Kjörskrá lokuð

Kjörskrá Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi hefur verið lokað.  Nú á næstu dögum fá skráðir félagar kjörgögn send til síns heima.    Mikilvægt er að allir nýti sér réttinn til að kjósa og láti ekki sitt eftir liggja.

Ég hlýt að treysta því að þeir sem á annað borð hafa gefið sér tækifæri til að kynnast mínum málatilbúnaði - muni veita mér brautargengi.   Nýrrar forystu er ótvírætt þörf til að koma okkar málum á dagskrá  - og til þess að sækja um leið aukið kjörfylgi og nýja kjósendur.   

Samfylkingin þarf að setja sér markmið um að ná upp fylginu í NA-kjördæminu um nokkur prósent - eða amk. nægilega til að fá 3 þingmenn kjörna.  Á góðum degi væri raunsætt að gera sér vonir um að 4. maðurinn banki á dyr Alþingis.    Til þess þurfum við hins vegar samstillt stórátak.

Nú þurfum við sem sagt öll að leggjast á eitt til að tryggja góða þátttöku í prófkjörinu.    Þetta er fyrsta upphitun fyrir kosningabaráttuna - og það kemur að nokkru leyti í ljós á næstu dögum hvort unnt verður á ná upp stemmingu.  Ég vil sérstaklega biðja stuðningsmenn mína að fara fram með hófsemd en samt auðvitað af fullum þunga.  Látum  ekki muna neinum "herslumun."

Við þessar aðstæður er afar mikilvægt að þeir sem tekið hafa að sér forystu fyrir félög Samfylkingarinnar - og þá auðvitað sérstaklega kjördæmisráðið og prófkjörsnefndina - að koma þannig fram að jafnræði frambjóðenda sé virt í öllu efni.    Það er eitt mikilvægt hlutverk félaganna og kjördæmisráðsins að kynna flokkinn og vekja á honum jákvæða athygli. Kynning á prófkjörinu frá hálfu flokksins hefur fram að þessu verið allt of rýr - að mínu mati.  Mér þykir það t.d. mjög miður að útgáfa á landsblaði - sem fer í dreifingu með Fréttablaðinu - skuli  ekki koma fyrr en búið er að loka kjörskránni í NA-kjördæmi.  Kjörskrá er hins vegar ennþá opin - og prófkjörin opin - í öllum hinum kjödæmunum.  Þarna tel ég að við sjáum dæmi um það hvernig mismunandi reglur í prófkjörum skapa misvísun sem dregur úr trúverðugleika þeirrar aðferðar sem við höfum valið.   Fyrir næstu kosningar mundi ég vilja sjá að Samfylkingin væri búin að koma sér upp samræmdum ramma fyrir prófkjör - og þar með ákveða það með formlegri og flokkslegri samþykkt hvort prófkjör verða opin eða lokuð.

Það eru ótvíræðir hagsmunir flokksins að kynna prófkjörin  og frambjoðendurna alla og vinna almennt að því að skapa jákvætt andrúmsloft í kring um þessa aðferð við undirbúning framboðs.   Það er þá um leið réttlát krafa félagsmanna til forystumanna í flokksfélögum og starfsmanna og forystu Samfylkingarinnar á landsvísu að í þessu ferli ríki gagnsæi og jafnræði milli aðila.

Endurnýjun og sókn - er leið nýrra tíma og tækifæra