Nú er fengin niðurstaða

Til hamingju Kristján Möller

Þú færð skýrt umboð frá skráðum kjósendum í prófkjörinu.  Ég var hins vegar "rotaður í fyrstu lotu" ..........  Og allt óbreytt hjá Samfylkingunni í NA-kjördæmi.  En þetta var ekki síðasta keppnin.

 

Hér urðu sem sagt nokkur tíðindi - og auðvitað einkum þau að engu varð hróflað á framboðslistanum frá því síðast.

 Ástæðan fyrir því að ég bauð mig fram var einkum sú að ég áleit að það væri þörf fyrir endurnýjun hjá flokknum og það væri eftirspurn eftir skýrari framtíðarsýn og breyttum og nútímalegri áherslum.   Með endurnýjun tel ég það hefði orðið miklum mun auðveldar fyrir Samfylkinguna að festa sig í sessi sem trúverðugan og öflugan jafnaðarmannaflokk hér á landsbyggðinni.  

42% kjósenda í NA-kjördæmi búa á Akureyri og í því umhverfi sækir flokkurinn helst nýja kjósendur.  Kosningar 2003 gáfu Samfylkingunni óviðunandi útkomu hér og aðeins 2 þingmenn.  Þjóðarpúlsinn hjá Gallup/Capacent spáir flokknum í heild tapi - og missi fjögurra þingmanna.  Í NA-kjördæmi þarf því að verða umsnúningur til að sama áhöfn geti sótt þann stuðning sem þarf til að veita Sjálfstæðisflokknum einhverja keppni.  

Ég er auðvitað ekki ánægður og eins og ég hef áður skrifað þá hefur umgjörð þessa prófkjörs hér í NA-kjördæmi reynst "áskorendunum" meira en mótdræg.   Af því verður flokkurinn nú að læra - því trúverðugleiki er í húfi.

Ég óska Samfylkingunni góðs gengis í kosningunum framundan.  Meira síðar.