Ræningjar í bönkunum

 

Afar umhugsunarverð umfjöllun Kastljóss og viðtöl við Agnesi Arnarsdóttur og Tryggva Agnarsson.

Ekki dettur mér í hug að efast um frásagnir þeirra - enda búinn að ræða við verulegan fjölda fólks sem segir svipaðar sögur.

Allt frá fyrstu dögum eftir bankahrun var ég í hópi þeirra sem freistuðu þess að sannfæra rikisstjórnina og Alþingi um nauðsyn þess að frysta allar vísitölur fjármálakerfisins - - við föst gildi frá því fyrir hrun - og frysta um leið innistæður í bankakerfinu öllu.   Því miður var ekki á okkur hlustað . . enda spáði bæði  Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið því að "gengishrunið yrði tímabundið" og verðbólguskotið yrði gengið til baka fyrir það mesta með mars til maí 2009.

Auðvitað sáust engin merki þess þegar október 2008 var úti að neitt af fjármálaáfalli þjóðarinnar yrði tímabundið.  Á Borgarafundi í Háskólabíó 24. nóvember 2008 flutti ég ávarp  Þar brýndi ég stjórnvöld að grípa þegar í stað til róttækra aðgerða með frystingum vístalna og niðurfærslu á vísitöluyfirskoti verðtryggðra lána.   

Á þeim fundi leyfði ég mér að spá því að ef ekkert yrði að gert mundum við enda í þeirri stöðu að grípa þyrfti til allsherjar lagasetningar um skuldauppgjör - heimila og fyrirtækja - annars myndu hákarlar og fjármálaskrímsli ræna þjóðina verðmætum sínum.

Stjórnmálastéttin hlustar ekki og skilur ekki 

Nú eru senn liðin tvö ár með árangurslausri baráttu fjölmennra hópa sem hafa krafist skipulagðs inngrips stjórnvalda - til hlutfallslegrar og sanngjarnrar leiðréttingar á verðtryggingarhluta lána.    Árangurslaus barátta við ríkisstjór Jóhönnu og Steingríms - - með Gylfa og Árna Pál þeim við hlið - hefur staðfest fyrir þjóðinni að stjórnvöld í umboði Jafnaðarmanna og sósíalista - - hugsa fyrst um "líðan bankanna" og um það hvað fjármagnseigendum og kröfuhöfum virðist best líka.

Í millitíðinni hefur gengisviðmiðun lánasamninga verið dæmd ólögmæt í Hæstarétti - - og ráðherrarnir Gylfi, Steingrímur og Árni Páll - hótuð strax að almenningi yrði gerð aðför með lagasetningu.   FME og Seðlabankinn fóru strax af stað með miklu offorsi og hótuðu nánast bankahruni . . . og  birtu meira en illa rökstuddar tölur um það svokallað áfall sem fjármálakerfið og síðan ríkissjóður yrði fyrir ef dómur Hæstaréttar stæði óbættur fyrir bankana.

Þrýstingu á dómstólana 

Linnulaus óróður ráðherra, FME og Seðlabankans og valdamikilla aðila í fjármálakerfinu . . fyrir því að okurvextir Seðlabankans yrðu reiknaðir afturvirkt á hin ólögmætu lán.

Undir nánast ómennskum þrýstingi frá yfirvöldum fjármálakerfisins - og með liðsauka frá Alþjðagjaldeyrissjóðnum og vísan til matsfyritækja - - þá brast Hæstiréttur og dæmdi hinum brotlegu fjármálfyrirtækjum OFURBÆTUR . . sem jafnvel gera stöðu lántakendanna umtalsvert lakari en með réttum reikningi hinna ólögmætu lána.

Ég heyrði reyndan lögmann halda því fram að engin þekkt dæmi fyndust í réttarsögu Vesturlanda á árum nútíma-lýðræðis að brotlegum fjármálafyritækjum væru dæmdar sérstakar bætur sem gerðu fyrirtækin jafnsett eða jafnvel betur sett en á grundvelli brotsins.    Með slíku væri neytandanum beinlínis refsað fyrir að leita réttar síns fyrir dómstólum og hann dæmdur til að sitja uppi með meira tjón - og allt tjón af broti fjármálafyritækisins.

Auk þess yrði að líta til þess að fjármálafyrirtækin rækju leyfisskylda starfsemi og undir eftirliti fjármálayfirvalda.

Sami lögmaður viðurkenndi að Hæstiréttur hefði mögulega staðið frammi fyrir miklum vanda - - - vegna uppdigtaðra og óvandaðra talna frá fjármálayfirvöldum og ríkisstjórn - og rétturinn hefði þannig mögulega verið að úrskurða á þennan veg til að forða þjóðinni frá nýju fjármálahruni.  

Sama hvernig dómsniðurstaða í vaxtamáli hinna ólögmætu gengistryggðu bílalána hefur verið kreist fram í Hæstarétti - - það er algerleg bráðnauðsynegt að láta reyna á það fyrir EFTA dómstólnum og mögulega fyrir öðrum áfrýjunar-úrræðum hvort dómurinn yfirleitt stenst lög og neytendalöggjöf og tilskipanir ESB/EES.

Í boði okkar jafnaðarmanna og sósíalista 

Ráðherrar jafnaðarmanna og sósíalista hafa þverskallast í bráðum 20 mánuði við  að grípa inn í með skipulögðum aðgerðum í skuldamálum heimila og fyrirtækja.   Árni Páll Árnason hefur verið sviðsljósglaðasti jafnframt óskammfeilnastur ráðherranna (etv. fyrir utan Gylfa fv. viðskiptaráðherra).  

Hver rökleysan og fúskið hefur rekið aðra frá ríkisstjórnum Jóhönnu og Steingríms  að því er varðar tregðu til að viðurkenna raunverulegan forsendubrest verðtryggðra lána og viðurkenna að stökkbreyting lána heimilanna er á góðri leið með að draga allt neytendahagkerfið niður fyrir háskastig og setja þúsundir fjölskyldna varanlega á kaldan klaka - - þúsundir flyja land.

Blaðamannafundur Árna Páls og Más og Gunnars - -sem kom beint í kjölfar vaxtadóms Hæstaréttar - - staðfest öllu öðru fremur hinn háskalega og óheiðarlega þrýsting sem rétturinn hafði verið beittur - - og þann einbeitta ásetning Árna Páls og ríkisstjórnarinnar að reyna að koma í veg fyrir að dómsúrlausn Hæstaréttar gæti náð í gegn - og bjargað fyrirtækjum úr skuldakreppunni.  Málflutningur þremenninganna á þessum fundi er ein ömurlegasta birtingarmynd þeirrar niðurlægingar sem stjórnmál og stjórnsýslan í landinu hefur sýnt okkur frá því á hrundögunum.    Fundurinn staðfesti svo ekki verður um villst að þessir einstaklingar  - - allir þrír - hafa ekkert lært af þeim skelfingum sem gengið hafa yfir - og þeim staðfesta áfellisdómi yfir fúski og vondum stjórnmálum og siðferðislausri stjórnsýslu sem skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis teiknaði svo sterkt upp.

Það er á ábyrgð Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms Sigfússonar og alls þingliðs SF og VG að ræningjarnir ganga nú ljósum logum í skjóli bankanna - - skammta sjálfum sér og vinum sínum bestu bitana af eignum og fyrirtækjum.  Komast upp með það að þvinga varnarlausar fjölskyldur í þrot á meðan þeir gera "kyrrstöðusamninga" við vildarvini.

Skuldaleiðréttingar eru mögulegar

Það sem verra er þessi staða er á ábyrgð okkar flokksfélaga og kjósenda þessarra meirihlutaflokka á Alþingi.   Ennþá trúi ég því að það sé möguleiki til að snúa frá þeirri stefnu sem Steingrímur J. og Árni Páll eru harðastir málsvarar fyrir innan ríkisstjórnarinnar.  Til þess þurfa hins vegar þingmenn flokkanna og framlínufólk - að leggja af hænsnahegðun sína og hætta að eyða öllum kröftum og tíma í þá hefndargöngu og heiftarleið sem ráð Atla Gíslasonar hafa dregið menn inna á.

 Í Bandaríkjunum og Bretlandi gerist á háværari krafan um að skrifa niður ógreiðanlegar húsnæðisskuldir.  Ma. hefur Josep Stieglitz Nobelshagfræðingur margsinnis hamrað á því og hið íhaldsama blað The Economist setur fram þessa kröfu í nýlegu hefti.   Þessi ríki búa ekki við hinn sér-íslenska verðtryggingarvanda - - þar sem verðhrun og verðbólga margfalda þennan vanda og brenna upp eigin fé fjölskyldnanna með margföldum hraða.    Rétt að rifja það upp að Stieglitz afgreiddi verðtryggðu húsnæðislánin strax eftir hrun sem "toxic loans" sem merkir almennum orðum að þau eru ógreiðanlega eða óinnheimtanleg.  Slíka pappíra skrifa menn niður - jafnvel mjög langt - í siðmenntuðum löndum.

Allir sem litið hafa til erlendra rannsóknar og reynslu hafa mælt með því að við skuldakreppunni sé brugðist með "skuldaleiðréttingum" . . það er síðan mismunandi hvort menn hafa beinlínis þorað að leggja til íhutandi stjórnvaldsaðgerðir - með lagasetningum - - sem fela í sér gagnsætt uppgjör skulda á jafnræðisgrunni.

Jafnræði allra verður að virða 

Það er nánast óhugsandi að Árni Páll og þeir már og gunnar muni komst upp með að mismuna aðilum eftir duttlungakenndum línum - með það hver fær leiðréttingu á höfuðstól og hver ekki.

Mikilvægi þess að við verði brugðist vex með hverjum degi . . . . ránin hafa þegar orðið grímulaus - ósvífni fjármálakerfisins afhjúpast með hverjum óþverragjörningnum á fætur öðrum.   

Engin önnur leið er fær en hlutfallsleg leiðrétting lána - - og hvort hún á að vera 20% - 25% - eða  35% getur ekki legið ljóst fyrir fyrirfram - en á það verður að leggja mat með öflugri og samhæfðri greiningu.

Ráðherrarnir hafa fram að þessu bundið sig við - - -að það sé verið að "bjarga einhverjum einstaklingum" eða "bjarga einstökum fyrirtækjum" - - og sama er að segja um og spunahjörð Samfylkingarinnar.   þessi nálgun er óboðleg - hún undirstrikar einungis skilningsleysi þeirra á raunveruleikanum og þeirri alvöru sem um er að ræða í efnahagslegu tilliti.

Hlutfallsleg skuldaleiðrétting -er nánast eina mögulega nálgunin:

  • er sanngjörn og skilvirk aðgerð sem auðvelt er að keyra í gegn um reiknikerfi fjármálafyrirtækja
  • er auðvelt að hafa eftirlit með
  • virðir jafnræði og stöðvar duttlungakenndar ránsferðir bankanna
  • gefur fjölskyldum og stjórnendum fyrirtækja samningsstöðu gagnvart bönkunum
  • kemur neytendahagkerfinu aftur af stað
  • mun gera langflest smærri fyrirtæki rekstrarhæf
  • fækkar gjaldþrotum og dregur úr atvinnuleysi

Með slíkri öflugri aðgerð mætti bjarga samfélaginu frá langstæðum efnahagslegum harðindum.   Það mætti frelsa allan almenning úr klóm braskaranna og duttlungakennds ofbeldis af hálfu fjármálakerfisins.

 Við mundum bjarga þúsundum fjölskyldna frá niðurlægingu  - gjaldþrotum og varanlegu afkomuhruni.  Okkur gæti lánast að varðveita jákvæð uppeldisskilyrði þúsunda barna og vernda lífsgæði og samfélagslega auð sem fólginn er í samheldni sjálfbjarga samfélagsþegna.

Við mundum draga mjög úr fyrirséðum landflótta og flýta fyrir allri endurreist - bæði félagslega, efnahagslega og stjórnmálalega.

Vaknið borgarar - - rekum ræningjana af höndum okkar  og björgum framtíð barnanna.

það er ennþá hægt . . . og það er sannarlega kominn tími til að stjórnmálamenn geri eitthvað af viti . .