Ég hef ákveðið að sækjast eftir 1. sætinu á lista Samfylkingarinnar við Alþingiskosningarnar 2007. Sú ákvörðun var tekin eftir að mér varð ljóst að það voru ekki bara fáeinir nánir vinir mínir og samstarfsfélagar sem vildu sjá endurnýjun á framboðslista SF í kjördæminu - heldur er raunveruleg eftirspurn á Akureyri og miklu víðar.
Fréttatilkynningin í heild
Benedikt Sigurðarson aðjúnkt sækist eftir 1.sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi. Eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum þá gefur Benedikt nú kost á sér til framboðs fyrir Samfylkinguna.
Benedikt er menntaður uppeldisfræðingur og kennari og gegndi um 12 ára skeið skólastjórastöðu við Barnaskóla Akureyrar (nú Brekkuskóla). Benedikt var leiðandi í þróunarstarfi og umræðu um skólamál sem og í félagsmálum skólastjóra.
Benedikt lauk meistaraprófi í stjórnun og stjórnsýslu skóla frá háskóla Bresku Kólumbíu í Vancouver í Kanada árið 1996. Frá árinu 1997 hefur hann starfað við Háskólann á Akureyri – fyrst hjá Rannsóknastofnun HA og síðan sem aðjúnkt við viðskiptadeild og kennaradeild þar sem hann kennir gæðastjórnun, stjórnun og skólaþróun. Benedikt hefur unnið að úttektum og ráðgjafarverkefnum – og einnig að rannsóknum á skólastarfi.
Benedikt hefur starfað mikið að málefnum innan íþróttahreyfingarinnar, setið í stjórn Sundsambands Íslands frá 1998 og verið formaður SSÍ frá 2000-2006. Hann hefur einnig unnið mikið starf innan samvinnuhreyfingarinnar, verið í stjórn Akureyrardeildar KEA og formaður þar 1998-2006, í stjórn KEA frá 2001 og formaður stjórnar KEA 2002-2006. Benedikt átti verulegan þátt í þeirri umbreytingu sem KEA hefur gengið í gegn um frá 1998 og hefur sérstaklega kynnt sér þá möguleika sem samvinnurekstur og rekstur sjálfseignarstofnana fela í sér í endursköpun samfélagsins.
Eiginkona Benedikts er Helga Sigurðardóttir grunnskólakennari og námsráðgjafi. Þau eiga tvær dætur, Þorgerði markaðsfulltrúa og MBA nema í Háskólanum í Reykjavík og Sigrúnu nemenda í MA.
“Mín áhugamál hafa oftast orðið útundan fyrir vinnuna og þessi formlegu verkefni,” segir Benedikt. “Ég hef mikinn áhuga á söng og leiklist og hef lengi sungið með Kór Akureyrarkirkju, en sundið hefur þó skipað stærstan sess mjög lengi; bæði morgunsundið – þar sem ég mæti daglega – og einnig störf fyrir Sundsambandið og sundhreyfinguna í landinu.”
Benedikt telur sig eiga erindi í pólitík einmitt núna. “Það er afar brýnt að fólk með margvíslega reynslu og viðhorf veljist til forystu fyrir stjórnmálaflokka – og það spillir heldur ekki að leiða saman bæði unga og eldri.”
“Samfylkingin er nýr flokkur og mikil þörf á að hefja sig upp fyrir gamla skiptingu milli þeirra hópa sem komu úr flokksfélögunum sem stóðu að Samfylkingunni í upphafi. Ég hef ekki tekið þátt í flokkslegu starfi í næstum því 20 ár en hef aflað mér annarrar reynslu.
Það er þónokkurt svigrúm á miðjunni þar sem Framsóknarflokkurinn hefur í verki yfirgefið allar hugmyndir um félagshyggju og hógværð í samskiptum við auðmagn og auðlindir. Sjálfstæðisflokkurinn er að setja met í skattpíningu almennings – og hyglir um leið þeim allra ríkustu. Samfylkingin ætlar sér að sækja nýja kjósendur og það gerist best með endurnýjun í forystusveitinni.”
Samfylkingin leggur áherslu á að stöðva um sinn frekari uppbyggingu á álverum og virkjanir þeim tengd – þar til jafnvægi kemst á í efnahagslífinu og búið er að skapa sátt við náttúruverndarsjónarmið.
“Þetta fellur vel að mínum sjónarmiðum,” segir Benedikt, “ég lít svo á að þarna þurfi að leggja grunn að varanlegri þjóðarsátt og það er hlutverk Samfylkingarinnar að leiða þá vinnu. Því miður hef ég kynnst því á síðustu nokkrum árum að mikilvæg verkefni og hagsmunamál á okkar nærsvæði eiga sér engan öflugan talsmann.” Það er t.d ekki í lagi að menntmálaráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn skuli næstum því óáreitt fá að stunda það sem ég kalla einelti gagnvart Háskólanum á Akureyri, Það er ekki heldur viðunandi að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er ekki lengur byggt upp og rekið sem fullkomið varasjúkrahús sem gæti tekist á við stóráföll á SV-horninu eða annars staðar og það er með öllu óviðunandi að Vaðlaheiðargöng og Akureyrarflugvöllur skuli ekki vera komin inn á neinar framkvæmdaáætlanir – þannig að Greið leið, sem er framkvæmdafélag heimamanna með KEA í fararbroddi, geti tekist á við framkvæmdina í samstarfi við sveitarfélög og aðra fjármögnunaraðila. Við heyrum líka að ríkisstjórnin byrjar á því að skera niður í vegagerð á NA-horninu og flughlað á Akureyri þegar brugðist er við þenslunni, eins og að það sé einhver þensla á okkar svæði.”