des. að myndræn framsetning hans á þróun vísitölu húsnæðisverð og neysluvísitölu snertir ekki á vandamálinu sem lætur skuldir vaxa ungu fólki yfir höfuð, en færir fjármagnseigendum sérstakar “skaðabætur” þannig að þeirra eignir verða ónæmar fyrir kreppuleiðréttingunni. Reyndar er uppsetning Þorkels í Mbl. beinlínis valin til að gera lítið úr hækkun vístölu meðan verðfall eigna verður á bilinu 30-50%.   

 

Því miður bendir ýmislegt til þess að tölulegar upplýsingar og meðferð og framsetning fleiri gagna hafi verið til þess fallin að villa um fyrir ráðherranum og fjölmiðlum.  Það er t.d. algerlega ósönn fullyrðing að “tap” Íbúðalánasjóðs og  lífeyrissjóðanna yrði allt að 240 milljarðar af því einu að frysta vísitöluna í 12 mánuði miðað við 1. júlí 2008 til sama tíma árið 2009.   Í fyrsta lagi mun jöfnuður Íbúðalánasjóðs vegna innlendra skuldbindinga með frystingu vísitölunnar verða í jafnvægi – en ekki valda tapi í rekstri sjóðsins.  Efnahagur lífeyrissjóðanna mun að sönnu lækka sem nemur uppsöfnuðum og greiddum verðbótum á höfuðstól sjóðfélagalána, en á móti kemur að lífeyrissjóðirnir geta vænt minni vanskila af sjóðfélagalánum og á sama tíma er ekki sjálfgefið að frysting vísitölunnar nái endilega til ríkisskuldabréfa sem væntanlega verða langfyrirferðarmest á innlendum skuldabréfamarkaði nokkur næstu missiri.

 

Greiðslujöfnunarvísitalan og misvísandi upplýsingar um reikningslegar forsendur og afleiðingar óhaminnar vísitölu húsnæðislán eru hinn sýnilegi afrakstur starfshópsins.  Hvort tveggja til varnar verðtryggingunni og óskertri vísitölumælingu næstu mánuði. 

 

 

Það er mitt mat að ráðgjafarnir hafi brugðist ráðherranum afar illa.  

(Nöfn einstaklinganna sem skipuðu starfshópinn vem vitnað er til: Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur og formaður Aþýðusambands Íslands, er formaður starfshópsins. Aðrir fulltrúar eru Þorkell Helgason stærðfræðingur, Vilborg Helga Júlíusdóttir hagfræðingur, Edda Rós Karlsdóttir hagfræðingur og Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, starfar með hópnum. 

- - og eru menn svo hissa þegar Gylfi og Sigríður Ingibjörg tjá sig um skuldastöðu heimilanna?)

Frumvarp og greinargerð