Heilbrigðislögin - aðför að landsbyggðinni!

Fyrir nokkrum mánuðum kynnti ríkisstjórnin frumvarp að breyttum heilbrigðislögum.   Þar kemur fram afar varhugavert viðhorf til þjónustu á landsbyggðinni og þar er ekki síður að finna fráleitar hugmyndir um ráðherraræði og duttlungastjórnun.  Þetta frumvarp dregur fram þá þróun sem þegar er komin fram að hluta - þar sem búið er að leggja niður sjálfstæðar stjórnir einstakra stofnana.     Sjúkrahúsin eru nú formlega útibú frá ráðuneytinu í Reykjavík - framkvæmdastjórarnir eru útíbússtjórar sem hafa ekki lengur heimild til að tala sjálfstæðri röddu - hvað þá að berjast fyrir hagsmunum og uppbyggingu þjónustunnar.   Þeim er því vorkunn að halda sig til hlés  - eða hætta öðrum kosti.  

Fagfólkið hefur með sama hætti minni og minni möguleika á að verða mótandi aðilar og þátttakendur í framsækinni þróun fyrir hönd starfseminnar.    Þeir einir sem hafa sérstök tengsl við sitjandi ráðherra og ríkisstjórn geta gert sér vonir um framgang sinna verkefna.  Þetta umhverfi  getur jafnvel virkað þannig að þeir sem ekki eru í talsambandi við ráðherrann eða ríkisstjórnina standa frammi fyrir því að þeir telja sér ekki fært að hafa skoðun  - amk alls ekki að tjá afstöðu sína opinberlega.   Þetta er þannig enn eitt vísbendið um að það ráðherraræði sem "foringjastjórnmál síðasta áratugar" innleiddi er stórvarasamt; - bæði fyrir lýðræðið í landinu og þá um leið fyrir þróun þjónustu og lífsgæða.

Hótun um ennþá meira ofbeldi ráðherra 

Kynningu á frumvarpinu fylgdu drög að reglugerð - um skipan stofnana og héraða.  Þar er enn boðuð ótrúlega ruddafengin aðferð við að stokka upp skipan og rekstrarsvæði.  Eitt dæmi þar um er sú hugmynd að heibrigðisstofnanir - frá Blönduósi að Þórshöfn - utan Akureyrar - verði gerðar að einni stofnun með stjórnsetur á Sauðárkróki.    Þjónustulega og rekstrarlega er hugmyndin fráleit - og gengur gegn öllum hugmyndum og faglega nánd og ábyrgð gagnvart neytendum.   Þessi hugmynd er "nýlendustefna" í úreltasta formi og sýnir ótvírætt að skortur er á virðingu fyrir leikreglum lýðræðis - og jafnframt er gengið í berhögg við alla nýlega þekkingu á stjórnun og fagmennsku í heilbrigðisþjónustu.   Siv vill ekki kannast opinberlega við að hún hyggist fylgja lagasetningu ná á haustþingi eftir með því að setja reglugerð í því formi sem kynnt var á síðasta vori.  Sama samt - verði lagafrumvarpið samþykkt óbreytt - þá verður hótunin um grímulaust ráðherraeinræði virk.   Siv verður ekki endilega lengi í ráðuneytinu - og við gætum alveg eins átt von á að næsti eftirmaður hennar mundi ekki hika við að innleiða "hugmyndir ráðuneytisins" eins og þær koma fram í reglugerðardrögunum.

Hvað er til ráða

Það er afar mikilvægt að stöðva málið svo unnt sé að stíga til baka.  Fyrsta skrefið er að berja niður frumvarp ríkisstjórnarinnar og til þess þarf samstillt átak starfsmanna heilbrigðisstofnananna og heimamanna á hverjum stað.    Jafnframt þurfum við sem sækjumst eftir því að leiða Samfylkinguna til áhrifa í ríkisstjórn að loknum kosningum að bjóða upp á aðra framtíðarsýn.   Það vil ég gera hér á eftir

  • Breyta þarf stjórnunarfomi heilbrigðisstofnana þannig að þær njóti sjálfstæðis og þar getur sjálfseignarstofnunarformið komið til álita fyrir amk. allar stærri stofnanirnar á landsbyggðinni.   Með því móti er unnt að kalla fulltrúa sveitarstjórna - almannasamtaka og fagfólkið til virkra áhrifa. Umleið geta rekstrarsamningar og sértækir verkefnasamningar við aðila inna og utan heilbrigðiskerfisins - innanlands og utan - geta skapað vaxtartækifæri sem "valdið fyrir Sunnan" mundi ekki heimila.  Um leið verða framkvæmdastjórar sjálstæðir og ábyrgir stjórnendur sem get sótt fram fyrir hönd starfseminnar.
  • Í NA-kjördæmi þarf að styrkja sjálfstætt samstarf þeirra stofnana sem eru starfhæfar - og umfram allt líta á að Akureyri sé hluti af heild - en ekki eyland.   FSA þarf að byggjast upp sem fullkomið sérgreinasjúkrahús - með háskólatengslum - og um leið sem fullburðugt varasjúkrahús fyrir landið allt.  Eðlilegt að efla bráðaþjónustu á FSA til að takast á við breyttar kröfur um samgöngur og draga úr þörf á sjúkraflutningum til Reykjavíkur.   Heilbrigðistofnanir  í Fjallabyggð verða brátt í samstarfsgír - og nærþjónustu á Dalvík þarf að treysta til frambúðar.   Heibrigðisstofnun Þingeyinga er þegar að þjónusta stórt svæði - og þarf ótvírætt að efla nærþjónustu t.d. í Mývatnssveit - bæði sumar og vetur.   Fjórðungssjúkrahúsið á Neskaupsstað og aðrar heilbrigðisstofnanir á Austurlandi eiga ekki aðvelt með að vaxa saman og verða ein þjónustuheild fyrr en stigin verða stór skref til samgöngubóta - með gerð jarðganga - "Austurstjörnuna" sem byggja upp nýjan öxul samskipta á milli stærstu kjarnanna.

Stöndum saman - og breytum um stefnu

'I fjárlagafrumvarpinu sem fyrir liggur má lesa hvern hug ríkisstjórnin ber til þjónustu á landsbyggðinni.  Þar eru áform um frekari skerðingu  - eða takmörkun á þjónustu ítrekuð.   Þetta gerist á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn setur met í skattheimtu - og rekstrarfgangur ríkissjóðs 2005 var 113 milljarðar (ótrúleg tala).  Ríkisstjórn jafnaðarmanna gæti aldrei leyft sér að leggja fram fjárlagafrumvarp sem gengi svona harkalega fram gegn jafræðissjónarmiðum íbúanna.  Hér gildir það sama og í öðrum málaflokkum ríkisvaldið verður að leggja að mörkum og skila til baka til landsbyggðarinnar umsvifum í þjónustu - sem fara nær réttlátri skiptingu með vísan til skattheimtu og dreifingar íbúa.

Hér er því verk að vinna.  Ég heiti á alla starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar í NA-kjördæmi að kynna sér málin - eins og þau liggja fyrir.  Að því gerðu leyfi ég mér að skora á menn að skrá sig til þátttöku í prófkjörinu hjá Samfylkingunni og setja Benedikt í 1. sæti.

Um leið hvet ég allan almenning til að  krefja sína sveitarstjórnarmenn um að kalla eftir áhrifum heimamanna - á stjórn og þróun heilbrigðisþjónustunna.  Það er allt í lagi að viðurkenna að það voru mistök sveitarstjórnarmanna að semja sig frá áhrifum á málaflokkinn á sínum tíma - það sést best á því hvernig ráðuneytið hunsar sjónarmið heimamanna í þeim tillögum sem fyrir liggja.  Ráðuneytismenn hafa hins vegar lýst þeim létti - að vera lausir við "þrýstihópa heimamanna" - sem oft náðu árangri.