Klofin þjóð

Tvö hagkerfi - Tvær þjóðir á Íslandi  

Síðustu missirin hefur orðið afar stórstíg breyting á efnahagskerfinu á Íslandi.  Þenslan er keyrð með risaframkvæmdum og lánsfé og verðbólgan veður áfram.  Vextir eru hækkaðir með nokkurra vikna millibili og eftir niðursveiflu í genginu hefur krónan rokið aftur upp (samt niður síðustu daga).   Gengi er samt ennþá hátt og vextir plús verðtrygging á Íslandi langt fyrir ofan önnur þekkt met úr samanlagðri verðbólgusögu Vesturlanda.  Kaupmáttur hinna betur megandi hefur aukist verulega – en fátækari hóparnir eru skildir eftir með reykinn af réttunum einan – en aukna skattbyrði og aukinn kostnað af lyfjum og læknishjálp.

Hvað var að gerast 

Peningakerfið og flutningur fjármagns út og inn úr hagkerfinu eru frjálsir og erlendir fjármálamenn spá í útgáfu krónubréfa með íslenskum vöxtum – sem hækkar gengi pappírskrónunnar íslensku.   Risaframkvæmdir hafa verið niðurgreiddar gegn um hágengið og stórfyrirtækið  Impregilio vinnur sitt verk í skugga af undirboðum erlendra starfsmannaleiga og glæframanna.    Kannski verður Kárahnjúkadæmið og Álverið á Reyðarfirði efnahagslega verjandi þegar upp verður staðið – en líklega verða ruðningsáhrifin aldrei fyrirgefin - og hallinn gagnvart náttúrunni og þau átök  sem framkvæmdinni hafa fylgt  verða seint eða aldrei bætt að fullu.   Spennan milli sjónarmiða hverfur seint eftir að öfgasinnuð framkvæmdafrekja Landsvirkjunar-aflanna og Framsóknarflokksins hefur vaðið yfir.   Rödd hófsemda og jafnvægisleitar  - og sanngirni í umræðunni  - hefur aftur og aftur verið barin niður.   Framsóknarmenn hafa yfirgefið sína klassísku kjósendur og sjónarmið miðju og félagshyggju hafa ekki náð að breiða sig yfir málefnasviðið.   Þarna er hið nýja land nútímalegrar jafnaðarstefnu sem hentar venjulegu fólki  - sem hefur upplýsta afstöðu og vill búa við þokkalegt svigrúm til að njóta lífsgæða til framtíðar. 

Stórfelld og umdeilanleg einkavæðing fjármálastofnana – og síðan önnur etv. ennþá vafasamari einkavinavæðing – sem nú er fylgt eftir með öfgafullri hlutafélagavæðingu -  eru afmælisgjafir sem nýfrjálshyggja Sjálfstæðisflokksins notar Framsóknarflokkinn til að gefa þeim sem eiga fjármagnið.   Skattfrelsi og fríðindi fjármagnseigenda kallast á við – íþyngjandi skerðingar barnabóta og elli- og örorkulífeyrisþega.    Fátækt barna og hörmulegur aðbúnaður aldraðra sem missa heilsuna eru undarlegar þversagnir þeirra stjórnmála sem hampa stöðugt og endurtekið meðaltalsútreikningum sem sýna vaxandi kaupmátt.    Þessi kaupmáttaraukning hefur komið misjafnt niður – og fer framhjá þeim sem sannarlega þörfnuðust hennar helst.

Þetta er auðvitað arfur Friedmans við andlát hans og 30 árum eftir að Nóbelinn hitti hann.  

 

Íslenskir vextir – erlendir vextir

Þegar fjármálastofnanir kynna horfurnar til 2016 þá liggja fyrir tvær mismunandi spákúrvur; 

  • Önnur kúrvan gerir ráð fyrir tveimur til þremur álverum – í ákvörðun innan skamms tíma.   Hún gerir ráð fyrir hágengi og áframhaldandi einhverjum skorti á stöðugleika á vöxtum – jafnframt  viðvarandi verðbólgu í rekstrarskilyrðum heimila og atvinnugreina sem fjármagna sig innanlands. 
  • Hin spákúrfan fer miklu lægra;  - gerir ráð fyrir að engar stærri álversbyggingar og tilheyrandi framkvæmdir verði ákveðnar á næstu 2-3 árum.   Þessi spá gerir ráð fyrir verulegri hjöðnun og þá um leið takmörkuðum hagvexti.   Jafnvægisleitni getur orðið hluti af þessarri leið – en sennilega alls ekki sársaukalaus þar sem atvinnulífið hefur ekki verið byggt upp til að standa undir neinni markvissri nýsköpun og þekkingariðnaði sem gæti vaxið nógu hratt inn í það rými sem þannig myndaðist.  (Það gæti samt  alveg hiklaust verið mögulegt að leggja í að fjármagna slíka sjálfbærni með erlendum lánum.)
 

Fjármálastofnanir reikna miklu frekar með því að leið þenslunnar verði ofan á – og menn virðast gefa sér að ekki verði snúið af braut álvæðingar  - með tilheyrandi ruðningsáhrifum sem draga kraftinn úr afgangnum af landsbyggðinni.     Hágengi og háir vextir innanlands – með verðtryggingu pappírskrónunnar – leiða til þess að venjulegt fólk blæðir fyrir þensluna með aukinni fjármagnsbyrði af húsnæði og námslánum.   Með sama hætti ströggla útflutningsgreinar – ekki síst ferðaþjónustan undan hágenginu.  Atvinnugreinar sem eru illa fjármagnaðar – og hafa búið við langvarandi erfiðleika – eins og samkeppnisiðnaður og matvælavinnsla – bera okurvexti.     Bankarnir mæla með því að öll fyrirtæki sem geta sæki sér hluta af lánsfjármögnun í erlendar myntir – þannig sparast ótrúlegur vaxtamunur og áhættan virðist hófleg mtt. rekstrar. Samtök Atvinnulífsins færa okkur þær fréttir að sífellt fleiri stöndug fyrirtæki fjármagni sig í erlendri mynt – og geri upp í Evrum og greiði laun í erlendri mynt áður en við vitum af.   

Evrópuhagkerfi á Íslandi

Ágætur vinur minn sem starfar hjá einum af stóru bönkunum fullyrðir við mig að verði álvæðingin og þensluspáin ofan á þá muni öll stöndugri fyrirtækin sækja fjármögnun sína í erlenda mynt  - og jafnframt gera upp í erlendri mynt (Evrum) innan tveggja ára.   Þannig sæki þau sér stöðugleika sem Íslenska krónan er ekki fær um að bjóða.   Á sama hátt muni venjulegt fólk sitja uppi með langvarandi verðbólgu – með ofur-verðtryggingunni – sem leggur ferlegan og viðvarandi greiðsluþunga á barnafjölskyldurnar.    Þar sem ég þekki rekstrarskilyrði atvinnugreina hér á landsbyggðinni þá tel ég alveg ljóst að það eru afar fá fyrirtæki í ferðaþjónustu og í tengslum við sjávarsíðuna og landbúnaðinn – sem verða fær um að sækja sér þetta eftirsótta jafnvægi.   Svokallaður samkeppnisiðnaður verður ekki burðugur.  

 

Þannig að eftir stendur;

§         Leið álvæðingarinnar og þenslunnar felur í sér að alger klofningur verður milli þeirra fyrirtækja annars vegar sem sækja sér Evrópukjörin og umhverfi stöðugleikans og gera upp í Evrum  og hinna fyrirtækjanna sem eru bundin við Íslensku verðtryggðu pappírskrónuna.

§         Leið álvæðingarinnar og þenslunnar  skilur venjulegar fjölskyldur sem hafa fjármagnað sín húnæðiskaup innanlands – hjá Íbúðalánasjóði eða hjá bönkunum – eftir með óeðlilegan kostnað af verðtryggingunni og vaxtamun við Evrópu.

§         Leið álvæðingarinnar felur í sér að landsbyggðarsvæðin  - sem ekki munu sjá bein þensluáhrif af álvæðingu og stórframkvæmdum – munu upplifa varanlega erfiðleika og samdrátt í atvinnulífi.  Þau svæði munu breytast undrahratt í  allsherjar “ghettó” innflytjenda sem taka lágmarkslaun eða undirbjóða markaðslaun – að hluta mannað skammtíma-gistiverkafólki.   Sjálfsbærni atvinnulífsins og eðlilegt umhverfi opinberrar þjónustu mun fjara út – og standardinn lækkar á öllum sviðum – líka í þjónustunni.

 

Viljum við skapa klofið hagkerfi   - tveggja þjóða?

Það er þess  vegna þörf fyrir öflug svör – til að forða okkur frá slíku ástandi. Við fáum ekki langan tíma til aðgerða – því breytingin er þegar komin á að hluta.   Það eru tvenns konar en ólík öfl sem vinna meira og minna meðvitað að því að innleiða þetta ástand og festa í sessi. 

 

Annars vegar einstrengingsleg stefna ríkisstjórnarinnar sem hefur reynst fylgispakari við línu Friedmans en nokkur önnur ríkisstjórn hins siðaða heims – þar sem þenslan verður keyrð með ríkisdrifnum framkvæmdum og afhendingu náttúrugæða. 

 

Hins vegar eru það þeir sem berjast gegn allri nálgun við fjármálakerfi Evrópusambandsins.   Heilir stjórnmálaflokkar virðast ganga út á það að vera á móti allri náglun við Evrópukjör almennings og fyrirtækjanna.    Meðan Davíð Oddsson réði húsum í Sjálfstæðiflokknum var bannað að ræða Evrópunálgun – og aðild.   Samtök Iðnaðarins hafa sýnt málinu áhuga og margsinnis komið því á dagskrá sína.  Önnur samtök í atvinnulífi hafa frekar drepið málinu á dreif.   Samtök launafólks hafa allt of lítið gert til að koma málinu á umræðustig.    Neytendasamtökin lenda enn og aftur í því að verða ótrúverðug í sinni umræðu þar sem þröngsýni ræður áherslum talsmannanna.

Valkostur

Samfélag hins nýja jafnvægis – í anda lýðræðis og jafnra tækifæra – samþykkir ekki að stjórnvöld láti slíka þróun ganga yfir – í framhaldi af þeim eðlisbreytingum sem gerbreytt fjármálaumhverfi hefur lagt grunn að.    Róttæk afstaða Samfylkingarinnar í anda hins nýja jafnræðis – kallar á að við setjum fulla ferð á greiningu á möguleikum íslendinga á að ná hagfelldum samningum við Evrópusambandið.  Slíkir samningar verða að hafa það markmið að færa almenningi aðgang að auknum lífsgæðum og meiri tækifærum til atvinnu og menntunar í framtíðinni.   

  • Sjálfbært atvinnulíf sem byggist á þekkingardrifnum greinum, sérhæfðri þjónustu og nýsköpun með hátækni er svarið.   Við eigum enga aðra færa leið til að skapa börnum okkar framtíðarhagsæld – með jákvæðri samkeppni.  

  • Fjárfesting í menntun, rannsóknum og þróun – um leið og stuðningur við nýsköpun er settur í forgang – verður að vera okkar leið út úr hagkerfi fátæktarinnar – þar sem “verðtryggða pappírskrónan” hefur leikið venjulegar fjölskyldur allt of hart – allt of lengi.  

Fjárfestingu í slíkri framtíð má hiklaust leggja upp með lánsfé til skemmri tíma – þannig að samdráttarskeið þarf ekki að verða undanfari umskiptanna. 

Skref

  • Álvæðinguna þarf  dempa eða frysta og færa síðan mögulega orkunýtingu í hógværan farveg hins nýja jafnvægis framundan.

 

 

  • Rannsóknarstofnanir hins opinbera  - og samstarfseiningar háskólanna þarf að virkja með stóraukinni fjármögnun – um leið og rannsóknir og fjárfesting í þróunarstörfum viðskiptalífsins verður örvuð með skattastefnunni og beinum meðfjárfestingum opinberra sjóða.

 

 

  • Skólakerfið verði byggt upp sem ein heild; og hætt að búta niður í ósamstarfshæf stig.   Leik- og grunnskólinn nái til 18 ára aldurs og fái eflingu í gegn um breikkun viðfangsefna – með íþróttum og listum innanborðs þannig að hlutfall þeirra sem skila viðunandi árangri stórhækki.  Framhaldsskólinn verði gerður að sérgreindum skóla sem sinni 18-22 ára nemendum.  Bjóði annars vegar undirbúning til háskólanáms; stúdentspróf sem nemendur geti lokið á 1-3 árum og hins vegar bjóði framhaldsskólinn upp á starfsmiðað nám og iðnnám; sem geti leitt hiklaust til sérhæfðs náms í tækni, listum og raunvísindum – innan háskóla eða sérhæfðari skóla.

 

 

  • Sérstök fjármögnun verði sett í gang fyrir endurmenntun fólks sem hefur litla eða enga starfsmenntun – og sér fram á að missa störf með breyttum vinnumarkaði.
 

Með þessu munum við sjá gerbreyttan jöfnuð í út- og innflutningi fólks frá Íslandi.   Við ættum einkum að finna tækifæri í innflutningi sérhæfðs starfsfólks frá öðrum löndum og læra að nýta okkur þann undirbúning sem hópar fólks frá A-Evrópu búa yfir en hafa fengið lítil tækifæri til að nýta í hagkerfi Vesturlanda.

 

Þetta verkefni og stefnubreyting er líklegt til að vinnast best sem hluti af nálgun og síðar aðild að Evrópusambandinu.  Það þarf að minnsta kosti að reyna á aðildarviðræður við ESB.     

Stórmál á ferðinni sem liggur í láginni

Hér þarf upplýsta umræðu sem stjórnmálaflokkarnir þurfa að kalla fram.   Háskólasamfélagið hefur hlutverki að gegna og aðilar vinnumarkaðarins  - ekki síst launþegahreyfingin verða að láta til sín taka.  Við vitum að VG og Sjálfstæðisflokkurinn leggjast gegn umræðunni – þeirra ær og kýr halda áfram að forðast jákvæða og leitandi orðræðu.    Það er einnig afar mikilvægt að passa að umræðan festist ekki í gamaldags þrætufari með heitingum á báða bóga – eins og Ragnar Arnalds var næstum búinn að ná fram í kjölfar ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar HÍ.   Við megum ekki sitja uppi með styrjöld milli sjónarmiða – sem auk þess klýfur okkur milli landsbyggðar og höfuðborgar.   

 Gamla byggðastefnan býður engar lausnir; en ný byggðastefna veltur algerlega á því að við innleiðum sjálfbæra atvinnustefnu – og færum okkur nær Evrópusambandinu.   Kaldhæðið að andstaðan við Evrópu-umræðuna virðist líklega mest í dreifbýlinu sem gæti haft mest að vinna með aðild – vegna sérsamninga sem ekki er svigrúm fyrir undir EES-samningnum. 

Þarna er ótvírætt hlutverk og vettvangur fyrir Samfylkinguna – að leggja að mörkum til að upplýsa; greina vanda og bjóða upp á lausnir.  Það er pólitík.

 

Áfram svo!