Ný húsnæðisstefna - fyrir venjulegt fólk

Húsnæðisstefna;

Flokkurinn minn vill að horfið verði frá öfgafullri séreignarstefnu í húsnæðismálum.    Jafnframt vill flokkurinn undirstrika að mikilvægasti eignagrunnur samfélagsins og sparnaður felist í íbúðarhúsnæði. Þess vegna ber ríkisvaldinu að halda upp sérstökum opinberum aðgerðum í stefnumótun og skipulagsmálum og eiga frumkvæði að fjármögnun til að tryggja almenningi húsnæðisöryggi og koma í veg fyrir að spákaupmennska framkalli innistæðulausa bólumyndun sem leiða mundi óhjákvæmilega til verðhruns og eyðingar verðmæta.

Flokkurinn minn vill að opinberir aðilar viðurkenni rétt allra til heimilis og þar með húsnæðis sem grundvallarréttindi og beini stuðningi eftir skilvirkum leiðum til að útvega einstaklingum og fjölskyldum sem standa höllum fæti öruggt skjól.    Stefnumótun og aðgerðir opinberra aðila á því að beinast markvisst að því að lækka framkvæmdakostnað við byggingar íbúðarhúsnæðis og beita virku markaðsaðhaldi til að halda niðri húsnæðiskostnaði almennings.

Flokkurinn minn vill þess vegna stórauka framboð á leiguhúsnæði og búseturéttaríbúðum sem reknar eru á kostnaðarverði og án hagnaðarsjónarmiða.

Húsnæðisstuðningur ríkisins feli í sér annars vegar að ríkisvaldið tryggi með milligöngu sinni og beinum framlögum hagkvæma fjármögnun húsnæðis fyrir stúdenta, öryrkja og aldraða og um leið stóraukið framboð almennra leigu og búseturéttaríbúða.  Hins vegar tryggi ríkisvaldið samtímastuðning  til tekjulágra fjölskyldna/einstaklinga og þeirra sem bera þunga framfærslubyrði í gegn um endurskipulagðar húsnæðisbætur sem leysa af hólmi núverandi kerfi vaxtabóta og húsaleigubóta.

Flokkurinn minn vill beita sér fyrir því að skipulagsskilmálum og lögum verði breytt þannig að öll  ný þéttbýlishverfi skuli gera ráð fyrir að almennar leiguíbúðir og búseturéttaríbúðir reknar án hagnaðarsjónarmiða nemi allt að  25% af heildarfjölda íbúða, og þar geta sveitarfélög einnig veitt byggingar og rekstraraðilum ívilnanir  og skal slíkum kvöðum þinglýst á íbúðir og þær fjármagnaðar sérstaklega.  Jafnfram skapar ríkisvaldið lagaumgjörð til að gera samvinnufélögum/sjálfseignarfélögum og öðrum non-profit félögum kleift að reka húsnæðissparnaðarreikninga/séreignarreikninga fyrir einstaklinga með skattívilnun.

Til  að fjármagna húsnæði non-profit félaga leggur ríkið sérstakan „skyldusparnað“ á sjóðsöfnuð lífeyrissjóða  sem er verðtryggður en vaxtalaus og endurlánaður viðkomandi félögum í gegn um Íbúðalánasjóð með óverðtryggðum kjörum en á föstum vöxtum.

Flokkurinn minn  vill að Íbúðalánasjóður haldi  áfram  að fjármagna séreignarhúsnæði með hámarkslánsfjárhæð og lánshlutfalli, með viðmiðun af  „markaðskjörum“ og skal framvegis bjóða óverðtryggð lán með föstum eða breytilegum vöxtum eftir vali neytenda.   Heimildir til verðtryggingar fasteignaveðlána verði þrengdar þannig að sett verði þak á vexti slíkra lána við 2%.  Slíkum verðtryggðum lánum fasteignalánum fylgi samt undir engum kringumstæðum sjálfsábyrgð þannig að veðandlag standi eingöngu til tryggingar láninu. (Bannað verði að veita sjálfskuldaábyrgðir og lána veð . . . . )

Flokkurinn minn  vill að hagnaðardrifin leigufélög verði í framtíðinni ekki fjármögnuð í gegn um Íbúðalánasjóð og skulu framvegis sækja sína fjármögnun á almennan fjármálamarkað hjá bönkum og sparisjóðum og með sölu skuldabréfa á almennum markaði.