Mynd

 

Mynd

 

Húsblakkar ærnar snúa rassi í krossinn sem einmana stendur upp úr snjó. Birtan er rétt yfir rökkurmáli;

"Helvíti eru þær gular í framan, líka þessi kollótta;"- segir hann, eins og annars hugar.

"Þetta eru ekki mínar ær;", svarar hinn, eins og það skipti endilega máli.

Svo þegja þeir báðir . . .

Þeir sitja í bílnum við vegbrúnina í hríðarhraglandanum.   Vita ekki alveg hvað á að segja.  Tveir menn sem hafa orðið eins og dálítið viðskila.    Hittast einungis örsjaldan núorðið og þá helst við jarðarfarir í sveitinni.   

„Ég man hvað það breyttist mikið þegar við fengum grindur í húsin, - og vetrarrúningurinn.   Þetta varð allt annað líf,-  sérstaklega á sauðburðinum.“ 

Segir hann, og gleymir sér augnablik.

„Já, það var nú verst hvað grindurnar slitnuðu andskoti fljótt og svo einlægt voru lömbin að fótbrotna.   Það var alltof dýrt að endurnýja svo ég er bara með á taði.   Þeir stálu líka af manni ullinni svo það borgar sig ekki lengur að rýja.“

Forvitnin er vakin og hann heldur áfram að rifja upp.

„Ertu ennþá með allt tvílemt og þrílembt á vorin?“

Hann fær svarið eins og það hafi verið undirbúið;

„Ja, það er alltaf slæðingur, verst að ég nenni ekki orðið að venja undir einlemburnar -  og ég  hef aldrei getað komið mér í að  taka skinn af dauðum lömbum, - pabbi gerði það alltaf.“

 „Þeir eru komnir með ótrúlega tækni hér út á bæjum, -  telja fóstrin og sortera í krærnar . . .  og eru svo bara tilbúnir með þrílembing að venja á einlemburnar.    Segja það spari mannskap.   

Maður var nú alltaf einn í þessu hér á árunum.“

Bólusetningar á vorin – í páskafríinu – voru fastir liðir í minningunni, næstum eins og inflúensan sem gekk í skólanum.   Allir köstuðust niður með hita og óráði, nema hann.   

Og svo endalaust að moka heyi og flytja inn -  áður en súgþurrkunin var sett í nýjuhlöðuna.    Alltaf var samt skemmtilegast að gefa votheyið -  og syngja í votheysgryfjunni þegar hann var einn -  ekkert ryk og laus við hnerrann -  og það tók svo vel undir í gryfjunni þegar fór að koma neðar.

„Ég vil að mínar ær verði bjartar í framan og almennilega hvít á þeim ullin, - mér leiðist alltaf þessir helvítis gulu og óhreinu litir, -  nokkrar gráar og botnóttar kannski – og svo mundi ekki spilla að eiga almennilegan  forystusauð til þess að tala við í húsunum, - svona eins og Skalla,  þann stóra með krúnuna; mannstu ekki eftir honum?“

Hann situr undir stýrinu og lítur í spegilinn og sér að mokstursbíllinn kemur að Sunnan – á fullri ferð.     Rétt lyftir tönninni og smeygir sér framhjá – og dregur ekkert úr hraðanum.

„Djöfull keyra þeir -  þessir.“  Segir hinn; -  og vill greinilega ekkert taka þátt í draumum þess burtflutta.    

Það verður hvort sem er aldrei neitt úr þessum bollaleggingum hans -  sem hann hefur heyrt margsinnis áður.   Þeir vita heldur ekki hvað þetta er orðið erfitt og mikið andskotans basl; þeir þarna fyrir Sunnan.