Eftir jólin - og svo nýtt ár

Margt í gangi - opinber hlutafélög og "þjóflendumálin"

Hef tekið mér frí frá skriftum yfir jólin.  Réttlæti það með því að það sé mikið að gera.  Er byrjaður að sinna nýrri vinnu og enn að ganga frá prófum og verkefnum - í Háskólanum á Akureyri.

Nýtt ár verðskuldar það að við séum bjartsýn;

 - svona almennt.  Það er von um breytingar í kosningum - en sú von er hvergi nærri rakin.  Til þess þarf að nást stemming og samstaða um að stíga hiklaust inn í nútímann.   Samfylkingin er í ögrandi stöðu og enn er tækifæri til að nýta sér svigrúmið og sinna kjósendum með hefðbundnar og hófsamar skoðanir yfir miðjuna og til vinstri.

Kannski er "samfélagshyggja" og "jafnræðissamfélag" - eða "ný-jafnaðarstefna" hugtök sem við ættum að keppast við að gefa innihald og útskýra fyrir  kjósendum.

Það er alla vega alveg klárt að þörf er á að ná frumkvæði í orðræðunni - um samfélagslegar lausnir.   Samfylkingin hefur ekki ennþá megnað að reka "sóknarbolta" - heldur verst í vök í umræðunni.  Þar er enn við að sakast að Össur er ekki í takt við raunveruleikann.

Misvísun í hugtakanotkun;  er til dæmis um það.   Þegar Björgvin G. Sigurðsson talar um ríkisvæðingu RÚV - þá er Össur að fjasa um einkavæðingu - með því að skilgreina RÚV sem opinbert hlutafélag.   (Eins og við séum ekki búin að fá smjörþef af slíkri vitleysu í Flugstoðum OHF.)  Var Samfylkingin etv. ekki með jákvæðan málflutning varðandi OHF-un Flugmálastjórnar - var SF ekki á móti því eins og málinu var stillt upp?

Er Samfylkingin ekki beinlínis andvíg því að breyta samfélagsfyrirtækjum - eins og RÚV og sjúkrahúsum og skólum í hlutafélög?  Viljum við ekki sjá þessi þarfaverkfæri í formi sjálfstæðra stofnana - SJÁLFSEIGNARSTOFNANA - sem reknar skulu í almannaþágu og með almannaþátttöku?

Þjóflendumálin - í Þingeyjarsýslum

eru eitt alvarlegt dæmi um yfirgang ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.  Gerðar eru kröfur um stórfellda eignaupptöku - þjóðnýtingu án bóta - í anda Múgabe eða Stalíns sáluga.  Gengið er lengra í kröfum en annars staðar áður - niður í sjó og heim í hlað - og einstaklingum gert að setja stórfé og tíma - í að verja hendur sínar og eigur.   Um leið er þinglýst kröfum ríkisvaldsins sem þýðir að eignir eru gerðar nytjalausar og í einhverjum tilvikum kann skuldsett fólk að lenda í vanda gagnvart lánastofnunum.  Allir eigendur lenda í því að eignir sem gerð er krafa í eru frystar um óákveðinn tíma.

Einka(vina)væða veiðiheimildir í sjó - og mikilvægar ríkiseignir

en ríkisvæða land sem hefur verið um langan aldur ótvíræður grundvöllur einkaeignarskipunar á Íslandi.   Mótsögn ekki satt?

Hér vildi ég sjá að Samfylkingin hefði stefnu - sem er samkvæm þeirri stefnu sem mótaðist í andstöðunni við vatnalögin  - sem frestað var til hausts 2007 að kröfu stjórnarandstöðunnar.

Samfylkingin vill ekki vera flokkur ríkisvæðingar - og ekki heldur flokkur sem samþykkir yfirgang ríkisvaldsins gagnvart einkaeignarrétti á landi.    Samfylkingin má ekki detta í það að endurvekja "úreltar" og kreddufullar hugmyndir um þjóðnýtingu lands og auðlinda - í anda gamla Alþýðuflokksins og Alþýðubandlagsins.  

Það væri hins vegar rökrétt að taka upp jarðalögin og setja takmarkanir á eignarlönd stórmógúla - og þá alveg sérstaklega takmarkanir á það hversu stóran hlut í beingreiðslum einstakir jarðeigendur geta tekið til sín.  Mætti sækja fyrirmyndir til Danmerkur og Noregs - við þurfum ekki að vera hér með frjálshyggjukreddu sem stríðir gegn allri skynsemi.

Jóhann Ársælsson hefur til málanna að leggja í þessu efni eins og svo mörgu öðru.