Samkeppnishæfni - veikleikar

Iðntæknistofnun dreif skýrslu World Economic Forum um samkeppnishæfni Íslands  í úgáfu.   Flott hjá þeim að koma skýrslunni í umræðuna um sama leyti og Michael Porter var hér að messa.   Michael Porter er einn allra hæst skrifaði sérfræðingur á sviði viðskiptaþróunar, nýsköpunar  og samkeppnishæfni og var með sérstaka smásjá á Íslandi í sínum fyrirlestri sem nálgast má efni frá á vef Iðntæknistofnunar

Það vekur sérstaka athygli mína að skýrslan sem ég vísa hér til og reyndar Porter líka segja okkur að veikleikar okkar Íslendinga liggi í skorti á nýsköpunar-umhverfi og frumkvæði - og þá um leið í því að menntun vinnuaflsins sé ekki nægilega öflug.   Við höfum nokku lengi haft ástæðu til að  takast á við það að mennta og endurþjálfa þann hóp fólks sem hefur litla eða enga starfsmenntun - enda er hlutfall þess hóps allt of hátt meðal vinnandi á Íslandi.   Þetta höfum við vanrækt lengi.  Einnig skortir á að hér sé ræktað umhverfi fyrir frumkvæði og nýsköpun - eða kennsla í skólum ýti undir slíka þróun.  Efnahagsstjórnin hefur líka beinlínis þvingað hátækni og nýsköpunarfyrirtækin úr landi síðustu missirin - til varanlegs tjóns frir framtíðarhorfur um efnahagslegar framfarir.  Menntakerfið hefur ekki verið ræktað eins og verðugt er.   Framhaldsskólar og háskólar á Íslandi fá minna fjármagn per nemenda en nokkurs staðar þekkist í okkar heimshluta - þrátt fyrir það að fjármögnun L'IN sé færð sem menntunarútgjöld.   Fyrir nokkru hrósaði menntamálaráðherra sér af því að framlög til grunnskólamenntunar á Íslandi væru með því hæsta í OECD.   Þegar grannt er skoðað þá er þetta nú ekki alveg nákvæmt hjá þeim þarna í OECD  því ekki er tekið tillit til þess að sveitarfélögin hafa síðust árin stofnað fasteignafélög um húsnæði grunnskóla og leikskóla og þannig fært fjármagnaskostnað til útgjalda - og sýnt stóraukin framlög - sem eru ekki að koma fram í meiri eða bættri þjónustu.  Auk þess eru Íslendingar frjósamari þjóð en nágrannaranir - og því hærra hlutfall þjóðarinnar á grunnskólaaldri heldur en tilfellið meðal þjóðanna hinum megin við Atlantshaf.  Við þyrftum því verulega hærri fjárframlög til að standa jafnfætis okkar næstu nágrönnum.  Hér er verk að vinna. 

Menntun er veikur hlekkur og þarf að bæta og stýra í ofurlítið nýja farvegi til að efla nýsköpun kraft og þróun.  Um leið og þeir sem eru verst settir á vinnumarkaðnum verðskulda endurnýjuð tækifæri.   Að því verðum við að keppa af öllu afli.  Þess vegna þarf Samfylkingin að komast í lykilstöðu við stjórnarmyndun að loknum kosningum og til að auka likurnar á góðum árangri í kosningunum næsta vor er mikilvægt að nýtt fólk veljist til forystu fyrir flokkinn í okkar landshluta.