Nýr meirihluti; - óljósar og magrar áherslur


Nýr meirihluti í bæjarstjórn Akureyrar hefur kynnt áherslur sínar.   

 

Oddvitar B og S - þeir Logi Már og Guðmundur Baldvin eru strax í pínulitlum en augljósum vandræðum með skiptinguna "meirihluti-minnihluti"  þegar litið er til þeirra eigin orðræðu á síðasta kjörtímabili og í aðdraganda kosninga.

 

Einnig lentu þeir í vandræðalegri stöðu þegar talið vékst að hlutverki bæjarstjóra Eiríks Björns Björgvinssonar - og þeim samningi sem við hann var gerður í kjölfar bæjarstjórnarfundarins.   Hefur bæjarstjórinn sjálfstætt umboð til að koma fram sem talsmaður og málsvari Akureyrarbæjar og er hann talsmaður meirihluta bæjarstjórnarinnar?

 

Áherslulistinn sem fylgir er óljós og magur; - getur í flestu efni eins þýtt "allt eða ekki neitt" - og þá reynir á samstarfsvilja og árangursvilja bæjarfulltrúanna  - og ekki síður hvort bæjarstjórinn reynist fær um að koma að verkefninu með fagmennsku sem stjórnandi.

 

Eftir bæjarstjórnarfundinn hljótum við öll að hvetja Matthías Rögnvaldsson forseta bæjarstjórnar til að fá sér góðan þjálfara og leiðbeinanda til að leiða sig í gegn um formsatriðin og bæta framsögnina.

 

Engu að síður óska ég bæjarstjórninni velfarnaðar í öllum störfum í þágu Akureyrar og allra bæjarbúa.    Jafnframt er bæði skylt og rétt að ítreka vilja til að leggja að mörkum - á eigin þekkingarsviðum og í gegn um starfsvettvang - ef það mætti verða að gagni og færa okkur örlítið fram á veginn í jákvæðasta skilningi.

 

Áherslulistinn; 

Áherslur samstarfssamnings meirihlutans eru þessar:

 

Stjórnsýsla og fjármál

● Auka stöðugleika í rekstri bæjarins

● Gera langtímaáætlanir um rekstur og framkvæmdir sveitarfélagsins

● Efla íbúalýðræði

● Gera stjórnsýsluna faglegri og gegnsærri

● Framkvæma gæðakannanir á þjónustu bæjarins

● Einfalda og skýra verkferla

● Styðjast við kynjaða fjárhagsáætlunargerð

● Efla rafræn samskipti

Skólamál

● Efla skólastarf og nútímavæða nám og kennslu

● Auka virkni og áhrif foreldra í skólastarfi

● Auka fjármagn til innra starfs leik- og grunnskóla

● Efla sérfræðiþjónustu í leik- og grunnskólum

● Leggja áherslu á og auka hreyfingu og virkni

Velferðarmál

● Vera áfram leiðandi sveitarfélag í þróun og uppbyggingu velferðarþjónustu

● Gerður verður velferðarsamningur við ríkið

● Tryggja framboð dvalar- og hjúkrunarrýma

● Tryggja öruggt rekstrarfyrirkomulag Heilsugæslunnar á Akureyri

● Setja velferð barna og ungmenna í forgang

● Koma á fót Ungmennamiðstöð og efla geðheilbrigðisþjónustu ungs fólks

● Stuðla að aukinni lífsfyllingu eldri borgara

 

Atvinnumál

● Setja á stofn atvinnu- og nýsköpunarráð

● Efla frumkvöðlastarfsemi, m.a. með stofnun frumkvöðlaseturs og FabLab smiðju

● Efla markaðsrannsóknir og markaðssókn í ferðaþjónustu allt árið

● Stuðla að atvinnufrumkvæði á öllum sviðum

● Skapa umhverfi með það að markmiði að fjölga atvinnutækifærum

● Akureyrarbær verði eftirsóttur vinnuveitandi sem gott er að starfa hjá

● Tryggja næga raforku til atvinnuuppbyggingar

● Beita okkur fyrir öflugu millilandaflugi allt árið

● Marka skýra stefnu í málefnum Norðurslóða

 

Menningarmál

● Auka vægi lista og menningar í skólastarfi og uppeldi barna

● Efla lista- og menningarstarf

● Styðja við uppbyggingu menningar sem atvinnugrein

● Auka samstarf og samrekstur menningarstofnana

● Tengja betur menningarstofnanir og skólastarf

● Hefja undirbúning að stofnun listaskóla barna og unglinga

● Ljúka byggingu Sjónlistamiðstöðvar

 

Íþróttir og tómstundir

● Tengja betur saman starfsemi grunnskóla og íþróttafélaga

● Auka þátttöku fólks á öllum aldri í íþrótta- og tómstundastarfi

● Hækka frístundastyrk í 25 þúsund krónur og til 18 ára aldurs á kjörtímabilinu

● Veita frístundastyrk til eldri borgara

 

Mannréttinda og samfélagsmál

● Virkja betur ungmennaráð, öldungaráð og hverfisnefndir við ákvarðanatöku

● Eyða óútskýrðum launamun og fá jafnlaunavottun

● Setja jafnrétti í öndvegi

● Efla samfélagslega þátttöku Akureyringa af erlendum uppruna

● Efla forvarnarstarf

 

Skipulag, umhverfi og samgöngur

● Taka forystu meðal íslenskra sveitarfélaga í umhverfismálum

● Setja okkur mælanleg markmið í umhverfismálum

● Endurskoða aðalskipulag

● Gera innviði hagkvæmari og sjálfbærni að leiðarstefi við skipulagsgerð

● Virkja bæjarbúa til þátttöku í mótun skipulags

● Vinna áfram að uppbyggingu miðbæjarins

● Stórefla strætósamgöngur með einfaldara leiðakerfi

● Byggja umferðamiðstöð á kjörtímabilinu

● Bæta græn svæði í bænum í þágu íbúanna

● Standa vörð um öflugt innanlandsflug

● Gera úttekt á framtíðaríbúðaþörf

● Gera vélakost bæjarins vistvænni

 

19.júní 2014