Mývetningur villist til Akureyrar

Síðdegið kemur oft á óvart.  Á leið heim í dag ók ég venjulega leið - - út frá Kaupvangsstræti og frá Torfunefinu og áleiðis að Höffnersbryggju.   Var ekki kominn nema hálfa leiðina þegar ég tók eftir því að húsandarsteggur hvimaði óöruggur við fjöruborðið.  Ég brást þannig við að ég fékk óðar samúðartilfinningu með þessum ókunna gesti, sem ekki var hagvanur í bænum.   Mér fannst ég bera skyldur gagnvart þessum Mývetningi sem hafði greinilega villst af  leið - - og ég orðinn heimamaður.   Ég brá lykkju á leiðina – ók inn á Leiruveg og yfir brúna, og sá þar hóp af hávellum og tjalda og stelka . . . stokkendur og máva og meira að segja skúfandarstegg.   Sneri við aftur og lagði áleiðis til baka að kanna málið nánar um leið og ég reyndi að finna símanúmer hjá fuglasérfræðingum - - Gunnlaugi Péturssyni verkfræðingi, og  svo Jóni Mag og Sverri Thorst . .

Kominn til baka á Torfunefsbryggjuna synti húsandarsteggurinn ráðvilltur í áttina að Húna II.   Mér leist ekki alveg á, fór út með símann og byrjaði að mynda . . . . og heyrði þá fyrir aftan mig; “ við erum búin að taka nærmyndir og tilkynna skráningu á þessum mývetningi” . . var þar kominn minn fyrrum kollega Jón Magnússon tittlingaskelfir af Raufarhöfn ásamt sinni ágætu konu.

Skiptumst við á nokkrum orðum um húsendur og þeirra þekktu ”villu til Akureyrar” . .og skráðar heimsóknir.    Það er ekkert að orðlengja það að mér leið strax betur fyrir hönd húsandarsteggsins og annarra Mývetninga sem villast til Akureyrar . . .

 

. . svona er síðdegið stundum skrítið . . .