Ragna(rs)-rök og fleira

Það vekur athygli að Ragnar Árnason prófessor

heldur því fram að launamisrétti hafi ekki farið vaxandi síðustu 10 árin.   Hann leggur upp með gögn sem sýna tekjuþróun - eina og sér.

Ragnar reynir að láta líta út eins og hann sé að hrekja greiningar og niðurstöður frá collegum sínum Stefáni Ólafssyni og Þorvaldi Gylfasyni.    

Það hefur ekki verið deilt um að tekjur allra hafa hækkað frá 1995 -

Það er heldur ekki deiluefni að hagvöxturinn færir öllum ávinning - að minnsta kosti tímabundinn. 

Það eru hins vegar ákvarðanir ríkisstjórnar Davíðs/Halldórs og Geirs - og fjármálaráð Árna Matt

sem skapað hafa aukið misrétti - sama hvaða mælikvarða er beitt.

Skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun - sem leiðir til þess að láglaunafólkið ber aukna byrði.

Hátekjuskatturinn var lagður af  - og fjármagnstekjuskatturinn er aðeins 10%

og allir vita að það er einkum ríkt fólk og hátekjufólk sem nýtur þess að bera svo lágt skatthlutfall.  Venjulegt fólk borgar 36% af launum sínum.    Og sveitarfélögin fá ekki útsvar af fjármagnstekjum!

Lélegt Ragnar! - - -

--------------------------------------------

Svo baðst Kristján Þór Júlíusson afsökunar!  - hvað er í gangi?

-  eitthvað er ekki að gera sig hjá kallinum - er hann dottinn "úr karakter" eins og sagt er á leikhúsmáli?    Kosningabaráttan hjá honum hefur ekki náð neinu jákvæðu flugi ennþá  - þrátt fyrir "undirskriftir og skóflustungur" - eða hvað það nú er.  

Met það svo að það sé ekki gott fyrir okkur hér á Akureyri og í NA-kjördæmi - við þurfum jákvæðan takt í kring um alla okkar pólitík.

--------------------------------------------------

 Höskuldur Þór

getur sjálfsagt orðið ágætur pólitíkus - hann er amk. drengur góður eins og hann á kyn til.    Faðir hans Sr. Þórhallur Höskuldsson var brautryðjandi í því að skilgreina virkt hlutverk fyrir kirkjuna í þjóðmálum; - Þjóðmálanefnd - og allir sem honum kynntust vissu um afar ríka réttlætiskennd sóknarprestsins.    Vona að Höskuldur leggi rækt við félagshyggju-arfleifðina - það væri gott fyrir sjónarmið hinnar breiðu miðju og til vinstri.    Góð pólitík - bætir alla - líka þegar hún er rekin innan Framsóknarflokksins.

3.sætið á lista Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi er góð byrjun fyrir kosningastjórann frá því 2003.  Svo er hann frá Akureyri!!!!

Verst fyrir Höskuld að Halldór Ásgrímsson og samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn er búið að eyðileggja fylgisgrunn Framsóknar  - þannig að 3 sætið er afar ólíklegt þingsæti.    Spurningin er þá líklega  hvort Höskuldur getur  framkallað kraftaverk? - ......

Framboð Akureyringa?

Er ennþá ekki afskrifað  - ef ég skil rétt.  Ragnar Sverrisson hefur lýst stuðningi við okkur öll sem þreifuðum fyrir okkur í pólitíkinni - og höfum átt heimili og lagt upp frá Akureyri á þessu hausti.   Hins vegar kann að vera að sá vinkill hafi beinlínis unnið gegn sumum okkar - innan flokkanna.      Ekki munu miðju og vinstrimenn á Akureyri styðja Krstján Þór og kjósa Sjálfstæðisflokkinn.   Skoðanakannanir spá því að Lára Stefánsdóttir og Höskuldur Þór - séu ekki á dagskrá sem þingmenn og Hlynur Hallsson var látinn víkja fyrir "skemmtikrafti frá Ólafsfirði" - sem helst hefur unnið sér til frægðar að syngja tvíræða texta með áhafnarmeðlimum á Kleifaberginu.

Einn nágranni minn sem gjarna tekur sterkt til orða sagði mér á sunnudaginn að nú væri það Raggi sá eini sem hægt væri að setja traust sitt á.

Ég verð líklega að fara í JMJ - undir því yfirskini að kaupa mér buxur.  Þá heyri ég stemminguna hjá kaupmanninum.

-------------------------------------------

Framtíðar - landið  er atvinnustefna

- - - og lífshamingja okkar og barna okkar veltur á því hvaða sjónarmið verða ofan á og hvers konar ríkisstjórn verður mynduð í maí 2007.

Samfylkingin getur ekki reiknað með því að stefnumótunin Fagra Ísland nái eyrum og vinni trúnað meðal kjósenda - meðan stór hluti af þingflokknum og einstakir frambjóðendur - beinlínis tala gegn stefnumótuninni - strax þegar þeir koma út úr bænum.  Þeir sem mest láta fara fyrir sér - í miðlum hunsa stefnumótunina nær alveg og hafa ekki upp á neitt á bjóða - í nafni Samfylkingarinnar.

Ég hef kappkostað að leggja upp nýja atvinnustefnu - og trúi því að framtíðarhagvöxtur og heilbrigt og sjálfsbært efnahagslíf - þrífist og þróist einungis með því að breyta um stefnu:

Fjárfesta í markvisst í menntun og rannsóknum -

og hækka menntunarstig þjóðarinnar allrar - ekki síst á landsbyggðinni

Skapa hvetjandi umhverfi fyrir nýsköpun, hátækni og þekkingarþróun

m.a. í gegn um skattalegt hagræði og þróunarstyrki - um  leið og opinberir  aðilar koma til liðs með fjármögnun vaxtarfyrirtækja - og veðja á vaxtargetu sérhæfðrar fjármálaþjónustu.

Hvorugt ofantalið

getur skilað árangri í því brjálaða þenslu-umhverfi sem öfgafull álvæðing mun drífa áfram.

við verðum því að hemja álframkvæmdir og róa hagkerfið - ekki það að hætta við alla orkunýtingu - en setja í hóflegan farveg og skapa jafnvægi við náttúruverndar-sjónarmiðin

Við þurfum að skapa sátt - nýtt jafnvægi - þar sem glímt er við langtímamarkmið og jafnræði.

Atvinnustefna sem veðjar á þekkingarhagkerfi - í bland við sérhæfða þjónustu í hæsta gæðaflokki - og nýtir sér sértækar náttúruauðlindir til ferðaþjónustu og hágæðaumhverfis - er framtíðarsýn nýrrar félagshyggju og jafnaðar.   Skapandi jafnvægi - hinnar breiðu miðju og til vinstri - getur sótt sér fyrirmyndir til stjórnmála og orðræðu - systurhreyfinga í Evrópu og Ameríku.

Við getum líka litið til Írlands og Finnlands - og þeirra möguleika sem felast í því að setja stefnuna á Evrópusambands-aðild - með skýrum samningsmarkmiðum.  Þannig skapast forsendur til að aga krónuna og gefa merki um að við ætlum út úr hinu dvergsmáa - hagkerfi og inn í Evru-umhverfið - í fyrirsjáanlegri framtíð.

Okkar þriðja leið - þarf að verða valkostur fyrir meira en 30% Íslendinga - strax í vor.   Upplýsandi umræða  - sem menntar og veitir forystu - tekur okkur öll lengra - færir okkur FRAMTÍÐARSÝN er það sem þarf.  

Þarna hef ég boðist til að leggja mitt lóð ....... og veit að svo er um marga fleiri.    Prófkjörin er kannski meira útilokandi fyrir sjónarmið - heldur en til þess að breikka grunninn.   Samfylkingin verður ekki stór flokkur og þroskaður nema stíga út úr klíkuskapnum og fámennisveldi - út úr arfleifð gömlu klíkubræðranna úr Alþýðuflokki og öðrum smáflokkum.

Ingibjörg þarf að sækja sér lið af fleira og öflugra fólki en skipar marga framboðslistana.  Nú veltur á formanninum .... og handgengnu fólki - sem aldrei fyrr.

Kannski það sé kominn tími til að leita sameiningar allra yfir hina breiðu miðju og til vinstri.   Verður þá ekki til R-lista munstur?  

Ef Framsókn finnur félagshyggju-grunn sinn að nýju?  HVAÐ ÞÁ?

Ég hefði HELST kosið að Samfylkingin næði að sýna fram á að Framsóknarflokkurinn gæti sem best sameinast Sjálfstæðisflokknum - hægra megin við miðjuna - en hefðbundnir kjósendur Framsóknar og liðsmenn gæti gengið til liðs við Samfylkinguna - til framdráttar fyrir sjónarmið FÉLAGSHYGGJUNNAR