Meira um stemminguna og Bensa

 

17. mars 2010 

Morguninn var dökkur og dimmt yfir, slydda og rigning með þokunni.    Ég fór til sjúkraþjálfarans og hann var ekkert að skafa af því; - ég fann til og beit saman tönnum þannig að ég verð líklega að fara til Bessa litla frá Skarði og biðja hann um að draga jaxlana hálfa upp aftur.   Náði engri stemmingu fyrr en ég var búinn að fá mér Parkódín Forte og rauðvínsglas.   Hristi af mér smámunina

Görótt þokan grúfir yfir,

gránar dagur hver,

Óháð veðri ástin lifir,

inni´í sjálfum mér.

. . . . . . .

 og í gær . . .

16. mars

Við frú Helga leiddumst út í morguninn - sem ´fagnaði okkur með mildu veðri og birtu;

Gola á vanga gælir hlý,

gleymist frost á vetri.

Ástin vakir alltaf ný,

aldrei verið betri.

 

Og þessi dagur var góður eins og allir dagar geta verið - - ef maður elskar og hugsar framávið.