Kveðja fuglanna til Þórhildar móðursystur minnar

Síðastliðinn föstudag var logn á Pollinum - eins og svo oft á vetri.   Það var grátt í himinninn en birtan var í sjávarfletinum.   Meðfram fjörunni fyrir framan Leikhúsið og innfyrir Höefnersbryggjuna voru fáeinir hópar fugla.

Sérstaklega staðnæmdist athyglin mín við hávelluhóp sem damlaði þar í eigin andagt með rósömu yfirbragði.   Vetrarbúningur hávellunnar er markaður skörpum litaskilum og langar stélfjaðrir steggjanna eru giska áberandi.   

Svo voru þarna líka nokkrar toppendur og gulandapar.  Lengra frá voru æðarfuglar sem köfuðu - - greinilega í æti.

 Þessi vetrarstemming með fuglunum við Pollinn fyllti mig einhverri angurværð  - - enda var ég lagður af stað með Helgu minni til þess að flytja Þórhildi frænku mína í sína hinstu ferð frá Húsavík og í Skútustaðakirkju.

 Þórhildur Benediktsdóttir f.1.5.1922 d.14.1.2012

Jarðarförin fór fram 21.janúar 2012.

Þar flutti ég henni stutta kveðju fyrir hönd "Fjölskyldunnar á Norðurbúinu á Grænavatni."

Við Sellandafjall: e. Davíð Stefánsson

Við Sellandafjall (1947)

Í Sellönd komum við síðla dags.

Við Svartá reistum við tjöld,

Og það voru ljóð og leyndarmál

í loftinu þetta kvöld.

Að baki var eyðimörk apalgrá

Og örstutt niður í sveit.

Aldrei bauð hún mér faðm sinn fyrr

Svo fögur og mikilleit.

 

Í vatninu undir sól að sjá,

var sindrandi gull og raf.

Fjöllin risu í töfrandi tign,

á túninu bærinn svaf.

Um dranga og mýrar völl og voga

vafðist hið mjúka þel,

og það var líka auðséð á öllu,

að alla dreymdi vel.

 

Hver er hann, þessi sefjandi seiður,

er sættir við lítil kjör?

Geta það verið eyjar og andir

og egg og reyður og stör?

Hér er vargur og vetrarharka

og veiðin stopul og treg.

Það hlýtur að vera hlýrra að búa

í húsi við Laugaveg.

 

Ég minnist bóndans sem bjó á næsta

bæ við Ódáðahraun,

stórgerður sonur mikillar móður

og maður í sjón og raun.

Í hrjúfum svipnum var barnsleg blíða

og brennandi frelsisþrá,

en þarna gekk hann á hólm við heiminn

og hraunin öskugrá.

 

Annar er bóndi á bökkum vatnsins

með brunann á aðra hönd.

Ungur sté hann á knör og komst

í kynni við heitari lönd,

en þar átti hvorki hugurinn heima

né hjartað sín fornu vé.

Hann kaus sér heldur kjarrið og mosann

en konur og pálmatré.

 

Hver er sá máttur, sem huggan heillar

til heimkynna nótt og dag?

Bláfjallaseiðurinn, bylgjuhvíslið

og barnsins hjartalag? –

Árla morguns er ekið heim

og opnaðar gamlar dyr.

Til einnar nætur er tjaldi tyllt, -

en tindurinn stendur kyr.

 

 

Góðu vinir!

Fyrir hönd okkar af Norðurbúinu á Grænavatni tala ég til ykkar fáeinum orðum.

Við erum hér saman komin til að kveðja Þórhildi Benediktsdóttur eða hana Hillu eins og við heimafólkið kölluðum hana venjulega.  

Það var hennar ósk að við hefðum sem minnst um - - af trúarlegum formlegheitum  - - við þessa kveðjustund.  

Þið elstu sem hér eruð og sem eruð næst henni í aldri munið kannski þá daga þegar hún ung að árum  fór í Menntaskólann á Akureyri og Húsmæðraskólann og vann meðal annars með Þuru í Garði á Akureyri.     Einhver rósrauður og örlítið rómantískur bjarmi þeirra minninga entist henni sjálfri alveg fram á síðustu daga.   Eitthvað leyndist í þeim minningum sem við vissum að hún deildi ekki með hverjum sem var.   

Í því fólst um leið eftirsjá – vegna þess sem ekki varð meira úr - - og mér finnst eins og að Hilla hafi alltaf átt sér draum um að ferðast til fjarlægra landa og kanna stórborgirnar og tískuheiminn

Þegar fyrst Kristján mágur hennar og síðan afi Bensi féllu frá leit hún svo á að hennar hlutverk væri að vinna heimilinu og sinna bústörfum á Grænavatni.    Því helgaði hún sína krafta alla tíð.   Við vissum að heilsa hennar var tímunum saman ekki sterk - - - og suma daga gekk hún til verka með allt annað en léttu yfirbragði.

Aðra daga - - þegar amstrinu var ýtt til hliðar og góða vini bar að garði – þá hlógu allar „kellingar“ eins og við kölluðum þær ömmu og  allar systur – þannig að þær táruðust – og einstaka sinnum tókst okkur strákum jafnvel að finna upp á svo velheppnuðum hrekkjum eða skemmtisögum að öllum fyrirvörum sleppti.

Mér er sérstaklega í barnsminni sú vinna sem Hilla - - ásamt þeim Óla á Skútustöðum og líklega Einari á Kálfaströnd öðrum fremur  - - lögðu að mörkum á árunum 1957-1959 við að endurskrá og hreinsa upp Lestrarfélag Mývetninga í tilefni af 100 ára afmæli félagsins 1958.    Félaginu var haldið veglegt samsæti í Skjólbrekku en einkum og sérstaklega beindist vinnan að því að undirbúa sig fyrir að bækurnar flyttu í varanlegt húsnæði – í nýja skólann sem var þá í undirbúningi - - - og stóra suðurstofan/bókaherbergið átti að taka við.

En ekki flutti nú bókasafnið - - hvorki 1962-63-64- . . eða 69 . . þar til  að lokum „Lestrarfélaginu“ bókunum -  var bjargað úr gömu Bókhlöðunni á Skútustöðum í kjallarann á okkar húsi heima á Grænavatni.  Þar annaðist Þórhildur (eins og hún hét í því hlutverki) safnið og tók á móti lesendum og fastagestum með reglubundnum hætti - - um árabil - - eða allt þar til að safnið flutti í Skjólbrekku.   Um nokkurn  tíma sinnti hún safninu í Skjólbrekku – eða langleiðina þar til  Mývetningar voru eiginlega komnir að þeirri niðurstöðu að tæplega væri fært að  halda áfram opnu bókasafni fyrir almenning.

Við eldri heimamenn á Grænavatni minnumst hennar þó einkum við búsýsluna – og alveg sérstaklega við að annast kýrnar.  Kýrnar hennar Hillu sem ekki voru reknar til beitar heldur á endanum leiddar eða gengið á undan þeim síðustu.   Í gamla-fjósinu var gengið hægt um - - - og  þar skyldi allt vera með svipuðu sniði og áður  - - til síðasta dags við kúabúskapinn á Norðurbúi.     

Um tíma lagði Hilla og þær systur með eftirtektarverðum hætti til kynbóta mjólkurkúa og til starfsemi Nautgriparæktarfélagsins eins og fræðast  má um þegar menn skoða ættleggi þeirrar þjóðsagnakenndu ættmóður íslenskra kúa - Huppu frá Kluftum með  - viðkomu kynbótagripsins Suðra á Grænavatni.

Og sá sem varð þeirrar gæfu aðnjótandi á barnsaldri – eða á frumbýlingsárum – að fá gulrætur úr Ný-húsgarðinum hennar Hillu -  gleymir ekki því bragði - – og hestastrákar geta jafnvel rifjað upp þá hrollkenndu nautn sem fylgdi því stöku sinnum að fækka þessum gulrótum í skjóli haustmyrkursins.

Síðustu árin dvaldi Hilla á Öldrunardeild Heilbrigðisstofnunar á Húsavík.   Þar naut hún umönnunar – en hafði um leið skoðanir á því hvers hún þarfnaðist.    Hún hélt minni og réði við dagleg samskipti að mestu fram á síðustu daga - - þrátt fyrir að nýrun væru biluð og andlega og líkamlega þrekið löngum takmarkað.  

Hilla var svo heppin að síðustu árin deildi hún herbergi með Guðfinnu á Knútsstöðum - - sem var einlægt jákvæð og hress í bragði - - fyrir þann félagsskap erum við sérstaklega þakklát Guðfinnu.    

Við þökkum góðu starfsfólki Heilbrigðisstofnunar  fyrir umönnun hennar  og vinsamlegt viðmót.

Sérstaklega leyfi ég mér að þakka elskulegri tengdamóður minni  Kolbrúnu Bjarnadóttur fyrir hennar reglubundnu heimsóknir til Hillu meira en 2 síðustu árin hennar þarna á Öldrunardeildinni.

Sigrún lang-yngsta systir á Grænavatni –  er ein eftirlifandi fjögurra dætra Sollu og Bensa - hún er víst ekkert unglamb lengur – við af yngri kynslóðum heiðrum hana alveg sérstaklega og höfum ástæðu til að segja ykkur hinum frá því hvað við elskum hana ótrúlega mikið.

Með þessu erindi Jóhannesar úr Kötlum sem var eitt af eftirlætisskáldunum hennar  set ég minn punkt við þessa kveðju til Hillu:

Blessi þig blómjörð,

blessi þig útsær,

blessi þig heiður himinn!

Elski þig alheimur,

eilífð þig geymi,

signi þig sjálfur Guð.

Góðu vinir – við heilsumst og  kveðjumst og hér skilja leiðir. 

Þórhildur á Grænavatni er komin hingað í Skútustaði í hinsta sinn – til fundar við eilífðina. 

Héðan er útsýnin fegurst til Bláfjalls og Sellandafjalls og suður á jökla -  og til Grænavatns - - og hér má heyra fuglasöng allra árstíða í gegn um skarkala tímans.

Að lokinni athöfn biðjum við ykkur að þiggja veitingar í Hótel Gíg . . .

Hafið öll þökk fyrir að koma hingað til þess að kveðja Hillu frænku