Ímyndarsýkin getur reynst banvæn

Viðburðarstjórnun; - ímyndir og spuni.

Þessar vikur og komandi mánuði verður háð grimmilega barátta - - leynt og ljóst - - um athygli og fylgi kjósenda.   Í þeirri baráttu skiptir máli hvernig atburðir eru hannaðir og hvernig „foringjar“ og framboð verða markaðssett.

Í löngum aðdraganda Hrunsins Íslenska varð  ímyndarsköpun og markaðssetning hvers konar afar fyrirferðarmikil grein.    Síbyljan nærði og ræktaði hjarðhegðun sem að lokum lýsti sér sem „collective madness“ svo gripið sé til athyglisverðrar einkunnar sem Willem Buiter gaf íslenskri þróun ca.20 ára.  

Mikilvægur þáttur í ímyndarsköpun er að draga upp fegraðar og jákvæðar myndir -  um leið og breitt er yfir eða athygli dregin frá neikvæðari hliðum.   Í því felst að ekki er unnið með raunsannar eða heildstæðar myndir - - og forðast er með öllu að gefa „neytandanum“ tækifæri til að verða sjálfur upplýstur um kost og löst.

Klisjur, glansmyndir, umbúðahönnun og jafnvel áróður eru þannig ær og kýr ímyndarsmiða og markaðssérfræðinga.   

Pólitíkin hefur ekki farið varhluta af þessarri þróun.   Síðustu áratugir íslenskrar póltíkur, prófkjara og peningavæddrar stjórnmálabaráttu hafa hiklaust orðið til þess að málefnin og meiningarmunur eða stefnuágreiningur einstaklinga hefur vikið fyrir tæknilausnum og markaðssetningu.   Ekki má heldur gleyma þekktu spillingarumhverfi þar sem klíkur og bandalög innan stjórnmálaflokka og tengsl við öfluga hagsmunahópa atvinnu og fjármálalífs og íþróttahreyfingar hafa fleytt völdum einstaklingum í toppsæti framboðslistanna.  Menn sækja þannig fram til áhrifasæta í framlínu stjórnmálanna án þess að leggja að mörkum grundaða yfirvegun, skýrar áherslur eða bein þjóðfélagsleg markmið.   Hugsjónir og hugmyndir hafa að mörgu leyti orðið einstaklingum fjötur um fót - - þegar komið hefur að Morfís-væddri kappræðu stjórnmálanna þar sem aðgangur  að vinum og jafnvel  eign á fjölmiðlum getur haft úrslitaáhrif á gengi einstaklingsins.

Með innkomu Besta-flokksins var þessi tegund stjórnmála leidd á nýtt stig.   Grínagtugur einstaklingur var umkringdur af öflugum viðburðastjórnendum og markaðsmönnum og lýsti frati á þrætupólitík samtímans og sjálfheldu hefðbundinna stjórnmála.   Engin hefðbundin markmið eða samfélagssýn lá til grundvallar og „poppað skemmtigildi“ - í bland við fáránleikann - safnaði vonsviknum kjósendum til fylgis.    Meira en þriðjungur Reykvíkinga sendi Jón Gnarr og co í Ráðhúsið . . . . og hefur sennilega takmarkaðar áhyggjur af því hvernig stjórnun borgarinnar fer næstu árin . . . „fullviss um að hún verður ekki verri en hjá gömlu flokkunum:“

Á Akureyri stigu kjósendur ennþá lengra út úr flokksbundnu förunum, með því að  7 bæjarfulltrúar af 11 voru kosnir af L-lista og A lista utan flokka.    Kannski bendir það einkum til að „Dalvíkur-pólitík“ Kristjáns Þórs Júlíussonar og lærisveina hans í Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni hafi reynst ennþá verr en hringavitleysa síðasta kjörtímabils í Reykjavík.

Landsfundur Samfylkingarinnar er rétt að baki.  Ráðstefna ríkisstjórnar og AGS heltók fjölmiðlana í liðinni viku.    Hvorugur þessi vettvangur bendir til þess að Samfylkingin hafi minnsta áhuga á að leggja skýrar pólitískar línur - - - eða endurmeta meginstefnu og draga lærdóma af skipbroti markaðshyggjunnar sem sannarlega hafði mengað áherslur flokksins og einstakra flokksbrota.

Landsfundur VG kristallar hversu gríðarleg mótsögn felst í framgöngu flokksins í ríkisstjórn miðað við markmið og málflutning fyrir 2009.  Þegar formaður flokksins sækir stuðning við sitt eigið einstregingslega  sjálfshól helst til AGS og  alþjóðlegra kröfuhafa vegna „velheppnaðrar“ endurreisnar fjármálakerfis í óbreyttri mynd – þá er nú „stungin tólg“ eins og sagt var í málheimi bernsku minnar.

Nú les ég viðtal í DV við viðburðastjóra Besta flokksins sem óbeint lýsir sjálfri sér sem snillingi.   Þar er enn og aftur að finna sjálflæga persónudýrkun og spuna sem ekki minnist einu orði á grundvallaratriði samfélags.    Gerviheimur fjölmiðluna og skemmtimennsku, ímyndarsköpun og spuni, hefur þarna öll völd.  Kannski er það blaðamaðurinn sem ræður förinn - - og kannski er hann einmmitt hluti af þessarri gríðarlega öflugu markaðssetningu sem virðist hafa svo mikil áhrif á pólitík samtímans.

Hvernig Guðmundur Steingrímsson tengist og tengir sig inn í þessa pólitík Besta flokksins hljómar gríðarlega sérkennilega.   Kannski er það allt með ráðum gert - - og kannski ætlaði Guðmundur Steingrímsson ekki eftir allt saman að blanda sér í pólitík eða pólitíska baráttu fyrir hugsjónum eða samfélagslegum hugmyndum og lýðræði.    Kannski vill Guðmundur einkum fá að vera skemmtilegur í partíinu með Jóni Gnarr og koma fram í kjól með varalit þegar mikið liggur við.

 

Með vísan til þess sem hér er á undan sagt þá met ég það svo að enn sé afar mikið hugmyndalegt tómarúm í íslenskum stjórnmálum.   Það hlýtur einmitt að vera rými og vonandi eftirspurn eftir einstaklingum sem færir eru um að leiða saman hóp og hópa af góðviljuðu fólki til að verða farvegir þjóðfélagslegra umbóta.   Þess er þörf því ekkert gerist án grundaðrar hugsunar, vitsmuna og góðvilja og til þess þarf bæði kjark og staðfestu.

Það þar að bæta lýðræði og takmarka yfirgang sérhagsmuna og ranginda í stjórnmálum og viðskiptalífi.    Það þarf að innleiða aukinn jöfnuð og almennari tækifæri fyrir alla þannig að lífsgæði vaxi og efnahagsleg afkastegeta samfélagsins verði nýtt til hins ítrast.   Það þarf að tala fyrir aukinni sanngirni, réttlæti og umburðarlyndi og efla hófstilltari sjálfsmynd þjóðar eftir bjánalegt sjálfshól útrásar-brjálæðisins.

Hvar finnum við þetta góða fólk og hvar getur orðið vettvangur þess til áhrifa?