KEA á krossgötum

 

Samvinnufélög – til hvers?

 

Fyrstu ca. 70 ár síðustu aldar voru stofnuð samvinnufélög um allt land.   Sparisjóðir í formi (lokaðra) gagnkvæmra félaga störfuðu í fjölmörgum  byggðarlögum og þjónuðu einnig tilteknum starfsgreinum.    Þessi rekstrarform voru neytendadrifin og leituðu hagkvæmni fyrir félagsmenn og viðskiptamenn sína - - lágmarkshagnað (low-profit) eða uppgjör á kostnaðargrunni. 

Samvinnufélög og einkaframtak störfuðu að rekstri fyrirtækja í þjónustu og framleiðslu - hlið við hlið  og í misgóðri sambúð  -  en  ríki og sveitarfélög voru einnig mjög virk í atvinnurekstri allt frá því á kreppuárum milli heimstyrjalda.   Blandað hagkerfi var staðreynd þessa tímabils frá því um 1930-1970 

 

Uppúr 1960 hófst gríðarlega öflugur áróður gegn rekstri samvinnufélaga.    Morgunblaðið með Eyjólf Konráð Jónsson ritstjóra og alþingismann fór þar framarlega og mælti mjög fyrir ”hluthafavæðingu” atvinnurekstrar.   

 

Þrátt fyrir það urðu sveitarfélög og samvinnufélög mjög virk í uppbyggingu útgerða og fiskvinnslu samfara skuttogaravæðingu á landsbyggðinni frá 1971-1980. 

Verðtrygging og ofur-vaxtastig var innleitt frá 1979. 

Verslunarráð Íslands (nú Viðskiptaráð Íslands (Stórkaupmenn) og ekki síst Pétur Blöndal hófu andróður sinn gegn ”fé án hirðis”  - og fyrir markaðsvæðingu.    Löggjöf gerði samvinnufélögum erfiðara fyrir og nánast  útilokaði ”samlags-uppgjör” afurðastöðva (t.d. afurðasölulögin 1985).     Áhrifaöfl sameinuðust um að koma SÍS á kné 1990 -  eftir slysalega stjórnunarsögu og spillt samband stjórnmála og rekstrar.   Kaupfélög víða um land voru tekin til þrotameðferðar á þessum árum.    Brunabótafélagið og Samvinnutryggingar gáfust upp á rekstri ”gagnkvæmra tryggingafélaga” og VÍS varð til.   Tilraunir fóru af stað til að markaðsvæða sparisjóði. 

 

Því miður báru forráðamenn samvinnuhreyfingarinnar á vettvangi SÍS ekki gæfu til að gera hreint uppgjör á eignum og sameiginlegum arfi hreyfingarinnar á þessu tímabili.   Og það er ekki fyrr en að loknum umbreytingarfasa KEA 2001-2002 sem farið er að kalla eftir því af einstökum forráðamönnum félagsins að Samvinnutryggingum verði slitið og eignin greidd út til tryggjenda félagsins frá fyrri tíma.   Þegar loks var fallist á að greiða út eignir S.tr. kom Hrunið stóra. 

 

Árin 1995-1998 var KEA rekstrarfélag  í býsna þröngri stöðu – skuldum vafið og búið að missa stöðu gagnvart þjónustu við félagmenn sína.    Umbreyting til ársins 2002 var unnin á grunni býsna víðtæks samráðs við félagsmenn og nærsvæði.  

 

Árin 2001-2003 verð félagið ”farþegi” bóluhagnaðarins þegar  fyrst Lífeyrissjóður Norðurlands, Samherji hjálpuðu við að virkja eignir KEA og síðan Baugur og Samson/Burðarás kusu að eiga ”viðskipti” með Samherja sem skildu KEA eftir fyrir utan hið græðgisvædda hagkerfi fyrir það mesta - - þrátt fyrir að félagið sjálft og einstakir félagsmenn hefðu hagnast umtalsvert.  

 

KEA komst ekki að sem kaupandi í handstýrðri einkavæðingu ríkisbankanna.   KEA naut heldur ekki jafnræðis við aðra aðila við einkavæðingu Íslenskra Aðalverktaka eða Jarðboranir.    Félagið hagnaðist ekki sem eigandi Símans eða annarra gæða sem pólitíkin stýrði út úr opinberri eigu. 

 

Þegar rifjað er upp eftir á hvernig staðið var að sölu á Útgerðarfélagi Akureyringa/Brimi  af hálfu Landsbankans/Burðaráss nærri áramótum 2003-2004 fer ekki hjá því að mönnum detti í hug að þar hafi verið meira en gruggugt mjöl í pokahorni.    Einstakir þáverandi stjórnarmenn KEA og stjórnendur kunna engu síður að vera næstum fegnir að hafa ekki verið taldir ”samkvæmishæfir” með ”gullætunum” þegar þetta gekk yfir. 

 

Því miður  urðu stjórnendur KEA meira en veikir fyrir sjónarmiðum og áróðri markaðsvæðingarinnar og ákváðu að leita lags með fjárfestingarfélögum og fjármálafyrirtækjum.    Við trúðum því meira og minna öll að fjármálafyrirtækin væru traust, ábyrg og arðsöm til lengri og skemmri tíma.    Þannig er ekki úr vegi að rifja upp að árið 2007 var Erlendur Hjaltason forstjóri Exista sérstakur gestur aðalfundar KEA og árið 2008 veðjaði félagið sínu pundi á Saga Capital – og tók með því áhættu sem var umfram það sem stofnun bankans þarfnaðist til að komast á legg.     

 

Það vekur athygli að KEA er enn að freista þess að ”eignast sparisjóði” sem eigandi að hagnaðardrifinni starfsemi -  en ekki sem farvegur eða stuðningsaðili að því að efla neytendadrifna bankaþjónustu - - með lágmarks-kostnaði og hagkvæmri starfsemi – þar sem arði er stýrt til neytenda og til nándarsamfélagsins beint og óbeint. 

 

Öll nágrannalönd í Evrópu og Ameríku búa yfir fjölbreyttri flóru samvinnufélaga og gagnkvæmra félaga (tryggingafélaga-sparisjóða) – auk þess sem víða er löng hefð fyrir rekstri sjálfseignarstofnana og  alls konar ”non-profit” félaga í rekstri skóla, heilbrigðisstofnana og félagsþjónustu.    Ísland sker sig úr - - í gegn um hið græðgisvædda tímabil - - að því er það varðar að samvinnufélögum hefur fækkað ár frá ári – engin ný félög stofnuð og gagnkvæmum félögum hefur verið breytt í hlutafélög og þau markaðsvædd.    Kaupfélög ýmist í þrot eða í rekstur eignarhaldsfélaga og sparisjóðum stungið í vasa svokallaðra stofnfjáreigenda - - með örfáum undantekningum. 

 

Nú er hið græðgisvædda bóluhagkerfi hrunið – 100% innistæðutrygging neyðarlaga færði örfáum ríkum íslendingum og sjóðum og erlendum spákaupmönnum óskaddað herfang sitt - og ógnvænlegir fjármunatilflutningar halda áfram – með framlengdri verðtryggðri skuldakreppu.  

Stjórnvöld keppast við að endurreisa hið fallna fjármálakerfi og viðskiptakerfi - - í nánast óbreyttri mynd - - engum grunnforsendum hefur verið breytt - - þeir ríku verða ríkari þeir eignalausu eru áfram allslausir og þeir skuldsettu skulda bara meira  eða er haldið á ýtrustu þolmörkum greiðslugetunnar.    Þeim skuldugu sem halda í skilum er refsað – völdum hópum ofurskuldugra hyglað Ísland  2011 er nánast án þess að virkt markaðsaðhald sé til staðar – í formi neytendadrifinna samvinnufélaga eða sparisjóða.  

 

Hvað getur almenningur lagt að mörkum og hvað gæti KEA umfram aðra lagt að mörkum? 

·         Er ekki ástæða til þess að breyta núverandi viðskiptaumhverfi og freista þess að endurvekja samvinnufélög neytenda  - - með beinni aðild?

·         Getur KEA ekki lagt að mörkum fjármagn til að umbreyta eða endurstofna sparisjóð eða samvinnubanka -  í  beinni eigu neytenda/félagsmanna sem njóta hagræðis af viðskiptum sínum?

·         Er ekki skilvirkara að félagsmenn séu beinir eigendur og þátttakendur í verslun - - fremur en að félagið verði milliliður sem arðsemisdrifinn fjárfestir? 

·         Hefur KEA gert okkur eitthvert gagn síðustu missirin - - - eða hefur einhvers staðar munað um félagið – þannig að við gætum sameinast í stolti yfir árangri félagsins ”okkar”?

·         Hefur stjórn félagsins og stjórnendur þess leitað til félagsmanna um hugmyndir og átt samráð og samtal - - sem gæti virkjað félagslegan kraft okkar með einhverjum hætti?

·         Hefur stjórn félagsins og/eða framkvæmdastjóri komið fram sem frumkvæðisaðili og drífandi farvegur fyrir framfaramál í samfélaginu eða í nýsköpun og fjárfestingum á félagssvæðinu?

·         Er ekki tímabært að KEA fari í endurkoðunarfasa – eftir Hrun - - og skoði t.d. stjórnunarfyrirkomulag, endurmeti fulltrúastjórnun á aðalfundi, kanni með beina  kosningu formanns og/eða stjórnar félagsins – í almennum kosningum allra félagsmanna? 

 

Ef við svörum einhverjum þessarra spurninga jákvætt þá er ástæða til að beina þeim til nýrrar stjórnar félagsins.    

 

Ef við hins vegar svörum ekki þessum spurningum - - eða svörum þeim beinlínis neikvætt - - má þá ekki líta svo á að tilgangur félagsins liggi ekki endilega alveg ljós fyrir?   

 

Eigum við kannski fremur að drífa okkur í að slíta félaginu og skila fjármunum þess til félagsmanna og/eða til samfélagsins á starfssvæðinu?   Kannski ættum við að leggja alla handbæra fjármuni í (eina) fjárfestingu í flugstöð, Vaðlaheiðargöngum eða í sparisjóði fólksins?